06.05.1926
Efri deild: 68. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 696 í D-deild Alþingistíðinda. (3349)

112. mál, húsmæðraskóli að Hallormsstað

Flm. (Jónas Jónsson):

Jeg heyrði talað um það í dag undir umr. áðan, að ekki væri mikið gert fyrir kvenþjóðina, ekki mikið um ríkisskólana handa henni. Tek jeg því þessi orð frá hæstv. atvrh. (MG) sem vott um það, að eitthvað þurfi að gera fyrir raunverulega sjermentun kvenna. Jeg vil svo skýra þetta mál í fáum orðum og ætla að fara til þess aftur í tímann.

Það stendur svo á á Austurlandi, að þar er einn staður, sem allir líta til sem einskonar helgistaðar fyrir alt Austurland, þótt þar sjeu til aðrir staðir, sem betur liggja við samgöngum. Jeg býst við því, að allir viti, að þessi staður, Hallormsstaður, liggur í Fljótsdal, einni af fegurstu sveitum landsins. Það þykir öllum Austfirðingum vænt um þennan stað. Þar er skógurinn mestur og náttúran yndisleg. Þegar verið var að endurbæta Eiðaskólann, vaknaði sú spurning, hvort ekki ætti að flytja skólann á þetta náttúrlega höfuðsetur Austurlands. Hefði það áreiðanlega verið gert, ef ekki hefðu verið til dýrar byggingar á Eiðum, því að á Hallormsstað leggur náttúran til nægan eldivið, og hefði ekki sjeð á skóginum. En það verður ekki snúið aftur með Eiða. Byggingar eru komnar þar, og Eiðaskóli heldur áfram að vera almennur skóli fyrir Austurland. En nú er vöknuð hreyfing þar eystra um að koma upp húsmæðraskóla. Á Hjeraði er merk kona, Sigrún Pálsdóttir Blöndal, kona Benedikts Blöndals kennara, og vill hún beitast fyrir þessu máli. Þau Blöndalshjón búa nú í Mjóanesi, næsta bæ við Hallormsstað, og er frúin systir skógvarðarins, sem þar er búsettur.

Það, sem þeim hefir dottið í hug, sem vilja fá húsmæðraskóla á Hallormsstað, er að stofna þar húsmæðraskóla, er væri einkafyrirtæki, en hefði ríkisstyrk. Jeg hefi orðað till. svo, að í henni liggur ekki annað en að stjórninni er falið að undirbúa málið fyrir næsta þing. Það má gera ráð fyrir, að landið kaupi einhvern tíma síðar þær byggingar, sem Sigrún Blöndal kann að láta reisa þarna, og því verður að búa svo um, að landið geti fengið þær með sanngjörnu mati. Það vill svo vel til, að bróðir Sigrúnar, skógarvörðurinn á Hallormsstað, er staddur hjer í bænum núna, og hefi jeg spurt hann, hvort þessi skólahugmynd væri ekki fram komin með hans vilja og vitund. Sagði hann, að ekkert væri þessu til fyrirstöðu af sinni hálfu. Að því er viðvíkur stærð skólans, þá býst jeg við, að hann verði að miðast við hæfilegar þarfir hjeraðsins. Jeg geri ráð fyrir, að tveir þingmenn að minsta kosti í þessari deild styðji þetta mál. Hv. þm. Seyðf. (JóhJóh) þekkir víst vel til þessarar konu. Hann er gamall sýslumaður þessa hjeraðs og kunnugur staðháttum og mönnum. Jeg geri að sjálfsögðu ráð fyrir, að hv. 4. landsk. (IHB) veiti þessu máli eindreginn stuðning. Jeg þarf ekki að rökstyðja þetta frekar. Málið er hjer á fyrsta stigi, og getur vel verið, að við rannsókn komi einhverjir meinbugir í ljós, t. d. að samningar takist ekki milli þessarar merku konu og stjórnarinnar. En jeg hefi fulla sönnun fyrir því frá áhugasömum mönnum, að þessu máli muni verða vel tekið þar eystra. Hallormsstaður skipar það rúm í hugum manna þar, að engin afbrýðissemi kemst að um staðarvalið. Jeg tek þessu máli til inntekta orð hæstv. atvrh. (MG) í dag, að sjermentun kvenna hafi verið vanrækt og nauðsyn sje á að bæta úr því. Tel jeg ekki til of mikils mælst, þó 2–3 húsmæðraskólar væru starfandi á öllu landinu. Ef tekið er tillit til fólksfjölda í Múlasýslum, væri ekki of mikið, þó 10–12 stúlkur útskrifuðust þaðan á ári að minsta kosti.

Það er nauðsynlegt að hafa vel bygt á Hallormsstað, því að ekki er ólíklegt, að hann verði síðar einn af þeim stöðum, sem notaðir verða til að taka móti gestum, ekki síst útlendum. Jeg vona ennfremur, að hv. deild átti sig á, að hjer er ekki ætlast til, að tekin sje ákvörðun um annað en að rannsaka málið.