29.03.1926
Neðri deild: 43. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 252 í B-deild Alþingistíðinda. (60)

1. mál, fjárlög 1927

Ásgeir Ásgeirsson:

Jeg þarf lítillega að minnast á þrjár brtt., sem jeg á á þskj. 230. Hin fyrsta er að veita Jóni Stefánssyni 4000 kr. styrk. Jón Stefánsson er ágætur málari, eins og kunnugt er, og hirði jeg því ekki að lesa hjer upp lof um hann úr mörgum blöðum, hvorki útlendum nje innlendum, þó nógu sje af að taka. En ástæðan til þess, að hann sækir um styrk nú, er sú, að hann hygst nú að leita fyrir sjer um markað fyrir málverk sín erlendis. Kostar það bæði fje og fyrirhöfn að komast inn á erlendum markaði, og væri vel til fallið, að þessi ágæti málari fengi nokkurn liðstyrk til þess af hálfu þjóðar sinnar. Íslenskur markaður fyrir listaverk er þröngur og fljótur að fyllast, og má það teljast eini möguleikinn til sæmilegrar afkomu fyrir listamenn vora að leita sjer kaupenda erlendis. Er ekki að vænta frekari styrkbeiðni frá þeim, er það tekst, og er slíkur styrkur sem þessi ein hin besta hjálp, sem listamönnum er hægt að veita.

Þá er brtt. á sama þskj. um ferðastyrk til Jóns Þorleifssonar listmálara. Jón Þorleifsson er góður listamaður, uppfóstraður við hornfirska náttúrufegurð og sýningar þær, sem hann hefir haldið hjer í Rvík, hafa borið þess glöggan vott, að hann er þess maklegur að fá þennan styrk, sem ef til vill gæti gefið honum tækifæri til þess að dvelja á Ítalíu um 10 mánaða tíma.

Þá kemur að XXIX. brtt. á sama þskj., um það, að veita þann styrk, sem ungfrú Ásta Sighvatsdóttir hefir notið undanfarið til vefskóla, Guðmundi Jónssyni frá Mosdal. Ungfrú Ásta er nú horfin hjeðan úr bænum norður að Blönduósskóla og kennir þar vefnað. En þar sem hún er horfin hjeðan úr bænum og ekki er lengur kostur á að veita góðri stúlku styrkinn, þá verður ekki betur úr þessu bætt en með því að veita hann góðum og dugandi dreng. Guðmundur er vel mentaður í sinni grein. Hann lærði upphaflega trjeskurð og dráttlist hjá Stefáni Eiríkssyni. En því næst dvaldi hann í Noregi og Svíþjóð, og hefir síðan haldið uppi kenslu í þessum greinum, einkum á Vesturlandi. Hefir kensla hans gert mikið gagn, enda verið ódýr og stundum ókeypis. Til þess að hann geti haldið þessari kenslu áfram, ætti hann að fá styrk, enda mundi hann þá geta haldið námsskeið einnig fyrir Norður- og Austurland, ef þess yrði óskað. Kenslu hans og kunnáttu er og þannig varið, að hún styður að því, að margt verði heima unnið, sem nú er aðkeypt, og eins kennir hann mönnum að nota tímann og skilja, að hann er peningar, ef rjett er á haldið; en það er mikils vert fyrir alt uppeldi. Væri þá vel varið þessum 1200 kr., að Guðmundur hlyti þær fyrir kenslustarf sitt, elju og óeigingirni. Jeg mun svo ekki fara fleirum orðum um till.; þykist vita, að hv. þdm. muni taka þeim vel.