12.05.1926
Efri deild: 73. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1312 í B-deild Alþingistíðinda. (900)

82. mál, hlunnindi handa nýjum banka

Fjármálaráðherra (JÞ):

Háttv. frsm. minni hl. (IP) hefir nú gert grein fyrir þeim ástæðum, sem gera það, að hann getur ekki aðhyllst þetta frv., og get jeg að vísu vel skilið sumar þeirra, og sjerstaklega vel skilið, að yfir höfuð komi fram nokkur ótrú á aukningu lánsfjár frá hv. þm. þessa kjördæmis, nefnilega SuðurMúlasýslu, vegna þess að þar hafa óneitanlega orðið á undanförnum árum nokkuð mikil mistök í notkun lánsfjár. En samt held jeg, að það tjái ekki að líta svo á, sem nú verði að setja landið og atvinnuvegi þess í algert svelti um lánsfje vegna þess að nokkur mistök hafa orðið um notkun þess á undanförnum árum, sem voru svo, bæði hjer og annarsstaðar, að menn mistu sjónar á því, hvenær á að nota lánsfje og hvernig á að nota það.

Hv. þm. (IP) sagði fyrst, að sjer hefði fremur þótt rjett að koma skipulagi á seðlaútgáfuna heldur en að fara að hugsa um nýjan banka, en þetta tvent eru óskyld mál, eins og hv. 1. þm. (G.-K. (BK) benti á í fáum orðum. Það er ekki hægt með neinum ráðstöfunum á seðlaútgáfunni að útvega atvinnuvegunum neitt fjármagn, sem þeir ekki hafa nú; það má miklu fremur búast við því, hvernig sem seðlaútgáfunni verður hagað, að frá þeirri grein bankastarfseminnar komi fremur þrenging en aukning, af því að seðlaveltan hefir verið fullmikil, fremur útlit fyrir, að hún muni fara minkandi, og að hún minkar, það þýðir ekkert annað en það, að fje er tekið frá atvinnuvegunum. Það má ekki hyggja, að hægt sje að bæta úr skorti á veltufje með skipun seðlaútgáfunnar, en þetta frv. beinist að því að gera tilraun í þá átt. Það er ekki heppilegt að hugsa sjer veltufjáraukning í þá átt, að núverandi bankar noti lánstraust sitt miklu ítrar en nú er gert, með þeim mikla mismun, sem hjer er á árferði; það getur ekki vel farið nema því aðeins, að bankarnir eigi eitthvað talsvert af lánstrausti ónotað, sem þeir þá einmitt geti gripið til, þegar árferðið heimtar sjerstaklega mikil fjárútlán, en það er þegar illa árar. Það má ekki hugsa sjer starfsemi bankanna á þann hátt, að alt sje notað í góðu árunum, því að þá er alt þeirra lánstraust uppnotað, þegar illa árar. Nú hafa bankarnir reynt ákaflega mikið á lánstraust sitt; þeir hafa haft við mikið að stríða og nota meira lánsfje en bankar alment gera. Nægir þar að benda á enska lánið; það er nú svo, að það er fjórðungur úr miljón sterlingspunda, sem hvor þessara banka hefir fast í erlendum lánum.

Þá taldi háttv. þm. (IP), að af þessu myndi stafa samkepni við núverandi banka. er gæti orðið óholl. Ekki er jeg hræddur um, að svo muni verða, vegna þess, að mjer er kunnugt um, að bankarnir hafa nú upp á síðkastið ekki getað fullnægt eðlilegri eftirspurn um vel trygð lán til góðra viðskiftavina; og þegar svo er komið, þá er orðið eðlilegt rúm fyrir nýtt fjármagn til að fullnægja þessari eftirspurn. Og þó að það sje sjálfsagt rjett, sem hv. þm. (IP) segir, að það sje meira og minna af starfsfje bankanna, sem sje orðið fast í útlánum, sem er tregt um að fá inn, þá held jeg, að það sje ekki annað en eðlileg tilraun til úrlausnar á því sviði, að láta ekki fyrir það þrengjast svo mjög um veltufjármagn, að fleiri eða færrri af landsmönnum neyðist til að halda að sjer höndum, heldur sje miklu líklegra að reyna að sjá fyrir því veltufje, sem þarf til þess, að þessi atvinnufyrirtæki, sem sitja með þetta fje fast, fengju tækifæri til að vinna sig upp og skila sínum lánum aftur; og hygg jeg, að bæði bankamenn og lántakendur hafi fengið svo mikla reynslu á síðari árum, að minni hætta verði á ógætilegri notkun lánsfjár nú en áður.