11.05.1927
Neðri deild: 72. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1625 í B-deild Alþingistíðinda. (1264)

21. mál, fjárlög 1928

1264Frsm. síðari kaflans (Tryggvi Þórhallsson):

Það er sjaldan, sem jeg get látið í ljós ánægju mína yfir orðum hæstv. atvrh. (MG), en það get jeg þó að þessu sinni. Hann staðfesti það, sem jeg hefi haldið fram um gildi samningsins milli stjórnarinnar og stjórnar landsspítalasjóðsins. Jeg vissi vel, að einhver samningur var gerður á milli þessara aðilja, en að hann væri svona, það vissi jeg ekki. Jeg taldi sem sagt víst, að hann hefði verið gerður á grundvelli þál. þeirrar, sem þingið þá hafði samþykt um þetta mál.

Þá sagði hæstv. ráðherra, að þingið 1925 hefði samþykt samning þennan, en það er ekki rjett, samþykt þingsins í þá átt grundvallaðist á þál., sem samþykt var á því sama þingi.

Hitt atriðið, sem gladdi mig, var út af orðahnippingum þeim, sem jeg átti í við hæstv. fjrh. í gær. Hæstv. atvrh. varð nefnilega til þess að staðfesta það, sem jeg sagði um fjárhúsbygginguna á Hólum, að til hennar væri ekki veitt nægilegt fje á þessu ári, heldur ætti líka að byggja fyrir það fje, sem veita á til skólans í fjárlagafrv. því, sem nú er til umræðu. Jafnframt viðurkendi hann, að búið væri að auglýsa eftir tilboðum í byggingu þessa, sem ekki er búið að veita nægilegt fje til. Hæstv. atvrh. hefir því orðið til þess að bera vitni á móti embættisbróður sínum, hæstv. forsrh.

Það síðasta, sem jeg vildi segja, er það, að það mun vera einsdæmi í stjórnmálasögunni, að nokkur stjórn og flokkur hennar reyni af alefli að spyrna á móti góðri afgreiðslu fjárlaganna, en það gerir íhaldsstjórn Íslands og flokkur hennar á þinginu 1927.

Háttv. Ed. hefir gengið í sömu átt og meiri hluti fjvn. vill gera nú, og hefir viljað gera fyr, að stýfa tillögur hæstv. stjórnar, að hafa vit fyrir henni, en þá skeður þetta undarlega, að hún leggur áherslu á, að úr engu sje bætt.