06.05.1927
Efri deild: 67. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1508 í B-deild Alþingistíðinda. (1228)

21. mál, fjárlög 1928

Jónas Jónsson:

Jeg á nokkrar brtt. á þskj. 513 og 516, sem jeg ætla að minnast ofurlítið á. Fyrsta till. er þess efnis, að Lárusi Rist leikfimikennara verði veittur 1000 kr. utanfararstyrkur. Þessi maður hefir í 20 ár verið fimleikakennari á Akureyri og verið einhver besti kennari hjer á landi í þeirri grein. En nú er nauðsynlegt fyrir hann að kynna sjer ýmsar nýjungar í leikfimikenslu. Þar sem jeg fer aðeins fram á 1000 kr., er ekki hægt að segja annað en að hjer sje mjög hóflega af stað farið.

Næstu tillöguna flyt jeg ásamt hv. 1. þm. G.-K. (BK) og hv. 5. landsk. (JBald), um 1500 kr. styrk til Brynjólfs Þórðarsonar málara. Í fyrra bárum við fram tillögu um styrk handa þessum unga manni, með þeim einkennilega hætti, að styrkinn skyldi veita honum bæði í því skyni að fullkomna sig í málaralist og til þess að leita sjer heilsubótar. — Brynjólfur Þórðarson er mjög þektur hjer. Hann lærði hjá Þórarni heitnum Þorlákssyni, og er einn af þeim fáu málurum, sem með lítilli skólagöngu hafa komist svo langt, að nú má telja hann í fremri röð íslenskra listamanna. En nú sótti á hann brjóstveiki, svo að læknarnir töldu, að það eina, sem gæti bjargað heilsu hans, væri dvöl í mildara loftslagi. Svo var honum veittur styrkur í fyrra. Dvöl hans suður við Miðjarðarhaf hefir borið góðan árangur, en þó er hann enn ekki fullbata. En jafnframt því sem hann hefir haft fótavist, hefir hann getað stundað list sína.

Þá hefi jeg leyft mjer að bera fram tillögu um að landið kaupi málverk af Ásgrími Jónssyni. Jeg hefi sjeð þess getið nýlega, að ekkert hafi verið keypt af honum síðustu 6 árin. En þar sem hann er sennilega mesti málarinn, sem okkar land hefir alið, má ekki láta hjá líða að kaupa af honum á ári hverju, þannig, að ekki falli langur tími úr þróun hans og landið tapi ef til vill hans bestu verkum. Varatill., um að veita Ásgrími lán eins og Jóni Stefánssyni, tek jeg líklega aftur í samráði viði málarann sjálfan. Hann hefir aðeins farið farið fram á fyrra atriðið, en jeg bar fram varatill. af því, að jeg veit, að Ásgrímur á oft í húsnæðisvandræðum. Hann hefir altaf haft kalda og óþægilega vinnustofu, sem hann að öllum líkindum hefir beðið heilsutjón af að vinna í. En Ásgrímur vildi ekki spilla fyrir Jóni Stefánssyni, og ætti hann síst að gjalda þeirrar nærgætni sinnar.

Næst fer jeg fram á 1800 króna styrk handa Ásmundi Sveinssyni myndhöggvara til Rómaferðar. Ásmundur er uppalinn á Kolsstöðum í Miðdölum í Dalasýslu. Foreldrar hans og systkini fluttust að Eskiholti í Mýrasýslu og búa þar. Er það alt mesta hagleiksfólk. Þessi maður lærði fyrst trjeskurð hjer heima, en fór svo á listaháskólann í Svíþjóð og er fyrsti íslenski listamaðurinn, sem hefir gengið í gegnum listanám í Svíþjóð. Frægasti myndhöggvari Svía hefir gefið honum mjög góð meðmæli. Foreldrar hans hafa stutt hann eftir megni, og auk þess hefir iðn hans komið honum að góðu haldi, því að hann er ágætur trjeskeri. Nú hefir hann dvalið um hríð í Frakklandi og hefir mikinn hug á að ljúka námi sínu með nokkurra mánaða dvöl í Róm. Jeg hitti hann ytra og sá, að hann vann af miklum myndarskap. En svo veiktist hann í vetur hættulega og lá lengi á spítala í París, en er nú albata. Ef hann fær ekki þennan styrk, verður hann að hætta við þennan síðasta áfanga flestra listamanna.

Mjer dettur í hug að segja háttv. þdm. sögu af því, hvernig Ásgrímur Jónsson fjekk sinn Rómastyrk. Jeg held, að hún sje sönn, og vona jeg, að fyndni sögunnar hafi ekki aðeins orðið til að bjarga Ásgrími til Rómaferðar, heldur verði hún líka til að hjálpa Ásmundi Sveinssyni. Þegar Ásgrímur Jónsson var búinn að læra hjer á Norðurlöndum, langaði hann mikið til að komast til Rómaborgar og sótti um styrk í því skyni. Þá voru í fjvn. Nd. þeir Hermann Jónasson, Pjetur á Gautlöndum og Skúli Thoroddsen. Hermann var sá, sem beitti sjer mest fyrir því að hjálpa Ásgrími. Þegar þeir ætluðu að fara að undirskrifa nál., segir Hermann: „Vitið þið, af hverju Gunnar á Hlíðarenda sneri aftur?“ „Nei“, sögðu hinir, „við vitum ekki annað en það, sem stendur í Njálu“. „Ásgrímur er búinn að leysa gátuna“, segir Hermann, „eins og þið getið sjeð af málverki hans“. Þeir fara að skoða myndina, en sjá ekkert. Þá segir Hermann: „Sjáið þið ekki, að hestur Gunnars er beislislaus? Þess vegna sneri hann heim að Hlíðarenda“. Þessi fyndni Hermanns varð til þess, að Ásgrímur fjekk styrkinn. Nú hefir það verið siður um okkar fremstu listamenn, að þeir hafa farið til Rómar. Síðasti Íslendingurinn, sem hefir lokið prófi við listaháskóla, er Ásmundur Sveinsson. Því er ekki hægt að neita, að svo fremi við höldum áfram að styrkja okkar bestu listamenn til Rómaferðar, þegar þeir eru fullnuma að öðru leyti, þá er Ásmundur Sveinsson sá maður, sem á að fá slíkan styrk nú. Jeg treysti því þess vegna, að hv. þdm. telji þessa 1800 kr. fjárhæð rjettmæta og samþykki till. Hjer er aðeins verið að halda áfram reglu, sem hefir verið fylgt áður, okkar listalífi til styrktar.

Næsta tillaga mín er um 1000 kr. styrk til Einars Markans söngvara. Jeg þekki hann ekkert og hefi aldrei við hann talað. Jeg flyt tillöguna eftir beiðni nánustu vandamanna hans. En jeg vil geta þess, að bróðir hans, sem er í þjónustu landsins, hefir innunnið landinu marga tugi þúsunda með dugnaði sínum, sem bráðabirgðaskipstjóri á Þór, og lagt svo mikið á borð með ætt sinni, að jeg held, að þessari fjárhæð geti ekki talist illa varið.

Þá flyt jeg, eftir tilmælum manna úr Árnessýslu, tillögu um að styrkur Sigurðar Skúlasonar sje hækkaður úr 1000 kr. upp í 1500 kr. Sigurður er sonur hins góðkunna læknis, Skúla í Skálholti. Hann ætlar að halda áfram sínum fræðum með utanlandsferð og hefir ágæt meðmæli frá kennurum sínum. Ekki þarf að óttast, að illa verði með fjeð farið, því að Sigurður er mesti dugnaðarmaður og mjög reglusamur.

Næst fer jeg fram á, að hækkaður verði ellistyrkurinn til Hans Hannessonar pósts upp í 1000 krónur. Þessi maður hefir verið í þjónustu landsins í hjerumbil 40 ár og sýnt mikinn dugnað og samviskusemi. Hann fór hinar erfiðu ferðir austur yfir Hellisheiði, en nú er farið að flytja póstinn austur í bílum, og í vetur tókst að halda veginum svo mikið opnum, að póststjórnin sagði honum alveg upp. Hann varð vegna stöðu sinnar að halda marga hesta og margvíslegan útbúnað, bifreiðar, sleða o. fl. Nú hefir honum alt í einu verið kastað úr þjónustu landsins með 300 króna ellistyrk. Hann verður fyrir miklum skaða með þessu, en þess ber að geta um leið, að hann er á engan hátt látinn fara úr stöðunni fyrir vanrækslu sakir, heldur af því einu, að póststjórnin álítur, að nú eigi ekki að nota hesta og koffort lengur, heldur bíla og önnur ný flutningatæki. Jeg held því, að það væri í alla staði rjettlátt að veita manninum þennan styrk.

Þá hefi jeg leyft mjer að bera fram tillögu um það, að skáldastyrkur sá til Einars Benediktssonar, sem ákveðinn var í hv. Nd., nái líka til yfirstandandi árs. Það er um þennan lið að segja, að flestum mun koma saman um það, að Einar Benediktsson sje, við hlið Stephans G. Stephanssonar, annað mest núlifandi skáld, og að hans störf sem skálds muni kasta ljóma yfir samtíð hans um ókomnar aldir, meðan íslensk tunga verður töluð og skilin. Nú hefir þessi maður, sem í skáldskap sínum hefir líkst mest Agli Skallagrímssyni, bæði verið kjarnaskáld og í aðra röndina víkingur, sem hefir herjað úti í löndum á sínum manndómsárum, á efri árum sest að hjer heima. Menn mundu áreiðanlega ekki heiðra Egil Skallagrímsson eins og gert er, ef hann hefði aðeins verið víkingur, því að mörg af hans afreksverkum orka mjög tvímælis. En Egill er nú fyrst og fremst skáld, og svipað er með Einar Benediktsson. Hann hefir farið víða, og þó að margt í víkingaferðum hans orki mjög tvímælis, þá er um ljóðagerð hans að segja, að hún er að mörgu leyti undursamleg, og er það sú hlið á starfi hans, sem þingið vill viðurkenna með þessari fjárveitingu. Mjer er kunnugt um, að það skiftir allmiklu máli fyrir skáldið, hvort þessi fjárveiting getur gilt fyrir yfirstandandi ár, því að hann hefir ekki, eins og Egill Skallagrímsson, flutt heim með sjer kistur fullar af silfri. Síðastliðið vor heyrði jeg það á skáldinu, að honum væri álitshnekkir gerður með því, að flestum öðrum íslenskum skáldum væri sýndur nokkur sómi af Alþingi, en ekki honum. Jeg benti á það, að meðan að hann hefði verið fjarlægur okkur, hefðu menn ekki búist við því, að skáldastyrkur, eins og hjer væri veittur, hefði mikla þýðingu fyrir hann, en þegar hann settist hjer í helgan stein, þá myndi hans sjálfsagt verða minst, eins og margra annara af okkar góðu skáldum. Svo þegar jeg hafði kynt mjer málið betur, spurði jeg helstu mennina í heimspekideild háskólans, hvort deildin vildi minnast þess, að þessi frægi víkingur væri nú sestur að hjá okkur, og þeir litu svo á, að tími væri til kominn að sýna skáldinu nokkurn sóma, og sóttu um heiðurslaun honum til handa. Hv. Nd. tók mjög vel í þetta. En jeg vildi líka gjarnan heyra álit hæstv. stjórnar um það, hvort hún mundi geta álitið sjer það leyfilegt að borga skáldinu fyrir árið í ár eins og fyrir næsta ár, og ef svo er, þá myndi jeg taka brtt. aftur.

Um upphæð þessa skáldastyrks vil jeg geta þess, að ef maður lítur á þau laun, sem þingið veitti Matthíasi Jochumssyni, nefnilega 2400 krónur, þá mun láta nærri, að þetta, sem hjer er talað um, myndi handa okkar mesta núlifandi skáldi vera hliðstætt því, er Matthías fjekk fyrir 35 árum, þegar hann ljet af prestsskap.

Þá hefi jeg borið fram eina brtt. á þskj. 516, um það að verja megi litlu af því fje, eftir því sem þar er nánar tiltekið, sem kynni að sparast við að prestaköll eru laus, til að greiða ferðakostnað handa prestvígðum manni, einum eða fleirum, til eflingar andlegri samvinnu meðal presta og menningaráhrifa á söfnuði úti um land. Jeg bar þetta fram eftir tilmælum nokkurra presta, sem líta svo á, að það úrræði, sem þessi háttv. deild tók til í fyrra, hafi verið góð framkvæmd, og jeg geri það því frekar sem jeg álít, að það væri mjög æskilegt, að það væri meira gert að því að láta úrvalspresta ferðast um landið og halda guðsþjónustur, en aftur prestum fækkað þar, sem því mætti við koma; því að úrvalsprestar fá með því tækifæri til þess að starfa fyrir fleiri, og fleiri tækifæri til að njóta þeirra. Mjer er t. d. kunnugt um það, þó að það sje ekki alveg hliðstætt, að þegar þeir Einar Hjörleifsson og Haraldur Níelsson prófessor, annar skáld en hinn prestur, ferðuðust einu sinni um landið til þess að halda fyrirlestra andlegs efnis, þá flyktist fólkið til þeirra, og það jafnvel um heyskapartímann, til þess að hlusta á þá. Jeg hefi verið úti á landi, þar sem þessir menn hafa safnað saman mörgum hundruðum manna til að hlusta á sig, og jeg held, að ef þessu fje væri vel varið, myndi það yfirleitt verða til þess að glæða andlegan hugsunarhátt og menningu í hinum dreyfðu bygðum. Mjer er kunnugt um, að fyrir fje, sem kirkjustjórnin hefir mátt verja svona, hefir einn af merkustu mönnum þessa lands, sjera Þorsteinn Briem, haldið röð af fyrirlestrum við Hvítárbakkaskólann. Ennfremur er mjer kunnugt um, að sjera Sveinbjörn Högnason, sem mun flytjast til Rangárvallasýslu, ætlar að heimsækja Laugaskólann í sama skyni, og ennfremur er mjer kunnugt um, að Austfirðingar hafa sótt eftir að fá einhvern góðan mann til þess að flytja fyrirlestra við skólann á Eiðum. En hjer er ekki farið fram á neina nýja fjárveitingu, heldur er aðeins óskað þess, að það megi nota nokkuð af því fje, sem sparast um stundarsakir, þar sem prestaköll standa óveitt.