08.05.1926
Sameinað þing: 5. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 214 í D-deild Alþingistíðinda. (2934)

34. mál, fyrirhleðsla fyrir Þverá

Benedikt Sveinsson:

Það er nú næsta erfitt fyrir þm. utan hjeraðs að taka ákvarðanir í þessu máli, þegar þingmenn kjördæmisins greinir á um, hverjar leiðir fara skuli. Mjer skilst þó, að þessi till. sje sambland af óskum þeirra beggja. Fyrri hluti hennar heimilar fje til bráðabirgðafyrirhleðslu, en í síðari hlutanum er skorað á ríkisstjórnina að láta rannsaka og gera áætlun um fullkomna fyrirhleðslu til varnar skemdum af Markarfjóti og öðrum nálægum vatnsföllum. Jeg þykist nú vita, að allir menn sjeu sammála um það, að rjett sje að verja fje til þess að aftra eyðileggingu af völdum Þverár eða Markarfljóts austur þar. En hitt vildi jeg benda á, að þar sem svo er um mælt í niðurlagi till., að rannsókn skuli gerð og áætlun lögð fyrir næsta Alþingi, þá hygg jeg, að með því sje fullmikið í fang færst. Verkfræðingur landsins hlýtur að hafa mörg og mikil störf í sumar, svo að jeg hygg, að honum muni verða ofætlun að inna þetta verk af hendi á svo skömmum tíma, sem hjer er ætlast til. En það er mikils um vert, að gengið sje úr skugga um það, hvað slíkt stórvirki sem þetta muni kosta.

Líka ber á það að líta, hvort það er ekki sýslunni um megn að kosta verkið að sínum hluta. Kunnugir menn vita, að hjer er ekki um neitt smásmíði að ræða. Jeg vildi aðeins vekja máls á því, að ekki væri svo mjög hrapað að rannsókn þessa máls. — Þá vildi jeg og beina því til hv. flm. og hæstv. stjórnar, hvort ekki mundi nauðsynlegt að fá erlenda sjerfræðinga til þess að rannsaka rensli stórvatna þessara og gera sem nákvæmastar áætlanir um framkvæmd og kostnað verksins. Það er mjög áríðandi, að menn renni ekki blint í sjóinn með slíka hluti.

Annars er það síður en svo, að jeg vilji leggja á móti þessu máli. En jeg álít, að alt verði að rannsaka sem gerst, áður en lagt er hjer í mikinn kostnað.

En nú hafa þeir háttv. þm., sem kunnugir eru þar eystra, og þá einkum hv. 1. þm. Rang. (EP), látið í ljós, að nokkurt fje, þó ekki væri nema fá þúsund, mundi gera gagn í svip og varna tjóni á vissum stöðum, og til þess smáræðis þarf að vísu lítinn undirbúning.