29.03.1926
Neðri deild: 43. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 181 í B-deild Alþingistíðinda. (42)

1. mál, fjárlög 1927

Pjetur Ottesen:

Það eru aðeins örfá orð út af því, sem hv. frsm. fjvn. (ÞórJ) sagði viðvíkjandi 1. brtt. minni á þskj. 230. Hann sagði, að sú væri ástæðan til þess, að meiri hl. fjvn. legði á móti þessari till., að hún mundi skapa fordæmi. En hann gat þess jafnframt fyrir hönd meiri hluta nefndarinnar, að hann mundi vera með brtt. hv. þm. Ísaf. (SigurjJ). Það er að vísu talið, að eftirgjöfin á dýrtíðarláni Ísafjarðarkaupstaðar eigi að ganga upp í kostnað við bryggjugerð á Ísafirði og mannvirkja við hana, en það er þó ekki svo að öllu leyti, því á þskj. 230 stendur: „Styrkurinn greiðist þannig, að dýrtíðarlán kaupstaðarins við ríkissjóð lækki um þessa upphæð, en ógreiddir áfallnir vextir af upphæðinni falli niður.“

Nú er það upplýst, að Ísafjarðarkaupstaður hefir ekki greitt vexti af þessu dýrtíðarláni í nokkur ár, og er því meiningin að gefa þá eftir, án þess að sú eftirgjöf teljist styrkur til fyrumgetins mannvirkis, en þeir eru orðnir 1/3 af þeirri upphæð, sem jeg fer fram á, að eftir sje gefin. Þetta er því hliðstætt minni brtt., og fæ jeg ekki betur sjeð en að meiri hl. fjvn. sje búinn að skapa hjer fordæmi.

Auk þessa gaf síðasta þing eftir 3000 kr. lán til mötuneytis kennaraskólans, og nú er farið fram á að gefa eftir 3000 kr. lán til mötuneytis stúdenta. Hjer er því nóg af fordæmunum. Hjer er því aðeins um það að ræða, hvort það sje sanngjarnt eða rjett að gefa þessa upphæð eftir. Og jeg get fullvissað hv. deild um það, að það er ekki að ástæðu- eða nauðsynjalausu, að jeg fer fram á þetta. Hjer er um að ræða fátækt og fáment hreppsfjelag, sem varð þunglega og tilfinnanlega fyrir barðinu á styrjöldinni miklu. Síðan hafa skuldir þess vaxið, en fólkinu fækkað og þar af leiðandi gjaldþol hreppsfjelagsins minkað. Ef þetta verður ekki gefið eftir, þá gæti svo farið, að þetta hreppsfjelag verði að neyðast til að leita á náðir þess opinbera, eins og sum önnur hafa orðið að gera á undanförnum árum. En ef þessari skuld yrði ljett af hreppnum, mundi það stuðla mjög að því, að hægt væri að sjá fjárhagslegri afkomu hreppsins borgið og lyfta þeim bagga, sem eftir er. Jeg vænti þess fastlega, að háttv. deild geti fallist á nauðsyn þessarar eftirgjafar og veiti hana.

Jeg hafði ætlað mjer að minnast á brtt. samgmn., en með því að þær eru teknar aftur til 3. umr., get jeg látið það bíða þangað til.