11.05.1926
Neðri deild: 76. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 293 í D-deild Alþingistíðinda. (3022)

116. mál, strandferðir Esju

Frsm. (Jón Auðunn Jónsson):

Eins og um var talað á síðasta fundi, hefir samgmn. athugað þessa till., sem hjer liggur fyrir, og getur eftir atvikum lagt til, að hún verði samþ., með því fororði, að það geti ekki verið ákveðinn neinn viss dagur, þegar Esja á að byrja strandferðirnar, vegna þess að það þarf að senda hana til útlanda til aðgerðar að loknum strandferðum í desember, og er alls ekki víst, að hún yrði komin úr þeirri ferð 1. febr.

Leggur nefndin því til, að síðari liður till. sje skilinn svo, að Esja skuli koma frá útlöndum upp til Austfjarða og koma svo til Reykjavíkur sunnan um land. Verði hún þá ekki notuð til ferðar norður og vestur um land, skuli hún, þegar hún byrjar ferðir eftir heimkomuna til Reykjavíkur, fara suður um land og austur, til þess að Austfirðingar þeir, sem komu með henni þegar hún kom úr utanlandsferðinni, fái betri og fljótari ferð heim til sín aftur.

Þó er þetta bundið því skilyrði, að stjórnin geti ekki sjeð fyrir þessum ferðum á annan hátt, t. d. með Gullfossi, er ríkissjóði yrði ódýrari. Jeg býst við því, að þegar Esja kemur sunnanlands frá útlöndum og Austfjörðum, þá vilji þeir, sem með henni hafa komið, ekki fara strax aftur austur, og geri jeg þá ráð fyrir því, að þar sem litlar samgöngur eru við Vesturland um þetta leyti árs, þá fari Esja vestur um land til Ísafjarðar, áður en hún byrjar hinar reglulegu strandferðir.

Eins og hæstv. atvrh. (MG) tók fram, þá er ekki hægt að slá neinu föstu með þetta. En það er vilji nefndarinnar, að Esja komi upp til Vopnafjarðar, þegar hún kemur frá útlöndum, og fari suður um til Reykjavíkur. Því verður ekki neitað, að Austfirðingar eiga erfitt með samgöngur á þessum tíma árs og fá fáar beinar ferðir hingað. Og þótt þeir geti notað Goðafossferðina um líkt leyti, þá er það miklu verra fyrir þá, þar sem hann fer norður um land. Auk þess verður hann hlaðinn vörum, en Esjuferðin verður aðallega fyrir farþega, sem hafa lítið gagn af því að fara með öðru skipi.