09.03.1926
Efri deild: 23. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1019 í B-deild Alþingistíðinda. (535)

20. mál, bankavaxtabréf

Björn Kristjánsson:

Þetta er aðeins stutt athugasemd út af ræðu hæstv. fjrh. (JÞ), af því að jeg átti skuldina fyrir að hafa upphæðina 2½ miljón. Að vísu er mjer sama um, hvort upphæðin er ætluð 2½ eða 3 miljónir. Niðurstaðan varð 2½, og hugsunin hjá mjer og öðrum, sem hafa átt við veðdeildatilbúning, er sú, að láta stærð flokksins takmarka, hvenær hann endar. Áður hefir ekki verið talað um að loka flokknum, heldur láta það ráðast, að flokkurinn lokaðist af sjálfu sjer. Eins og hæstv. fjrh. sagði, er 4. flokkur stærsti flokkur, sem búinn hefir verið til. 1. fl. er 2 milj., 2. fl. 2½ milj., 3. fl. 3 milj. og 4. fl. 5 milj. Það þótti nokkuð mikið að hafa hann 5 milj., því að það mundi taka svo langan tíma að draga hann inn. Í það hafa farið 11 ár, en til 40 ára eru lengstu lán veitt. Flokkurinn verður því um 52 ár á ferðinni. Þetta gerir brjefin tregseljanlegri, en það vakti fyrir okkur, að svo yrði ekki. Jeg held ekki, að neitt sje athugavert við það, enda er það alveg samkvæmt venju. Jeg man það, að sjera Eiríkur Briem gætti að því, að flokkarnir væru ekki of stórir, til þess að þeir væru ekki of lengi á ferðinni. Jeg skal gjarnan ganga inn á að hafa flokkinn 3 miljónir.