19.04.1926
Neðri deild: 57. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1075 í B-deild Alþingistíðinda. (645)

4. mál, landsreikningar 1924

Frsm. (Jakob Möller):

Það stóð svo á í fyrra, þegar frv. til laga um samþykt landsreikningsins kom til 2. umr., að jeg var ekki viðstaddur og gat því ekki tekið til máls. Nú skal jeg því votta það, að fjhn. kann vel þeirri breytingu á reikningnum, sem tekin hefir verið upp hin síðari ár. Hún gerir reikninginn gleggri yfirlits. Annars hefi jeg ekki mikið um frv. að segja, eins og nál. ber með sjer. Nefndin hefir aðeins óskað eftir upplýsingum um nokkra liði, sem nefndir eru á þskj. 368. Þeir eru sumpart þess eðlis, að nefndinni finst þeir ekki eiga heima þar, sem þeir eru settir, og sumpart veit nefndin ekki, hvernig þeir eru tilkomnir. T. d. greiðsla samkv. þál. 15. sept. 1917, um skipun fossanefndar. Sú nefnd hefir lokið störfum sínum fyrir löngu, en þó er greiðsla til hennar kr. 1751,42. Þetta kemur nefndinni nokkuð undarlega fyrir sjónir. Þá er veitingin til alþýðuskólans á Eiðum, 625 kr. Það er ólíklegt, að hún standi í sambandi við stofnun skólans. Hún ætti því að standa í sama lið í fjárlögunum og aðrar veitingar til skólans. Hjer virðist vera um misfærslu að ræða.

Af því, sem ekki er tekið upp í þetta þskj., mætti náttúrlega benda á útgjöld til Flóaáveitunnar, þó að þar sje reyndar sjerstaklega ástatt, því að ætla má, að þau útgjöld væntanlega hverfi algerlega með tímanum. Ennfremur útgjöld, er snerta skipulag kauptúna og sjávarþorpa, er nú hafa verið tekin upp í fjárlög, og jarðræktarlögin sömuleiðis. En hitt virðist ekki skifta máli, ef hæstv. stjórn er eitthvað vant við látin að gefa upplýsingar um þessar greiðslur, sem tilfærðar eru í nál., og jeg leyfi mjer þá að vænta þeirra við 3. umr. málsins.