15.03.1926
Efri deild: 28. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 920 í B-deild Alþingistíðinda. (415)

12. mál, kynbætur hesta

Frsm. (Ágúst Helgason):

Jeg gat ekki verið á fundi við 2. umr. þessa máls, og hefir það því farið framhjá mjer, sem þar var sagt. Það, sem hv. þm. A.-Húnv. (GuðmÓ) sagði á móti 3. gr., er að mínum dómi veigalitlar ástæður. Í frv. er sagt, að kynbótanefnd skuli velja „hæfilega marga graðhesta til undaneldis“, og þar sem nefndin er kosin til þess að standa fyrir kynbótum, leiðir það af sjálfu sjer, að hún á að velja bestu folana. Að þetta eigi að vera eftir samkomulagi við eigendur hestanna, virðist mjer sjálfsagt. Því ef nefndinni ber skylda til að kaupa þá hverju verði sem er, er þar opin leið fyrir eigendur þeirra að okra á þeim, og er þá hætt við, að þeir gætu orðið nokkuð dýrir.

Hefði jeg verið á fundi við 2. umr. þessa máls, hefði jeg haft á móti brtt. hv. 1. þm. Eyf. (EÁ) við 7. gr. Hv. þm. sýndi mjer hana áður en hann bar hana fram. Leit jeg á hana í bili, en síðar sá jeg, að hún var gölluð. Því að það er mitt álit, að ekki sje rjett að sletta á sveitarsjóðina kostnaði af hrossakynbótum, heldur eigi að jafna honum á eigendur hrossanna. En úr því að þetta hefir verið samþykt, þýðir víst ekki um það að fást.

Þá er það brtt. á þskj. 129, um að konur geti skorast undan kosningu í hrossakynbótanefnd. Jeg er þessari till. alveg samþykkur og geri ráð fyrir, að svo sje um alla landbn. Hefði jeg komið með till. um. þetta til nefndarinnar, ef jeg hefði búist við, að hv. deild samþykti hana. En þar sem meiri hluti hv. deildar, og þar á meðal fulltrúi kvenna, hv. 4. landsk. (IHB), stóðu á móti samskonar tillögu um að konur mættu skorast undan kosningu í sveitar- og bæjarstjórnir, ljet jeg hjá líða að bera fram tillöguna. Mun jeg þó að sjálfsögðu greiða atkvæði með till.