12.04.1927
Neðri deild: 53. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1176 í B-deild Alþingistíðinda. (1142)

21. mál, fjárlög 1928

Björn Líndal:

Hv. frsm. þessa kafla fjárlagafrv. (TrÞ) talaði enn um það, að það vantaði öll gögn viðvíkjandi hinum væntanlega húsmæðraskóla Norðurlands. Jeg hefi skýrt frá, hvernig á þessu stendur, en vil auk þess benda á, að það stendur eins á með þennan skóla eins og með heilsuhæli Norðurlands á sínum tíma, þegar bæði hv. þm. Str. og aðrir samþyktu styrkveitingu til þess í fyrsta sinn á þinginu 1925. Þá hafði ekki verið ákveðið, hvar heilsuhælið ætti að standa, og hvorki lá þá fyrir endanleg teikning nje kostnaðaráætlun. Hafi ekki verið ástæða til þess að neita um fjárveitingu til heilsuhælisins af þessum ástæðum, þá getur ekki verið ástæða til þess að synja um fjárveitingu til húsmæðraskólans af þessum sömu ástæðum. Það liggja fyrir upplýsingar um það, að fje er til, og það er meira en hægt er að segja um Laugaskólann. Þessu til sönnunar vil jeg leyfa mjer, með leyfi hæstv. forseta, að lesa hjer upp símskeyti frá framkvæmdanefndinni til mín.

„Kvennaskólasjóður 11300 kr., okkar sjóður 3500 kr., framlag frá sýslu 10 þús. kr. og framlag frá Akureyrarbæ 10 þús. kr.“

Þessar 10 þús. kr., sem Eyjafjarðarsýsla ætlar að leggja fram, sýna það ljóslega, að sýslunefndin telur það trygt, að skólinn verði á þeim stað, sem hún telur góðan. Og framkvæmdanefndin hefir símað til hv. fjvn. um þetta, þó að hún hafi ekki sjerstaklega talað við nefndina á annan hátt.

Mjer virðist atkvgr. um skóla Þingeyinga sýna, að mikill áhugi sje hjer í þessari hv. deild fyrir aukinni húsmæðrafræðslu í landinu. Mjer datt því ekki annað í hug en að þessi till. mín gengi orðalaust í gegn, þar sem hún fer aðeins fram á sjálfsagðar efndir á 10 ára gömlu loforði þingsins, en hitt var alveg nýtt í sögunni, auk annara annmarka og undirbúningsleysis.

Þá vildi hv. frsm. taka mig á því, að jeg hefði sagt, að eyfirskar konur hefðu orðið ásáttar um það að bíða þangað til heilsuhælið væri komið upp, og því væri ekki enn lokið. Þetta er alveg rjett, en slíkt hið sama höfðu þingeyskar konur orðið ásáttar um, að minsta kosti á yfirborðinu, en nú laumast þær aftan að hinni sameiginlegu skólahugmynd.

Hvað sem annars má um þetta segja, þá er það víst, að hjer hefir ekki verið gengið hreint að verki af hálfu þeirra, er berjast nú fyrir stofnun húsmæðraskóla á Laugum.