01.03.1926
Neðri deild: 17. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 615 í C-deild Alþingistíðinda. (3482)

39. mál, stöðvun á verðgildi íslenskra peninga

Ásgeir Ásgeirsson:

Jeg á að vísu sæti í nefnd þeirri, sem um málið fjallar að lokinni þessari umr. En jeg tel betra, að það verði rætt ítarlega í hv. deild áður er, það gengur til nefndar, einkum sú hlið þess, sem snertir gengisskráninguna á síðasta ári. Nefndinni er full þörf á að fá að vita, hvaða vald gengisnefnd og bankarnir hafa í raun rjettri yfir genginu. Sje það rjett, sem hjer hefir verið haldið fram, að þessi máttarvöld hljóti að missa gengið úr höndum sjer, líkt og varð síðast liðið sumar, ef nokkur vöxtur hleypur í framboð eða eftirspurn, þá þýðir ekki að hugsa til þess, að reyna að festa gengið. En eftir því að dæma, sem þegar er fram komið í umræðunum, þá fæ jeg ekki sjeð, að nokkur nauðsyn sje á, að það þurfi að fara eins og fór á síðasta ári.

Hæstv. fjrh. (JÞ) skýrði frá því, að gengisnefndin hjer hefði starfað á líkum grundvelli og danska gengisnefndin, enda hefði íslenska krónan verið látin fylgja dönsku krónunni, er hún tók að hækka, og seinna hinni norsku. En nú má spyrja, hvaða ástæða hafi verið til þess að elta dönsku og norsku krónuna? Ekki eru vorar útflutningsvörur seldar í dönskum gjaldeyri nje atvinnuvegir vorir bundnir við Danmörk eða danskt gengi, svo nokkru nemi. Við kaupum að vísu allmikið af vörum frá Danmörku. En skilyrðin fyrir gengisbreytingum skapast af því, hvert við seljum, meira en hinu, hvar við kaupum. Því hefir oft verið haldið fram af hækkunarmönnum, að vjer yrðum að fara sömu leið og önnur ríki á Norðurlöndum í gengismálinu. Þessu vil jeg alveg neita. Jeg hefi ekki heyrt eina nýtilega röksemd færða fyrir því. En svo heyrir maður sífelt þessa sömu menn, sem vilja í þessu efni hengja sig aftan í Norðurlönd, segja í öðru orðinu, að það sje góðærið, sem hafi valdið hækkun krónunnar. Þannig er sífelt flögrað á milli þessara sjónarmiða. En það er ljóst, að slíkur tvískinnungur er óhugsanlegur. Vjer verðum annaðhvort að reka sjálfstæða gengispólitík eða þá að elta dæmi annara. Allir ættu að vera á eitt sáttir um, að við eigum í þessu máli að fara okkar eigin brautir, reka sjálfstæða gengispólitík. Allir ættu að vera á einu máli um þetta, segi jeg, af því að með því einu móti er gengishreyfing heilbrigð, að hún sje í samræmi við ástand atvinnuveganna og stafi þaðan. Vil jeg í þessu efni vitna í bók hæstv. fjrh. um „Lággengi“. Þar segir, að gengissveiflur eigi ætíð sínar rætur í atvinnulífinu, stafi af breytingum, sem þar verði. Svo á það að vera. Óeðlilega hækkun mun vera hægt að stöðva með lítilli eða engri áhættu. Nú er það víst, að hreyfing gengisins síðan í fyrra á ekki rót sína í atvinnuvegunum. Enda gerði hæstv. fjrh. enga aðra tilraun til þess að verja hækkunina en þá að benda á, að framboð á útlendum gjaldeyri hafi verið svo mikið, að því hafi orðið að svara með lækkandi kauptilboðum og þar með hækkun á gengi íslensku krónunnar. Það er ljóst af þingt. 1922, að þá höfðu menn ekki komið auga á aðra ástæðu fyrir gengissveiflunum en framboð og eftirspurn. Þá var tekið lausatökum á málinu, og lausgengi var afleiðingin. Á þingi 1923 voru menn farnir að skilja betur lögmál gengisins, a. m. k. má nú svo heita um tvo hv. þm., sem enn eiga sæti á Alþingi. Annar þeirra er einmitt hæstv. frjh. (JÞ), en nú virðist hann hafa gleymt því, sem hann þá vissi, þar sem hann nú leggur áherslu á einveldi framboðs og eftirspurnar. En ef framboð og eftirspurn á að ráða lögum og lofum, þá getum við aldrei vænst fastgengis í þessu landi, eins miklar og sveiflurnar eru á gjaldmiðilsþörf atvinnuveganna á ýmsum tímum ársins. En nú kom það skýrt fram í ræðu hæstv. fjrh., að hann telur hækkun óviðráðanlega, þegar framboð er mikið, en vill þó hindra lækkun, þegar eftirspurnin kemur til sögunnar. Mjer virðist ekki gott samræmi í þessu, að vilja láta framboðið fá að njóta sín fullkomlega, en draga hinsvegar fjöður yfir það, að eftirspurnin þurfi að hafa sín áhrif líka. Það er algengt í gengismálinu, að menn skjóta sjer frá einu sjónarmiði yfir í annað, líkt og Grímur ægir, er hann sökk í jörð niður í viðureigninni við andstæðinga sína og kom upp annarsstaðar. Við slíka andstæðinga er ekki gott að eiga, þegar menn hafa myndað sjer ákveðna skoðun um eitthvert mál, þá ber að gæta þess vel, að nota ekki önnur rök máli sínu til stuðnings en þau, sem rjett eru frá því sjónarmiði sem talað er. Það er ósamræmi í því, að vilja hindra lækkun, en telja hækkun óviðráðanlega, því að það mun viðurkent af öllum, sem nokkurt skyn bera á eðli gengisbreytinga, að miklu auðveldara er að stöðva, þegar krónan leitar upp, en ef hún leitar niður.

Þó að hæstv. fjrh. tæki það ekki skýrt fram í ræðu sinni, að hann vildi koma krónunni í hið gamla gullverð, þá lá það í röksemdafærslu hans. Það er siður margra að játa ekki hækkunarstefnu sína berum orðum, að segja einungis, að gengið megi ekki lækka. Þetta þykjast þeir gera af klókindum til að hindra gengisbrask. En auðvitað vitnast það fljótt, hvort stefnt er að hækkun eða ekki, og þannig komast þeir góðu hækkunarmenn aldrei hjá því að bjóða heim bröskurunum, þar sem braskhættan er yfirvofandi. Stefnunni er ekki hægt að leyna, en hinum einstöku breytingum gengisins, og því, hvenær þær eiga að verða, er auðvitað hægt að leyna og ber að halda leyndu.

Það er ekki eingöngu framboð og eftirspurn, sem genginu ræður, það eru fyrst og fremst þjóðhagsástæður, sem genginu eiga að ráða, og það er skylda löggjafans að líta á þær fyrst og fremst. Nú er það viðurkent, eins og jeg sagði áðan, að hægra sje að halda gengi niðri en uppi. Segi menn, að það sje nú hægt að halda genginu uppi, þá er um leið viðurkent, að það hefði verið hægt að komast hjá hásveiflunni í haust sem leið, því ef það var ókleift, þá er ekki heldur hægt að halda genginu uppi nú. Það mun vera álit viðurkendra hagfræðinga, að það sje óhætt að kaupa erlendan gjaldeyri og það endalaust eins og hæstv. frjh. komst að orði, ef stefnan er sú að halda genginu föstu. En hjer á landi er ekki um neina ótæmandi eftirspurn að ræða, enda er braskhættan hjer lítil. Geta bankarnir, ef þeir óttast, að þeim berist of mikill erlendur gjaldeyrir, neitað að greiða vexti af geymslufjenu, og þá ber engin nauðsyn til að lána það fje út. Þetta er mjög einfalt. Bankarnir geyma fjeð og greiða af því enga vexti eða sömu vexti og þeir geta fengið af því erlendis og hafa það þannig í handraða, þegar til þarf að taka. Sje svona farið að, þá þarf ekki að óttast nein vandræði af aukinni seðlaútgáfu fram yfir óbreytta þörf viðskiftalífsins eins og látið hefir verið í veðri vaka. Sje fjeð geymt erlendis, þarf enga seðlaútgáfu þessvegna, og sje það ekki lánað út innanlands til nýrra framkvæmda, þá er hægt að grípa til þess hvenær sem kallað er til þess. Þó dæmi sje til þess í okkar bankasögu, að slíkt fje hafi verið fest og ekki verið handbært, þegar til þurfti að taka, þá er slíkt engin nauðsyn. Til þess eru vítin að varast þau.

Hitt, sem hæstv. fjrh. talaði um, að hin útlenda inneign hafi verið orðin svo mikil, 100 kr. á nef hjer á landi, en ekki nema 50 kr. á nef í Danmörku, og að þessvegna hafi ekki verið þorandi að halda áfram að kaupa, það sannar í sjálfu sjer lítið og ekki neitt. Samanburður á Íslandi og Danmörku sannar ekki neitt, því að viðskiftalíf Danmerkur er miklu stöðugra en okkar viðskiftalíf. Okkar viðskiftalíf er „periodiskt“, jeg býst við, að reglan sje sú, að einhverntíma ársins sje meira keypt hjer á landi af erlendum gjaldeyri á hvert nef en í kannske nokkru öðru landi. Það er ekki einungis, að viðskiftalífið sje „periodiskt“, heldur er líka umsetningin á hvert nef meiri hjer á landi en sennilega í nokkru öðru landi í Evrópu. þetta hefir ekki litið að segja, þegar ofan á bætist, að gengisnefndin gerði á síðast liðnu sumri samþykt, sem hlaut að bjóða erlendu fjármagni heim, en stöðva innlenda fjármagnið í landinu. Hún hefir gert samþykt um að halda genginu óbreyttu fram í september. Þetta er vitanlega ákvörðun um festingu krónunnar, og ekkert við henni að segja annað en það, að sú festing er ákveðin fyrir alt of stuttan tíma. Ef á að ákveða festingu, þá er ekkert vit í öðru en gera það til lengri tíma, að minsta kosti svo langs, að landbúnaðurinn njóti hennar ekki síður en sjávarútvegurinn. Auk þess má ekki birta neina dagsetningu um það, hvenær megi vænta breytingar. Því að það leiðir af sjálfu sjer, að þeir, sem hafa útlendan gjaldeyri til að selja, þeir flýta sjer að selja fyrir þennan dag, til þess að fá sem flestar krónur. En hinir, sem hafa innlendan gjaldeyri til umráða og þurfa að borga skuldir eða kaupa vörur, reyna að bíða fram yfir þennan tíma. Því er það ekkert undarlegt, þegar gjaldeyrisnefndin gerir svona samþykt, þó að hrúgist mikið upp af erlendum inneignum. Samþyktin er stífla, sem gjaldeyririnn hleðst upp við. Og þegar gjaldeyrisnefndin fer að óttast slíkt, þá hræðist hún einungis skuggann af sínum eigin gerðum. Hún mátti búast við þessu og ganga út frá því. Reynslan hefir sýnt, að það var ekkert óeðlilegt fje þarna á ferð. Alt fjeð stóð í sambandi við afurðasöluna og þörf atvinnuveganna. Þetta er sannað af reynslunni. Þegar sveiflan varð, vissu menn þetta, að hjer var um ekkert óeðlilegt fje að ræða. Jeg spurði þá að minsta kosti einn bankastjóra að því, hvort mikið af gengisbrasksfje væri komið inn í landið, og svaraði hann, að það væri ekki neitt teljandi. Það mun einnig hafa verið dómur Íslandsbanka, því að hann vildi halda áfram að kaupa með háa verðinu á sterlingspundum. Ef bankarnir hefðu keypt saman með hærra verði en varð, þá var engin hætta á ferðum. Íslandsbanki, sem þarf að hugsa um sína hagsmuni, af því að hann er hlutafjelag, býðst til að halda áfram að kaupa með hærra verði á pundum. En Landsbankinn, sem ekki er hlutafjelag, er enn skyldari til að styðja að því, að þjóðhagslegar ástæður einar ráði skráningunni.

Hæstv. fjrh. (JÞ) sagði, að þessu mikla framboði hefði verið nauðsynlegt að svara með hækkandi verði á ísl. krónu. Nú væri gaman að vita, hvort landsstjórnin og Landsbankinn heldur, að framboðið hafi takmarkast af hinu hækkandi verði ísl. krónu. Svo framarlega, sem einungis hefir verið um eðlilegt fje að ræða, þá hefir ekki lækkandi verð á erlendum gjaldeyri takmarkað framboðið á nokkurn hátt. Þegar framboðið er eðlilegt, þá takmarkast það ekki mjög af breyttu gengi, enda engin þörf á takmörkun. þörfin kemur fyrst, þegar óeðlilegt fje er komið í spilið.

Mjer kom þetta á óvart, að hæstv. fjrh. (JÞ) skyldi aðallega skýra gengisbreytinguna með framboði erlends gjaldeyris, vegna þess, sem hann hefir áður skrifað um þetta mál á annan veg. Þá lagði hann höfuðáhersluna á kaupmáttarjafngengið. Þetta er einmitt höfuðsannleikurinn í gengismálinu, að mest er um vert, að skráningin fari sem næst kaupmáttarjafngenginu. Sá sannleikur hefir rutt sjer til rúms síðari árin. Hæstv. fjrh. hefir heiðurinn af að hafa skilið þetta einna fyrstur manna á voru landi. Einmitt þessum sannleika hefi jeg kynst í hans góðu bók um „Lággengi“. Er það merk bók og verður vafalaust síðar meir talin ágætari en til þessa hefir raun á orðið. Jeg get því sagt, að jeg sje lærisveinn hæstv. fjrh. í þessu, að leggja höfuðáhersluna á jafngengið, kaupmáttarjafngengið, en hann lærisveinn Cassels, eins hins þektasta festingarmanns Norðurálfunnar. Að því leyti ætti ekki að þurfa að vera svo mikið ósamræmi milli skoðana okkar á þessu máli, svo framarlega sem kennifaðir minn er eins rjetttrúaður og hann áður var í þessu efni.

Í ræðu sinni lagði hæstv. fjrh. (JÞ) áherslu á það, að ekki sje gott að finna kaupmáttarjafngengið. Það er auðvitað ekki eins einfalt og að margfalda tvo með tveimur. Það verður að taka tillit til margra hluta. En það á að vera hlutverk hagstofunnar að láta í tje upplýsingar um þessi efni, og komast með útreikningum eins nálægt sanngenginu og hægt er. Jeg fæ ekki betur sjeð en að það ætti einmitt að vera aðalhlutverk hagstofunnar á þessum gengisbreytingatímum, að gefa sem bestar upplýsingar um hið sanna verð ísl. krónu. Hæstv. fjrh. orðar „gengislögmál Cassels fyrir pappírspeninga“ í bók sinni á þessa leið: „þegar mismunandi verðlagsbólgnun hefir orðið í tveim löndum, þá er eðlilegt ávísanagengi milli þeirra sama sem hið gamla gengi margfaldað með hlutfallinu á milli bólgnunarstigsins í öðru landinu móti hinu“ (bls. 70). Einfaldara væri máske að orða lögmálið svo: Eðlilegt gengi milli tveggja landa, sem nota pappírsgjaldmiðil, er hlutfallið milli verðlagsins í löndunum margfaldað með hinu gamla gullgengi. Bls. 72 orðar hæstv. fjrh. lögmálið þannig: „Það er eðlilegt gengi (sama sem kaupmáttarjafngengi) pappírsgjaldeyris, ef vísitala verðlagsins í landinu margfölduð með gullgengi gjaldeyrisins sýnir sömu vísitölu fyrir gullverðlag, sem er í öðrum löndum yfirleitt.“ Og enn segir ráðherrann: „þessi orðun á gengislögmálinu hefir þann mikilvæga kost, að eftir henni er auðvelt að rannsaka, hvort reynslan staðfestir það eða ekki, og það verður auðvelt að gera grein fyrir ýmsum afleiðingum þess, ef haldið er uppi öðru gengi en þessu eðlilega.“ Og loks vil jeg með leyfi hæstv. forseta lesa þessi ummæli hæstv. fjrh. (bls. 70): „Cassel hefir rjettilega bent á, að þessi „vara“ (pappírsgjaldeyririnn) breytist við það, að kaupmáttur gjaldeyrisins breytist, og að ekkert hlutfall á milli framboðs og eftirspurnar getur haldið svikinni eða rýrnaðri vöru í sama verði og ósvikinni vöru sömu tegundar, þótt reynt sje að villa mönnum sýn með því að halda nafninu óbreyttu. Jeg hefi sannfærst um, að gengislögmál Cassels er rjett, og mjer finst vera mögulegt að gefa þær skýringar á því, sem taka af allan efa.“ Hæstv. fjrh. (JÞ) hefir ekki aðeins sannfærst sjálfur. Hann hefir sannfært fleiri, og mig þar á meðal.

Hjerna notar hæstv. fjrh. orðtækið „svikin vara“ eða „svikinn gjaldeyrir“ í rjettri merkingu. Í ræðu sinni við þessa umr. notaði hæstv. fjrh. orðtækið „svikinn gjaldeyrir“ í merkingu hækkunarmanna, þeirri, að allur gjaldeyrir, sem hefir lækkað og er ekki búið að hækka aftur, sje svikinn. (Fjrh. JÞ: Þetta er ekki rjett). Notaði hæstv. fjrh, þá orðið í þeirri merkingu, að svikinn gjaldeyrir sje sá, sem ekki er í samræmi við kaupmáttarjafngengi? Jeg fjekk svar áðan, þegar jeg bað ekki um það, en nú ekki, þegar jeg bið um það. (Fjrh. JÞ: Tek til máls síðar). En það kæmi sjer betur vegna umræðnanna, að fá svar strax. Það má nú vera, að jeg hafi misskilið hæstv. fjrh., en það, sem jeg vildi segja, er það, að svikinn er sá gjaldeyrir einn, sem ekki er í samræmi við kaupmáttarjafngengi. Sama, hvort hann er fyrir ofan eða neðan, hann er svikinn alt að einu. Og hafi hæstv. fjrh, notað orðatiltækið „svikinn gjaldeyrir“ í þeirri merkingu, þá erum við fullkomlega sammála. Sá einn er í samræmi við sjálfan sig í þessu máli, sem gerir altaf þá kröfu, að gengið sje sem næst kaupmáttarjafngengi. Og gangi menn út frá þessu sanngengi, þá verður krafan stundum um hækkun, en í öðrum kringumstæðum lækkun, ef litlar líkur er til, að verðlagið lagi sig fljótlega eftir hinu skráða gengi. Öll afstaða festingarmanna er undir því komin, hvort hágengi er eða lággengi miðað við jafngengi eða sanngengið, Jeg sá, að hæstv. ráðh. (JÞ) hristi höfuðið, og jeg býst við, að jeg skilji, hvað það er, sem hefir valdið þessum hristingi. Er það ekki svo, að hæstv. fjrh. vill ekki vita af lækkun á genginu, vegna þess, að hann treystir því, að verðlagið breytist vegna hágengisins og komist í samræmi við það? Jeg vildi aðeins bæta því við, að það getur verið svo örðugt að lækka verðlagið í landinu eða tosa hið sanna gildi krónunnar upp á við, að það eigi alls ekki að verja fje til þess. Óeðlilega hátt gengi veldur það miklum örðugleikum fyrir atvinnuvegi landsins, að ekki er álitlegt að veita styrk til að halda kreppunni við. Þó skal það játað, að það er einn helsti og stærsti örðugleikinn, þegar á að festa gengi, ef það hefir verið skráð of hátt áður en byrjað var á festingarviðleitninni.

Hæstv. fjrh. sagði í sinni ræðu, að Finnar hefðu farið þá leið, að halda föstu sínu gengi, en láta svo verðlagið laga sig eftir því. Eftir því, sem mjer er kunnugt, er þetta ekki rjett. Þegar Finnar hófu festingarviðleitni sína, byrjuðu þeir á því að færa gengið mikið til, þangað til komið var í það horf, sem þeir hjeldu, að samsvaraði innlendum kaupmætti marksins. Þegar þeir höfðu skapað samræmi milli hins innlenda og erlenda kaupmagns marksins var tilætlunin að láta gengið hvíla þar. Markið leitaði þá heldur niður, og var að lokum fest nokkuð fyrir neðan kaupmáttarjafngengi, enda er það viðurkent, að rjettara er að vera heldur fyrir neðan en ofan sannvirðið. Það fyrsta, sem Finnar gerðu í festingarpólitíkinni, var því að laga gengið eftir verðlaginu. Þeir gerðu ekki það, sem hæstv. fjrh. (JÞ) ætlast nú til að við reynum, sem sje að klifa þrítugan hamarinn til að laga verðlagið eftir genginu. Ef jafngengi er nú fyrir neðan hið skráða gengi, skapar það mikla örðugleika. Hæstv. fjrh. (JÞ) hefir óviljandi látið skýrt í ljósi það álit, að jafngengi sje nú fyrir neðan hið skráða gengi, með því að skilja frv. þannig, að af því mundi leiða lækkun frá núverandi gengi. Nú skal jeg ekki fyrir mitt leyti leggja sömu áherslu og hv. flm. (TrÞ) á það, að hjer sje samþykt að færa gengi íslensku krónunnar niður. Og hafa frumvarpsákvæðin þó við góð rök að styðjast. Jeg mun geta tekið undir með hæstv. fjrh. (JÞ), að við skulum byrja á því að reyna að halda því, sem nú er, og vita, hvort verðlagið getur ekki færst niður. Því að það er svo í gengismálinu, að þegar búið er að gera einhverja vitleysu, þá er örðugt að leiðrjetta hana, og verður aldrei til fulls leiðrjett. Þess vegna segi jeg með hæstv. ráðh. (JÞ), að það sje rjett að byrja á því að sjá, hvort ekki sje hægt að festa í núverandi gengi. En jeg bæti því við, að það á ekki að verja neinu sem nemur af tekjum ríkissjóðs til þess. Ef við ætluðum að festa það gengi, sem nú er skráð, hvað sem það kostar, þá er hætt við, að færi um hvern þann sjóð, sem til þess væri varið, eins og fór um „egaliseringssjóð“ Dana. Hann tæmdist. Það stóðst ekkert við, vegna þess að það var óeðlilegt gengi, sem halda átti við.

Um það tvent ætti Alþingi að geta orðið sammála, að Íslendingum ber að hafa sjálfstæða stefnu í gengismálinu og láta ekki skráningu íslenskrar krónu fara eftir breytingum annarlegs gjaldeyris, og að víkja aldrei langt frá kaupmáttarjafngengi. Jeg veit, að hæstv. fjrh. (JÞ) taldi í ræðu sinni töluverð tormerki á að finna það. En hann hefir samt fyrir nokkru gert tilraun til að reikna það út eftir gengislögmáli Cassels og segir, að sú aðferð, sem hann þá notar, sje góð, vegna þess að auðvelt sje að rannsaka, hvort reynslan staðfesti niðurstöðuna. Að vísu þarf að gera ráð fyrir ýmsum truflunum. Þegar hæstv. ráðh. ritaði „Lággengi“, virðist hann ekki hafa talið þessar frávikningar aðalatriðið, heldur lögmálið sjálft. Kaupmáttarjafngengi má reikna eftir þrem reglum. Ein er að miða við framfærslukostnað, önnur að miða við smásöluverð og hin þriðja, sem mun best og venjulegast er viðhöfð, að miða við heildsöluverð. Hæstv. fjrh. hefir í „Lággengi“ (bls. 82) bent á aðferð til að finna vísitölu fyrir heildsöluverð. Nú vil jeg segja, að þegar hæstv. ráðh. (JÞ) getur gert svona útreikninga 1924, þá hefði Hagstofan átt að geta bætt svo um, að hún nú, svo löngu síðar, geti gefið nokkurn veginn fullnægjandi skýrslu um kaupmáttarjafngengið. Finska þjóðin hefir samkvæmt þessu Cassels-lögmáli fest gengið mjög heppilega og forðað sínu atvinnulífi frá þeim hörmungum, sem enn bíða þeirra landa, sem ætla sjer að fara þá örðugustu braut, sem nokkurt land getur farið í þessum efnum, eins og hæstv. fjrh. (JÞ) kemst að orði í „Lággengi“, en það er að hækka pappírsgjaldeyririnn.