11.05.1927
Neðri deild: 72. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1638 í B-deild Alþingistíðinda. (1269)

21. mál, fjárlög 1928

Atv.- og dómsmrh. (Magnús Guðmundsson):

Það er eins og háttv. þm. Str. verði hissa í hvert skifti, sem ráðherrarnir svara honum. Veit jeg ekki, hvort það er heldur af því, að honum finst ekki svaravert það, sem hann segir, eða að honum er illa við það, að honum sje svarað.

Hv. þm. þóttist nú heldur ná sjer niðri á mjer, þar sem hann sagði, að stjórnin hefði fyrst gert samning um framlög til landsspítalans, og á eftir hefði hún svo komið fram þál. um það. Þessu máli horfir þannig við, að um þetta hafði verið samþ. þál. í hv. Ed. áður en samningurinn var gerður, og það voru samtök um það í öllu þinginu að gera þann samning, og var það talið svo sjálfsagt mál, að enginn maður tók til máls um það í þessari deild, hvorki við fyrri nje síðari umr. En í umr. um málið í hv. Ed. gaf þáverandi forsrh., sem nú er látinn, yfirlýsingu um það, að verið væri að undirbúa samning um málið. Vil jeg leyfa mjer, með leyfi hæstv. forseta, að lesa hjer upp það, sem hann sagði því viðvíkjandi:

„Þessum samningi er nú sama sem lokið, svo innan fárra daga mun verða hægt að leggja málið fyrir þingið á þeim grundvelli.“

Með öðrum orðum: þegar verið er að ræða þál. í hv. Ed., er það undir eins upplýst af stjórninni, að samningurinn sje aðeins ógerður. Síðan var hann lagður fyrir þingið og samþyktur orði til orðs. Hvernig getur þá hv. þm. Str. komið fram með aðra eins bábilju og þá, að samningurinn sje ekki bindandi fyrir þingið? Það skiftir engu máli, þótt háttv. þm. hafi ekki lesið samninginn. Það var þó sjerstök skylda hans sem fjvn.-manns að kynna sjer samninginn rækilega, og jeg býst við því, að hann hafi gert það, hvernig sem hann lætur nú. En í þessu sambandi er fróðlegt að rifja það upp fyrir sjer, hvernig „Tíminn“ tók í þetta mál 1925. Hann sagði þá, að íhaldsmenn vildu drepa allar framkvæmdir, þar á meðal landsspítalann. Þetta stendur í grein, sem er undirrituð J. J., og vona jeg, að hv. þm. Str. kannist við höfundinn. Greinin er birt í „Tímanum“ 23. maí 1925. Þar segir svo:

„Þá var landsspítalinn settur á fjárlög í trássi við meginþorra íhaldsmanna, sem greiddu atkvæði tvívegis á móti. Verður nú byrjað að reisa spítalann í sumar, og á að vera lokið fyrir 1930.“

Þetta er góð mynd af stefnufestu forkólfa Framsóknarflokksins og góður spegill þess, hvernig sannleikurinn er borinn fram í þessu blaði. Það segir, að íhaldsmenn hafi barist gegn samningnum og tvívegis greitt atkv. á móti honum. En nú, tveimur árum síðar, fjargviðrast hv. þm. Str. út af því, að það sjeu íhaldsmenn, sem beri ábyrgðina á því, að samningurinn var gerður.