08.04.1926
Sameinað þing: 4. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 429 í D-deild Alþingistíðinda. (3143)

73. mál, kröfur til trúnaðarmanna Íslands erlendis

Klemens Jónsson:

Mjer datt það sannarlega ekki í hug, að jeg þyrfti að standa upp í þessu máli, til að bera af mjer gamlar sakir, sem löngu er búið að hrekja fullkomlega. Jeg hafði heyrt því fleygt, að hæstv. fjrh. (JÞ) hafi á fundi í Borgarnesi verið með hnútur til mín fyrir að hafa lítið gert til að fá afnuminn ullartollinn í Bandaríkjunum. Jeg trúði því nú trauðlega, að þetta væri rjett hermt, þar sem jeg var ekki á þeim fundi og átti ekki neinn kost á að verja hendur mínar. En nú hefir hæstv. fjrh. (JÞ) endurtekið þetta hjer í dag, svo að sögumar hafa verið rjettar. Jeg verð því að fara um þetta mál nokkrum orðum, þótt það sje ekki á dagskrá. — Ástæðan til þess, að jeg gerði ekki meira til að fá ljett af tollinum, þegar jeg var ráðh., var sú, að Samband ísl. samvinnufjelaga, sem þetta mál varðaði mest, fjekk firma eitt í Bandaríkjunum til að fara í málssókn út af tollhækkuninni. Þetta mál byrjaði meðan jeg var ráðherra, og þótti mjer sjálfsagt að bíða átekta og sjá, hversu því lyktað, áður en frekar væri að gert. Mjer þætti ekki ósennilegt, þótt þakka mætti þessari málssókn endalok málsins, en veit það eigi enn með vissu. Það er ekki svo langt um liðið síðan málinu lauk, að nákvæmar fregnir sjeu komnar af gangi þess. En það kæmi mjer ekkert á óvart, þótt svo reyndist, að niðurstaðan í ullartollsmálinu væri að þakka aðgerðum S. Í. S. og mínum.

Þá kom hæstv. fjrh. (JÞ) með aðra staðhæfingu, sem einnig var hrakin gersamlega á þingi 1923, sem sje þá, að ullartollurinn hafi verið hækkaður vegna samningsins, sem gerður var við steinolíufjelagið, sem Landsverslunin skifti við. Þá hafði jeg skrifleg gögn um þetta mál, m. a. vottorð frá utanríkisráðherra Cold, sem bar það með sjer, að tollurinn var kominn á áður en samningurinn var gerður við steinolíufjelagið. Jeg hefi ekki þessi gögn í höndum núna, en þau á að vera að finna í stjórnarráðinu, og má einnig sjá eitthvað um þau í Alþt. það ár. En það er óneitanlega einkennilegt að fá á sig 3 til 4 ára gamlar kærur, sem löngu er búið að drepa, og án þess að maður sje neitt við því búinn að hafa gögn við hendina til að kveða á ný niður gamlar afturgöngur.