05.05.1926
Neðri deild: 70. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 241 í D-deild Alþingistíðinda. (2954)

86. mál, rýmkun landhelginnar

Flm. (Pjetur Ottesen):

Hv. 2. þm. Reykv. (JBald) sagði nú síðast, að hann teldi líklegra og að heppilegra mundi vera að leita beint til stjórnmálamannanna á Englandi um þetta mál, heldur en að reyna að undirbúa jarðveginn með því að snúa sjer til útgerðarmannanna og reyna að opna augu þeirra fyrir nauðsyn málsins. Út af þessum ummælum vil jeg benda hv. þm. á, að það er hvorttveggja, að það hefir verið reynt að fara stjórnarleiðina með þetta mál, en ekki borið árangur, eins og kunnugt er, og svo hitt, að einasta vonin til þess að fá Englendinga til að ganga að þessum breytingum, er að geta sannfært þá um, að hjer sje um alþjóðanauðsyn að ræða, að með þessu sje jafnframt verið að tryggja þeirra hag. Því er það nokkurn veginn víst, að sje hægt að opna augu útgerðarmannanna á Englandi fyrir þessari nauðsyn, vekja hjá þeim áhuga fyrir málinu, þá má telja víst, að björninn sje unninn. Þess vegna er áreiðanlega heppilegt að fara þessa leið, sem hv. 2. þm. G.-K. (ÓTh) stakk upp á, og búa þannig í haginn fyrir okkur, áður en málið svo endanlega verður lagt fyrir bresk stjórnarvöld.

Þá hjelt hv. þm. (JBald) því enn fram, að við mundum vera samningsbundnir við aðrar þjóðir um landhelgina. Þetta er hinn háskalegasti misskilningur, og blátt áfram óforsvaranlegt að halda þessu fram og það opinberlega. Við erum ekki samningsbundnir við neina þjóð um landhelgina nema Englendinga, og það eingöngu um þá landhelgi, sem snertir fiskiveiðarnar.

Þannig var það í lög tekið á síðasta Alþingi, að á tollmálasviðinu skyldi gilda 4 sjómílna landhelgi. Innan þeirrar landhelgi má til dæmis að taka gera upptæk öll vín, sem óleyfilegt er að flytja til landsins. Þetta sýnir sjálfsákvörðunarrjett okkar um landhelgistakmörkin, að því leyti sem samningar standa þar ekki í vegi, en viðvíkjandi landhelginni er ekki um neina samninga að ræða, eins og jeg hefi oft tekið fram, nema samninginn við Englendinga.