18.03.1926
Efri deild: 31. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 900 í B-deild Alþingistíðinda. (372)

14. mál, áveita á Flóann

Frsm. (Ágúst Helgason):

Í Flóaáveitulögunum er ekki talað um önnur mannvirki í sambandi við áveituna en skurði og flóðgarða. Nú er því verki langt komið, en þeim, sem þekkja til áveitulandsins, mun vera ljóst, að meira þarf að gera en að veita vatninu yfir landið. Það er ekki nóg að fá grasið til að vaxa; það þarf líka að koma því í peninga. Það, sem fyrst og fremst þarf að gera, er að leggja vegi um áveitusvæðið. Syðri hluti þess er víðlendur mýrarfláki. Þar eru bæir strjálir, en aðalbygðin er umhverfis mýrina. Vegamálastjóri hefir rannsakað þetta svæði, og er það tilætlun hans, að akfær sýsluvegur verði lagður af þjóðveginum beint suður í Gaulverjabæ; og út frá honum gangi 2 álmur til útsuðurs niður eftir mýrinni. Auk þess verður að leggja net af hreppavegum.

Þegar áveitan er komin í framkvæmd, hlýtur búskapur þar eystra að breytast í nautpeningsrækt og mjólkurframleiðslu. En óhugsandi er, að nægilegur markaður fáist fyrir mjólkina, ef ekki verða sett á stofn mjólkurbú, eitt eða fleiri. Það virðist rjettmætt, að þesskonar stofnun nyti styrks úr ríkissjóði, þar sem hún yrði tilraunastofnun, sem mikla þýðingu gæti haft fyrir landbúnaðinn í heild sinni.

Aðaltilgangur frv. er því sá, að fá því framgengt, að vegir verði lagðir og mjólkurbú sett á stofn. Þetta þarf að komast inn undir áveitulögin, því að það er ekki síður nauðsynlegt, að þessi mannvirki komist í framkvæmd en áveitan sjálf, ef hún á að koma að fullum notum. Landbn. leggur eindregið til, að hv. deild samþykki frv. frá Nd.