08.05.1926
Efri deild: 70. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 624 í D-deild Alþingistíðinda. (3259)

77. mál, vínsala ríkisins á Siglufirði

Forsætisráðherra (JM):

Mjer skilst, að hv. 2. þm. S.-M. (IP) sje hjer að taka upp þær umræður, sem voru um þetta mál 1921 og 1922, þegar rætt var um, hvort leyfður skyldi innflutningur Spánarvína. Það, sem hv. þm. vildi að gert hefði verið í upphafi, er sama sem við hefðum sagt við Spánverja: Við skulum leyfa að selja Spánarvín, en þá verður að samþykkja það á hverjum stað, að þar megi hafa vínsölu.

Ef enginn kaupstaður — svo sem líklegt er — hefði viljað hafa vínsölu, heldur þá hv. 2. þm. S.-M. (IP), að Spánverjar hefðu gert sig ánægða? Nei, það, sem Spánverjar sögðu, var aðeins þetta: Ef þið leyfið ekki innflutning og sölu á Spánarvínum, þá tökum við hærri toll af ísl. fiski. Það er hrein vitleysa hjá hv. þm. (IP), að við hefðum átt að spyrja Spánverja, hvernig útsölu vínanna skyldi háttað. Þá varðaði ekkert um það, og þeir fóru ekki fram á nein afskifti af því, aðeins að samningurinn væri haldinn. En hefðu þeir álitið samninga svikna á sjer, var ekki um annað að gera en að þeir hækkuðu tollinn. Árás hv. þm. á hv. 1. landsk. (SE) er því á engum rökum bygð. Hv. þm. hugsar sem svo, að best sje að reyna, hvað við megum leyfa okkur, þangað til Spánverjar segi upp samningnum. En jeg held, að það gæti orðið dýrt spaug. Hv. þm. sagði, að ekki væri ómögulegt, að Spánverjar heimtuðu fleiri útsölustaði. Það má vel vera, að svo fari — ef við gefum tilefni til. Og það get jeg sagt hv. þm. (IP), að ekki eru allir Spánverjar ánægðir með samninginn heldur.