26.02.1926
Efri deild: 14. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1009 í B-deild Alþingistíðinda. (527)

20. mál, bankavaxtabréf

Jónas Jónsson:

Svo ríkt er hv. 1. landsk. (SE) það í hug, að keppinautabankinn sje undir uppsiglingu með seðlana, að hann hefir hvað eftir annað kallað milliþinganefndina Landsbankanefnd. Jeg tel það vitnisburð um það, að undirmeðvitund hv. þm. hafi komið upp um yfirmeðvitund hans, hvað mikla óbeit hann hefir á því, að sú stofnun, sem nú er keppinauturinn, fái það, sem hans stofnun vill hafa. Íslandsbanki hefir altaf staðið eins og hundur á roði á rjettinum til seðlaútgáfunnar, þangað til hv. þm. nú segir, að hann sem sjerstakur vinur Landsbankans vilji frábiðja honum þá hættu að fá seðlaútgáfuna, einmitt þá hættu, sem hans banki hefir sóst eftir frá síðustu aldamótum að halda sem fastast í fangi sjer. Jeg býst við, að jeg geri ekki hv. þm. (SE) rangt til, þó að jeg segi honum það, að hann hafi ekki áttað sig á þeirri bölvun hins hvikula gengis, sem við eigum nú við að stríða, og að því verði ekki kipt í lag á fáeinum vikum. Jeg vil benda hv. þm. á það, að ef hann vonast eftir, að krónan hækki upp í gullgengi og verði síðan haldið þar fastri, þá fara í þá baráttu mörg ár.

Það er nú auðsætt hvað veðdeildarlánin snertir, að við verðum að notast við þetta bráðabirgðaástand á meðan við getum ekki fengið fastan markað fyrir vaxtabrjef okkar, en af því að jeg sje, að hv. þm. (SE) hefir eitthvað lesið mína grein um fyrirkomulagið, þá vildi jeg biðja hv. þm. að athuga, hvað hann hjeldi, að Danmörk myndi hafa selt mikið af verðbrjefum í stóru löndunum fyrir sunnan sig og vestan, hvort það mundi hafa orðið svo, að skifti hundruðum miljóna, ef danska krónan hefði altaf verið svífandi. En Danir hafa ekki yfirleitt reynt að selja valtabrjef utanlands síðan króna þeirra fjell.

Öll þessi „kritik“ hv. þm. er sprottin af því, að honum hefir ekki skilist það, hvað einum sjúkum lim hefir sjerstaklega tekist að skapa mikið allsherjarböl hjer á landi, og hv. þm. (SE) hefir ekki getað bent á eitt einasta erlent dræmi, þar sem lánardrottnum hefir verið neitað um það að láta trúnaðarmenn sína koma til þess að rannsaka hag skuldunautanna, og enginn gekk þó betur fram í að varna þess árið 1923 heldur en hv. þm. (SE) sjálfur.

Ef bera mætti saman mikinn mann og mikið sögulegt atvik við litla andstæðu, vildi jeg bera saman dauða Móse við baráttu hv. 1. landsk. á þingi 1923 gegn því, að Íslandsbanki yrði rannsakaður. Móse horfði með dauðann í hjarta sjer af Nebósfjalli inn yfir hið fyrirheitna land. Hv. 1. landsk. var veturinn 1923, með þann pólitíska dauða í hjarta sjer, farinn að horfa inn í sitt fyrirheitna land — opinn Íslandsbanka.