10.05.1926
Neðri deild: 75. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 290 í D-deild Alþingistíðinda. (3017)

116. mál, strandferðir Esju

Flm. (Þorleifur Jónsson):

Jeg get þakkað hæstv. atvrh. (MG) góðar undirtektir hans. Virtist hann vilja taka til greina till. Býst jeg við, að menn mundu sætta sig við, þótt annað farþegaskip yrði en Esjan. En hitt efast jeg um, að aukinn kostnað mundi af því leiða, að hún hæfi strandferðir svo sem mánuði fyr. Þótt í till. standi 1–2 ferðir, er meiningin, að svo verði til hagað, að hægt sje að fá einu sinni beina ferð austur og öðru sinni beina ferð suður um miðsvetrarleytið.

Hv. þm. N.-Ísf. (JAJ) þótti viðsjárvert að samþykkja till. nema vísa henni til samgmn. En. till. er svo ljós og auðskilin, að ekki þarf heilabrota við. Enda tíminn orðinn naumur. Og auk þess er jeg viss um, að hv. nefnd mundi mæla með till. Yrði það því aðeins til að tefja tímann, og hætt við, að hún yrði aftur úr. Jeg óska því, að gengið verði til atkv. um till. þegar í stað.

Hæstv. atvrh. (MG) gat þess, að sparnaðarráðstafanir yllu því, að Esja væri látin standa í naustum þennan tíma. En jeg hefi ekki getað gert mjer ljóst, í hverju sá sparnaður ætti að vera fólginn.

Í skýrslu frá Eimskipafjel. 1925 er tilgreint tap á strandferðum kr. 77,400,26, en tap þegar skipinu var lagt upp 71,949,17.

Eftir þessari skýrslu að dæma virðist það ekki kosta lítið að láta skipið liggja. Mundu tekjur af flutningi jafna sig nokkuð á móti tapinu, en ótvírætt hagræði landsmönnum, að skipið sigli.

Jeg mæli á móti, að till. fari í nefnd, af því að tíminn er orðinn svo naumur. (JAJ: Sem form. samgmn. lofa jeg, að nefndin skuli hafa lokið athugun sinni fyrir hádegi á morgun).