23.04.1926
Neðri deild: 60. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1275 í B-deild Alþingistíðinda. (877)

82. mál, hlunnindi handa nýjum banka

Tryggvi Þórhallsson:

Jeg ætla, að jeg væri eini þingmaðurinn, sem hreyfði andmælum gegn frv. þessu strax við 1. umr. Jeg hefi ekki breytt um skoðun síðan. Jeg álít algerlega óviðeigandi og þjóðinni ósamboðið að veifa framan í útlendinga slíkum sjerrjettindum sem þessum, alveg að tilefnislausu. Hæstv. fjrh. hefir lýst því yfir enn á ný, að engin vitneskja og því síður vissa væri um það, að fje yrði í boði. Jeg lít svo á, að það sje blettur á Alþingi, að á þrem sviðum eru nú boðin fram sjerstök hlunnindi handa útlendingum, ef þeir vilja koma og leggja fram eitthvað af peningum. Jeg get ekki tekið þátt í þessu.

Meiri hl. fjhn. og hæstv. fjrh. hafa lagt áherslu á það, að þörf væri fyrir útlent rekstrarfje til þess að styðja atvinnuvegina. Hæstv. fjrh. sagði, að aldrei hefði verið meiri þörf á þessu en nú. Jeg fer ekkert út í það. En sje svo, og jeg lít svo á, að svo sje, að atvinnuvegirnir eigi við meiri örðugleika að etja en nokkru sinni áður, þá er það fyrst og fremst að kenna stefnu og framkvæmdum hæstv. fjrh. í gengismálinu. En ef ástæða er til að fá erlent lánsfje, þá væri miklu eðlilegra, að bankarnir, sem hjer eru fyrir, tækju lán og miðluðu til atvinnuveganna. Jeg býst við, að bankastjórunum við þá banka væri ekki síður trúandi fyrir því fje en ókunnum mönnum, sem auk þess ættu að ráða yfir einhverjum verulegum hluta af sparifje landsmanna. Það á nú kannske að heita svo, að bankinn hafi ekki sparifje, en það var líka tilætlunin með Íslandsbanka, og tekur hann þó við því.

Jeg lít svo á, að ekki ætti að samþykkja þetta frv. Jeg þykist þó sjá, að það muni ná samþykki, þar sem 6 af 7 fjárhagsnefndarmönnum leggja með því. Ber jeg því fram tvær brtt., því að jeg lít svo á, að betri sje hálfur skaði en allur. En jeg skal taka það fram, að jeg greiði atkv. á móti frv., þó að báðar þessar brtt. verði samþyktar.

Till. fara í þá átt að tryggja betur afstöðu ríkissjóðs.

Bankinn á samkv. 1. gr. staflið d. að mega verja nokkru af ársarðinum til afskrifta. Til frekari tryggingar því, að þessi heimild sje ekki misnotuð, vil jeg, að til komi samþykki eftirlitsmanns banka og sparisjóða. Hin breytingin er á þá leið, að Alþingi, en ekki stjórnin, skipi tvo af þrem endurskoðendum bankans. Hugsunin er sú, að meiri trygging sje fyrir óhlutdrægu eftirliti, ef endurskoðendur eru skipaðir bæði af stjórnarflokknum og andstöðuflokknum, og meiri líkur til, að það verði að gagni.

Jeg get tekið undir með hv. frsm. minni hl. (ÁÁ), að þetta er stjfrv., en kemur þó í eðli sínu á móti stefnu stjórnarinnar í gengismálinn. Ef koma ætti í framkvæmd stefnu stjórnarinnar, yrði að takmarka allar lánveitingar og setja fjölmarga af atvinnurekendum á höfuðið. Þetta frv. verkar í öfuga átt, því að hjer er verið að leggja drögur fyrir nýtt starfsfje. Jeg skal benda á annað. Hver myndi útkoman verða, ef þessi banki kæmist á stofn og stjórninni tækist jafnframt að hækka krónuna upp í gullgildi? Gerum ráð fyrir, að stofnfje bankans væri 5 milj. í íslenskum krónum. Nú er ísl. krónan um 20% undir gullverði. Ef stjórninni tekst að hækka hana á tveimur árum upp í gullgildi, þá verður landið að borga eigendum bankans 1 miljón króna fyrir lánið á þessum 5 miljónum, vegna gengishækkunarinnar. Þetta kalla jeg dýrt. Yfirleitt virðist mjer þetta frv. bera greinilega vott um hið mesta „planleysi“ hjá stjórninni og flokki hennar í bankamálunum og gengismálinu. Sífeld styrjöld innan stjórnarflokksins um öll stærstu málin veldur því, að útlit er fyrir, að þetta þing verði eitt hið lengsta, en um leið ómerkilegasta sem haldið hefir verið. Mjer finst hlálegt, ef þetta verður eina frv. af bankamálunum, sem samþykt verður, frv. um að veifa hlunnindum framan í útlendinga. Jeg öfunda ekki hæstv. stjórn af þessari einu fjöður.