19.04.1927
Efri deild: 53. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1275 í B-deild Alþingistíðinda. (1169)

21. mál, fjárlög 1928

Jón Baldvinsson:

Jeg bjóst altaf við því, að hæstv. forsrh. vildi ekki ganga inn á það, að stjórn hans væri bráðabirgðastjórn, eins og gerð var yfirlýsing um í hv. Nd. Hann stendur á því fastar en fótunum, að stjórn sú, er nú situr, sje þingræðisstjórn, og að sú ályktun, sem aðaldeild þingsins gerði, hafi þar engin áhrif haft. Jeg þarf ekki annað en benda hæstv. forsrh. á það, að ályktunin var gerð móti vilja hans sjálfs, hins ráðherrans líka og allra flokksmanna þeirra í hv. Nd. Ef ályktunin var hlutleysisyfirlýsing til hans og stjórnarinnar, hvers vegna sat þá ekki stjórnin hjá eða greiddi jafnvel atkv. með till.? Hitt var hreint og beint sönnun þess. að hjer var um vantraust að ræða.

Það hefir verið gerð ályktun á móti vilja hæstv. stjórnar og það í aðaldeild þingsins, hv. Nd. Því kemst hæstv. ráðh. (JÞ) ekki undan því, að stjórn sú, sem hann nú veitir forstöðu, er ekki þingræðisstjórn. En að hæstv. ráðh. (JÞ) virðir þingræðið ekki mikils, það sýna aðgerðir hans rjett áður er vantraustsyfirlýsingin kom fram. Ef hann hefði virt þingræðið, þá hefði hann ekki þegar hlaupið til að láta skipa sig forsætisráðh., þegar er hann fjekk pata af því, að vantraustsyfirlýsing væri á ferðinni. Það er eins og hæstv. forsrh. hafi gert þetta til þess að festa sig í sætinu. En gagnvart þinginu hefir þetta enga þýðingu. Hæstv. ráðh. blandar saman tvennu óskyldu, þegar hann er að tala um stjórnir í öðrum löndum, sem hafa ekki svo mikinn þingflokk að baki sjer, að þær hafi meiri hluta í þinginu með sjer, en hafa þá trygt sjer sumpart stuðning og sumpart hlutleysi meiri hlutans. Svo er það víðast í löndum Norður-Evrópu, þar sem stjórnarflokkurinn er ekki beint í meiri hluta. Svona er það í Svíþjóð og í Danmörku, þar sem stjórnin hefir ekki meiri hl. í þinginu, en Íhaldsflokkurinn og gerbótamenn eru saman um hlutleysi eða stuðning. Í þessum löndum er því þingræðisstjórn, enda þótt stjórnarflokkurinn sjálfur sje ekki í meiri hluta.

En hjer er það svo, að hæstv. stjórn hefir máske helming atkvæða í þinginu, en ekki meiri hluta, en þar að auki hefir hún ekki hlutleysisyfirlýsingu frá neinum. Hún getur því á engan hátt verið kölluð þingræðisstjórn í rjettum skilningi þess orðs. En mig furðar á því, að stjórnin skuli vera svo lítilþæg að vilja sitja, eftir að slík ályktun og sú, er kom fram í hv. Nd., hefir verið samþykt. Hún átti eftir öllum þingræðisreglum að segja af sjer, og ef ekki hefði verið hægt að mynda nýja stjórn, þá átti hún að rjúfa þing og efna til nýrra kosninga.

Þetta er alt annað en þegar utanþingsstjórnir starfa, eins og var í Danmörku fyrir nokkrum árum. Það varð af alveg sjerstöku ástandi, vegna þess að stjórn sú, er konungur upp á sitt eindæmi setti af, vildi ekki gegna stjórnarstörfum þar til nýtt ráðuneyti yrði myndað á þingræðislegan hátt. Af því, sem jeg nú hefi sagt, verð jeg að líta svo á, að hæstv. stjórn sje aðeins stjórn, er starfar til bráðabirgða, með þeim afleiðingum, sem því fylgir að lögum.

Jeg hefi lagt fyrir hæstv. stjórn nokkrar spurningar og fengið fullnægjandi svör við sumum þeirra, en sumum ekki. Vildi jeg leyfa mjer að fara nokkrum orðum um svörin.

Það er þá fyrst byggingin á Kleppi. Hæstv. ráðh. (MG) svaraði engu ákveðið um það, hvort byggingunni yrði haldið áfram nú, en sagði, að tekin yrði ákvörðun um það seinna í sumar, ef útlitið verður gott. En það má ekki draga það lengur að ljúka við bygginguna. Það, sem eftir er að gera, er að leggja dúka á gólfin, setja í hurðir og mála að innan, auk þess sem eftir er að leggja vatnsleiðslu og setja niður eldavjel. Þetta má ekki draga lengur, því að það er athugandi, að þó að húsið verði ekki búið fyrir veturinn, þá verður engu að síður að leggja í miðstöðina í vetur, svo að húsið skemmist ekki. Er af þessu ekki lítill kostnaður. Og þá verður að leigja fyrir sjúklingana hjer í bænum í vetur ófullnægjandi húsnæði, sem óforsvaranlegt er af heilbrigðisstjórninni að láta viðgangast. Hæstv. ráðh. (MG) má ekki slá þessu nauðsynjamáli frá sjer með því einu, að þetta verði ef til vill gert í sumar, ef alt gengur vel. Jeg vildi í þessu sambandi leyfa mjer að spyrja hæstv. ráðh. um það, hve mikið fje muni vera komið í bygginguna, því að það er langt síðan kjallarinn var bygður. Jeg hefi heyrt, að það muni vera um 160 þús. kr. komnar í hana nú.

Fyrirspurn minni út af tryggingarmálunum er jeg hræddur um, að hæstv. ráðh. (MG) hafi svarað skakt. En jeg beindi til hans þessari spurningu vegna till. þeirrar, sem jeg bar fram á síðasta þingi, en ekki var samþykt, heldur málinu vísað til stjórnarinnar fyrir tilstilli hæstv. ráðh. Kom þá fram loforð frá hæstv. ráðh. um það, að stjórnin mundi leggja fyrir næsta þing frv. um málið. Skal jeg til sönnunar því, að jeg fer með rjett mál, með leyfi hæstv. forseta lesa hjer upp örfá orð úr ræðu hæstv. ráðh., þegar hann var að mælast til, að till. væri vísað til stjórnarinnar. Ráðherrann segir:

„Mjer finst eðlilegast, að stjórnin taki þetta mál að sjer, og jeg vona, að jeg geti komið með frv. um þetta efni fyrir næsta þing, enda þótt jeg vilji ekki lofa því.“

Þetta verð jeg að skoða sem loforð af hendi hæstv. atvrh. Þetta er svo alvarlegt mál, að það má með engu móti dragast að hrinda því í framkvæmd, sjerstaklega vegna fjárhags landsins og sveitarfjelaganna. Jeg álít það óhyggilegt og rangt af hæstv. ráðherra að koma í veg fyrir slíka löggjöf, sjerstaklega þegar hann með villandi loforðum hefir fengið hv. þdm. til þess að vísa málinu til aðgerða landsstjórnarinnar.

Hæstv. ráðh. sagði, að Lambhagi í Mosfellssveit hefði verið seldur fyrir 20 þús. kr., og kvað hann þá sölu hafa farið fram samkvæmt heimild í lögum um sölu þjóðjarða. En jeg hygg, að það sje skýrt kveðið á um það í lögunum, að þjóðjarðir, sem liggja í nágrenni kauptúna, — en svo er um þessa jörð, — skuli ekki seldar. Sala þessi er því algerlega á móti anda laganna, og hygg jeg, að hæstv. ráðh. hafi gert rangt í því að samþykkja söluna, jafnvel þó að hrepps- og sýslufjelag hafi mælt með því.

Þá var svar hæstv. ráðh. við spurningu minni viðvíkjandi ræktun á landi í Mosfellsmýri allsendis ófullnægjandi. Jeg spurði hæstv. ráðh., hvað þar hefði verið gert, en hann svaraði því, að eitthvað hefði verið selt af því landi. En samkvæmt hvaða heimild var það gert? Upphaflega var ætlast til þess, að ráðist yrði í nýbýlaræktun á þessu landi. En síðan lá það óhreyft í mörg ár, en nú segir hæstv. ráðh., að selt hafi verið eitthvað af landinu.

Þá var það Hafnarfjarðarvegurinn. Hæstv. ráðh. vísaði til fjárlagafrv. um, að það hefði ekki verið ætlast til þess, að unnið væri við veginn. Mjer þykir það mjög undarlegt, að svo mikið fje skuli hafa verið lagt í veginn eins og gert hefir verið, ef svo hefir ekki verið ætlast til þess að halda vegagerðinni áfram. Árið 1917 var dýrtíðarvinna við veginn, og á sama tíma var grjótvinna í Öskjuhlíð, einnig dýrtíðarvinna. Hæstv. forsrh., sem nú er (JÞ), og íhaldsblöðin gerðu mikið hróp að stjórn þeirri, er sat að völdum, út af þessari vinnu, og var hver hríðin á fætur annari gerð að henni á Alþingi út af þessu og talað um það, að hún hefði ráðist í þetta fyrirhyggjulaust, og talað um Öskjuhlíðarfarganið o. s. frv. En það undarlega skeði, að aldrei var minst á dýrtíðarvinnuna í Hafnarfjarðarvegi. En af hverju var ekki minst á hana? Af því að það voru fagmenn, — landsverkfræðingurinn og íhaldsmaður, — sem höfðu ráðið þessu og því áttu hlut að máli. Jeg veit ekki með vissu, hve mikið fje hefir verið lagt í Hafnarfjarðarveginn, en jeg hygg, að það muni skifta tugum þúsunda króna. En samt sem áður er ekki haldið áfram með veginn. En peningarnir, sem lagðir voru í grjótnámið í Öskjuhlíð, þeir eru komnir aftur. Sumpart hefir grjótið verið selt, og sumpart hefir ríkið notað það til sinna þarfa. Líklega hugsar hæstv. stjórn sjer að láta grotna niður þessar 70 þús. kr., sem lagðar hafa verið í veginn, og verða að engu. Þetta er eingöngu að kenna mistökum þeirra forráðamanna þjóðarinnar, sem stýra eiga verklegum framkvæmdum í landinu nú. En það er margt fleira, sem athugavert er um framkvæmdir þeirra, en jeg mintist á þetta aðeins vegna þess, að það er einna mest áberandi.

Viðvíkjandi fyrirspurn minni um það, hvað virkjun Dynjanda liði, þá gat hæstv. ráðh. þess, að hann hefði nýlega fengið brjef, þar sem honum væri tjáð, að verkfræðingar verði sendir hingað til landsins til þess að gera mælingar viðvíkjandi virkjuninni. Þetta er í sjálfu sjer ekkert svar. Þetta ber aðeins vott um það, að fjelagið hefir enga peninga til virkjunarinnar, en reynir að halda þeim, sem það ætlar að fá peninga hjá, uppi á snakki um það, að nú ætli það að fara að taka til starfa. Þetta er æði ólíkt því, sem fullyrt var í fyrra, að verkamenn mundu verða farnir að vinna nú þar vestra. Hefði óneitanlega verið skemtilegra, ef hæstv. ráðh. hefði getað sagt það í stað þessara frjetta um verkfræðingana.

Þá kem jeg að Ferjukotssíkinu. Hæstv. ráðh. upplýsti ekki, hve mikill kostnaðurinn væri orðinn af þeirri vegagerð, en mjer er sagt, að það muni vera um 60–70 þús. kr. Það var byrjað á því 1921 að fylla upp mýrarflóa, og lá það þá þegar í augum uppi fyrir hverjum verkfróðum manni, að þar gæti aldrei orðið fær vegur, en engu að síður var verkinu haldið áfram af vegamálastjóra. Vegurinn hefir nú sokkið á hverjum vetri, enda er það eðlilegt, þar sem efnið í veginn hefir verið tekið úr sjálfri mýrinni. Hæstv. atvrh. segir, að vegurinn hafi bilað af því, að vatnsrás, sem liggur í gegnum veginn, hafi ekki verið nógu stór. En mjer er sagt, að vatnsrásin hafi líka sokkið. Hæstv. ráðh. ætti að athuga það hjá vegamálastjóra, hvort ekki væri hægt að ráðstafa þessu á annan og betri hátt.

Hæstv. forsrh. (JÞ) sagði, að það þyrfti enginn að fá leyfi til þess að reyna að koma á fót nýjum banka. En mjer er spurn. Höfðu ekki þeir, sem fengu upp hingað til landsins þýsku fjármálamennina, loforð hæstv. stjórnar um leyfi til þess að setja á stofn banka, ef svo bæri undir? — Hæstv. ráðh. sagði, að það hefðu fleiri en einn reynt að stofna hjer banka á síðustu árum. Hafði hæstvirt landsstjórn ekki veitt ákveðnum mönnum vilyrði fyrir því, að þeir fengju að stofna hjer banka, ef þeir næðu í peninga til þess? Jeg vildi fá að vita hverjir menn þeir væru, er fengið hefðu leyfi stjórnarinnar til bankastofnunar. En þessu svaraði hæstv. ráðh. engu.

Hæstv. ráðh. upplýsti það, að lánið til h.f. „Kára“ hefði ekki alt verið borgað upp síðastliðið ár. Er undarlegt, hve ljett hæstv. ráðh. hljóp yfir þetta. Hann sagði, að það stæðu ekki nema nokkrir tugir þúsunda kr. eftir af láninu. Hann hefði ekki gert svona lítið úr þessu, ef um hefði verið að ræða till. til fjárveitingar til nauðsynlegra framkvæmda; þá hefðu nokkrir tugir þúsunda verið stór peningur í hans augum.

Hæstv. forsrh. (JÞ) varði sig þá með því í þinginu, að þetta hefði ekki gert til, því að veðrjettur ríkissjóðs væri einskis virði. Hið sama sagði hann nú. En eftir verði togara í fyrra, þá eru ekki líkur fyrir því, að ríkissjóður hefði tapað nándar nærri eins miklu, ef togararnir hefðu verið seldir þá. Það hefði, hygg jeg, verið auðvelt að selja þá undir vetrarvertíðina, og hefði ekki endilega þurft að selja þá á uppboði, eins og hæstv. forsrh. gerði ráð fyrir.

Þá mótmælti hæstv. atvrh. (MG) því, að síldarsamlagið hefði mætt mótspyrnu erlendis frá. En hjer liggja plögg frammi á lestrarsal, er sýna, að mótmælin hafa komið fram. Jeg skil það vel, að mótmæli komi fram erlendis. Erlendir menn sætta sig ekki við það, að örfáir síldarspekúlantar hjer hafi öll ráðin yfir síldarframleiðslunni. Þetta benti jeg á í fyrra. En hinsvegar mundi aldrei hafa verið haft á móti síldarsamlagi, ef það hefði verið stofnað af ríkinu, eða ef ríkið hefði tekið síldarsöluna í sínar hendur.

Viðvíkjandi spurningum mínum um mannaráðningarnar í Skagafirði, þá kvaðst hæstv. ráðh. ekkert um kaupið vita, vegamálastjóri rjeði því. En hann sagðist hafa fengið ákúrur fyrir það, hve kaupið hefði verið hátt í fyrra. En hæstv. ráðh. hlýtur að vita, að kaup það, sem nú er boðið í Skagafirði, er óforsvaranlega lágt. Þar er boðið 50 aurar um tímann, en í Eyjafirði er það þó 60 aurar fram að slætti. Í fyrra var kaupið 70 aurar um tímann, og er þessi lækkun því meiri en venja er til og engu lagi lík. Hæstv. atvrh. á að taka í taumana, ef hann verður þess var, að vegamálastjóri ætlar að þrykkja kaupinu niður meira en góðu hófi gegnir. Þegar nú sjerstaklega er hjer um hans eigið kjördæmi að ræða, þá þykist jeg gera honum greiða með því að benda honum á þetta.

Viðvíkjandi þál. þeirri, sem samþykt var hjer í fyrra út af rýmkun landhelginnar, þá er jeg ánægður með svör stjórnarinnar út af því. Það er rjett leið að láta rannsaka vísindalega þann hag, sem fiskiveiðar vorar myndu hafa af því, að landhelgin væri rýmkuð, og vænti jeg þess, að stjórnin láti framkvæma þessa rannsókn sem fyrst.

Jeg get látið hjer staðar numið að sinni. Jeg ætlaði ekki að gera hjer neinn eldhúsdag. Jeg lýsti því yfir í dag, að jeg skoðaði stjórnina aðeins sem bráðabirgðastjórn, sem framkvæmdi dagleg störf ríkisins, og krafði hana því um nokkrar upplýsingar viðvíkjandi framkvæmdum ríkisins. Sumar þeirra hefi jeg fengið, sumar vantar enn, en vera má, að þær komi fram síðar í þessum umræðum.