28.04.1926
Efri deild: 61. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 570 í D-deild Alþingistíðinda. (3193)

108. mál, svifting ofdrykkjumanna lögræði og fjárræði

Flm. (Jónas Jónsson):

Það stendur svo á þessari till., að mikilsmetinn læknir einn hjer í bænum, sem hefir talsverð afskifti af fátækramálum bæjarins, hefir beðið mig að flytja hana. Hann stakk fyrst upp á að bera þetta fram í frumvarpsformi, en jeg áleit rjettara, að slíkt frv. kæmi frá stjórninni, af því að þetta er dálítið flókið mál og lög til frá mismunandi tímum, sem mun þurfa að samræma. Ástæðan til þess, að till. er borin fram, er sú, að eins og kunnugt er, hefir víndrykkja magnast aftur, eftir að bannið hefir verið sama sem afnumið, og eins og menn vita, eru það ekki sjaldan fátækir fjölskyldufeður, sem drekka, en það kemur hart niður á nánustu vandamönnum, að fjárráðin á heimilinu skuli að lögum vera í höndum þess, sem síst kann með þau að fara. Það er rjettarvenja, að þegar maður er sviftur fjárforræði af þessum sökum, verður konan að beiðast þess, en það gerir hún venjulega í síðustu lög. Drykkjumaðurinn telur slíkar aðfarir móðgun við sig, og aðstaða konunnar gæti að sumu leyti versnað við að beita þannig rjetti sínum.

Tilætlunin er sú, að reyna að koma í veg fyrir, að drykkjumenn eyði því, sem þeir kunna að eiga, eða verði þyngri byrði á öðrum en þyrfti. Sveitarstjórn gæti þá tekið í taumana, ef svo stæði á, að maður vegna drykkjuskapar væri kominn að því að þiggja af sveit eða ef til vill kominn á sveitina. Sumum mun finnast erfitt að skera úr, hvenær þessu ráði skuli beita, en sjálfsagt er að grípa ekki til þess nema gegn langvarandi ofdrykkjumönnum, og yrði læknir sennilega að skera úr, hvenær þessi leið væri farin. Jeg vænti þess, að hæstv. forsrh. láti í ljós álit sitt um þetta mál.