20.04.1926
Neðri deild: 58. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 168 í D-deild Alþingistíðinda. (2883)

88. mál, björgunar- og eftirlitsskipið Þór

Jakob Möller:

Jeg hefi því miður ekki tilbúna brtt., sem jeg ætlaði að koma með í þessu máli, en jeg vona, að hv. deild geti leyft henni að koma undir atkvæði, þótt hún sje skrifleg, því að hún er mjög ljós og auðvelt að átta sig á henni. Hún er um það, að orðin: „enda leggi bæjarsjóður Vestmannaeyja 25 þús. kr. fram árlega til útgerðar skipsins“ falli burt. Það er nú ráðið að kaupa „Þór“ til þess að hafa til strandvarna, og það er sýnt, að þetta skip gerir mikið gagn sem slíkt skip; seinast í gær kom hann með 3 togara. (TrÞ: 4). Já, 4 voru þeir, en það er líklega af því, að einn þeirra slapp úr haldi í nótt, að jeg taldi aðeins þá 3, sem eftir voru. En „Þór“ handsamaði þessa togara alveg slyndrulaust, og það hefir ekkert borið á því, sem menn óttuðust í fyrstu, að hann hefði ekki nauðsynleg skilyrði til þess að annast strandvarnir.

Úr því að ríkissjóður tekur nú skipið og gerir það fyrst og fremst út sem strandvarnaskip, má ekki ætlast til, að Vestmannaeyingar fari líka að gera það út, enda þótt tilætlunin sje, að það annist einnig björgunarstarfsemi um vertíðina við Eyjamar og eftirlit veiðarfæra, En þetta getur skipið annast jafnhliða strandvörnunum, því að sem strandvarnaskip getur það verið á sömu slóðum og sem björgunarskip. Þess vegna er það alveg ástæðulaust að gera þá kröfu til Vestmannaeyinga, að þeir leggi fje til útgerðar skipsins. Alþingi ætti miklu fremur að vera Vestmannaeyingum þakklátt fyrir að hafa hrundið áleiðis þessari starfsemi, með öllum þeim mikla kostnaði, sem af henni hefir leitt fyrir þá. Þeir keyptu skipið fyrir mikið verð, á 3. hundrað þús. kr. Þeir fengu að vísu styrk úr ríkissjóði, en lögðu samt fram mikið fje, sem safnað var í Eyjunum, og þeir hafa alveg gert skipið út og varið til þess samt. kr. 444,970,75, sem er gífurlegur kostnaður. Eins og gefur að skilja, hafa Vestmannaeyingar ekki getað lagt þetta fram án þess að stofna til stórskulda. Og 2 árin sjerstaklega varð útgerðarkostnaðurinn mikill, eða 265 þús. kr., árin 1920 og ’21, og þá urðu þeir að taka lán til þess að standast hann, og er árleg greiðsla af því ca. 13 þús. kr. Hjer við bætist, að björgunarstarf og veiðarfæraeftirlit Þórs er ekki unnið eingöngu fyrir Vestmannaeyjar, heldur eru þar gerðir út mótorbátar frá öllum landshlutum, og á bátum Vestmannaeyinga sjálfra stunda ekki aðeins Vestmannaeyingar veiðar, heldur menn úr öllum landsfjórðungum. Er því starfsemi Þórs ekki eingöngu í þágu eyjaskeggja, heldur líka annara. Hjer við bætist svo enn það, að það varðar alt landið að bjarga mannslífunum, því að þótt einstök hjeruð bíði mest tjón við það í svipinn, er menn farast, þá lama mannskaðarnir samt alla þjóðina í heild sinni. Enn má líta á það, að verðið, sem ákveðið er fyrir skipið, er hvergi nærri fult verð, því að hvergi væri nú hægt að fá jafngott skip fyrir þetta verð. Og ef Vestmannaeyingar ættu að leggja fram fje til útgerðar þess, fær ríkissjóður skipið í raun og veru fyrir ekki neitt. Og Vestmannaeyingar leggja með því, þar sem þeim er ætlað að leggja fram allháa upphæð árlega.

Jeg held, að björgunarstarfsemin komist ekki í viðunanlegt horf fyr en ríkissjóður tekur hana að sjer og þann bagga, sem af henni leiðir. Það þarf að annast þessa starfsemi víðar en í Vestmannaeyjum, og það hefir fyllilega vakað fyrir mönnum að hafa strandvarnaskipin til þeirrar starfsemi, því að slíks skips er einmitt mest þörf þar, sem mest útgerð er rekin, og liggur því í hlutarins eðli, að samrýma má þessa tvennskonar starfsemi. En að útgerðar- „plássin“, t. d. Hornafjörður, geti sjálf annast björgunarstarfsemina, nær vitanlega engri átt. Þau geta ekki komið upp svona skipi og því síður borið útgerð þess, og það því síst eftir þær breytingar, sem gerðar hafa verið nú fyrir skemstu á útsvarslöggjöfinni, þar sem ekki er lengur heimilt að leggja neitt verulega á þá menn, sem þar stunda útgerð, en eiga þar ekki heima.

Jeg sje enga ástæðu til þess, að hjer geti verið um hættulegt fordæmi að ræða, því það er alveg óhjákvæmilegt að fara svo að, sem hjer hefir verið gert. Hinsvegar hafa Vestmannaeyingar þegar lagt svo mikið í sölurnar, að þótt einhver líti svo á, sem hjer sje farið fram á einhverja ívilnun þeim til handa, þá eiga þeir það fyllilega skilið, að þessi baggi sje ekki lagður á þá. Legg jeg því þessa till. fram og vænti þess, að hæstv. forseti beri hana undir atkvæði.