08.05.1926
Neðri deild: 74. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1125 í B-deild Alþingistíðinda. (708)

7. mál, fræðsla barna

Pjetur Ottesen:

Jeg vil benda á, að breyting hefir verið gerð í Ed. við 24. grein frv. Þar er bætt inn í svo hljóðandi setningu: „Skylt er bæði konum og körlum, sjálfum sjer ráðandi, yngri en 60 ára og heilum og hraustum, að taka við kjöri í skólanefnd.“ Eins og kunnugt er, hefir verið stríð um það milli efri deildar og neðri deildar, hvort konur ættu að halda heimild þeirri, er þær nú hafa, til að skorast undan að taka sæti í opinberum nefndum, og sú skoðun hefir ríkt hjer í deildinni, að slík heimild ætti að vera í lögum áfram. Jeg geri ráð fyrir, að ekki hafi verið athugað nógu snemma að koma fram með brtt. um að fella þetta niður, því það væri í samræmi við skoðun deildarinnar.

Mun jeg því hverfa að því ráði að koma með skriflega brtt. um þetta atriði.