02.03.1927
Neðri deild: 19. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1696 í B-deild Alþingistíðinda. (1301)

6. mál, fátækralög

Hjeðinn Valdimarsson:

Það var eitt atriði í ræðu hv. þm. Barð. (HK), sem jeg vildi minnast á. Það leit út fyrir, að hann hjeldi, að yrðu mínar tillögur samþyktar, myndi sjálfbjargarviðleitni manna hverfa og allir vildu fara á sveitina. Jeg get nú ekki skilið, hvernig mönnum dettur annað eins og þetta í hug. Jeg veit, að menn þekkja kjörin, sem þurfalingar verða að sætta sig við, og jeg hugsa, að það sjeu ekki margir, sem langar til að vera undir umsjón fátækrastjórnanna og fá alt skamtað úr hnefa, í hvert sinn, sem þeir þurfa eitthvað að fá, fæði og klæði eða hvað sem er. Jeg hefi talað við ýmsa hjer í bæ, sem þurft hafa að þiggja af sveit, og hafa þeir sagt mjer, að það hafi verið sín þyngstu spor á æfinni, er þeir fóru að biðja um styrkinn.

Hæstv. atvrh. (MG) taldi ósennilegt, að sveitarstyrkur yrði nokkru sinni gefinn upp af pólitískum ástæðum, og tók það til samanburðar, að hann væri aldrei veittur af pólitískum ástæðum. En jeg vona, að hv. þdm. skiljist það, að mikill munur er á, hvort menn heimta skýlausan rjett sinn eftir stjórnarskránni — og sá rjettur kemur stjórnmálum ekkert við, heldur er aðeins til að fá í sig og á, — eða hvort menn fara fram á að fá þau rjettindi, sem bæjar- eða sveitarstjórn hefir fult vald til að veita eða synja um, og þau eru pólitísks eðlis, kosningarrjetturinn sjálfur.

Jeg er á gagnstæðri skoðun við hæstv. atvrh. um það, hvort maður, sem styrk hefir fengið út sveitarsjóði, megi ráða dvalarstað sínum sjálfur, eða hvort hann hafi skuldalið sitt hjá sjer. En álit manna um þetta fer vitanlega eftir því, hvort þeir meta meira peningana í sveitarsjóði eða frelsi mannanna. — Jeg get fúslega viðurkent, að mönnum geti undir sumum kringumstæðum liðið betur í sveit. Og mjer hefir t. d. verið sagt, að í annari Skaftafellssýslunni hafi bændur þá reglu, þegar einhver fer á sveitina, að þeir setji undir hann bú. (HK: Það á sjer víða stað). Það virðist mjer bæði mannúðlega og skynsamlega að farið, en jeg býst við, að þeir yrðu fáir, sem neituðu að fara upp í sveit, ef þeim væri boðið bú undir sig, svo að þess vegna væri óhætt að leyfa þessum mönnum að halda sjálfsákvörðunarrjettinum.

Hæstv. atvrh. fór með það vígorð, að jeg vildi umsteypa öllu, og jafnvel sjálfu þjóðskipulaginu. Jeg gæti náttúrlega eins sagt, að hann vildi halda í alla hluti, sem gamlir eru og úreltir, en mjer virðist gagnslítið að ræðast við með eintómum vígorðum.

Hæstv. atvrh. líkaði miður, að jeg gerði lítið úr „endurskoðuninni“ á fátækralögunum hjá honum. En jeg verð nú að segja, að mjer þykir það lítil endurskoðun að prenta upp gildandi lagabálk, þó að einni eða tveimur greinum sje ögn vikið við.

Þá þóttist hæstv. ráðh. ekki þekkja það land, þar sem þing stæði yfir alt árið. Jeg undrast mjög að heyra slíkt af hans munni, sem ætti að vita betur. Það er t. d. svo í nágrannalandinu Englandi; þar er altaf þing nema rjett í sumarleyfinu. (Atvrh. MG: „Nema í sumarleyfinu“; jeg vil nú telja sumarið til ársins líka). Leyfið stendur ekki yfir alt sumarið, aðeins viku eða hálfan mánuð.

Það er auðvitað rjett hjá hæstv. ráðh., að í brtt. mínum eru flest þau atriði, er jeg hefi við frv. að athuga, að svo miklu leyti, sem hægt er að koma þeim fram við frv. í þeirri mynd, sem það er. Ef taka ætti með önnur atriði, svo sem að gera landið alt að einu framfærsluhjeraði, þyrfti, ef vel 107 ætti að vera, að umturna að minsta kosti þrem fjórðu hlutum frv., eins og það er nú, svo að auðsjeð er, að það er varla leggjandi til grundvallar.

Jeg lít svo á, að 43. gr. frv. sje mjög varhugaverð. Að vísu er hún nokkur bót frá núverandi ástandi, einkum ef brtt. mínar verða samþyktar. En um frv. sjálft mun jeg ekki greiða atkv., sakir þess að jeg álít það bygt á röngum grundvelli. Þess vegna mun jeg síðar á þessu þingi flytja aðrar tillögur um málið, eins og jeg hefi áður sagt.

Jeg heyrði, að hæstv. ráðh. (MG) langaði til að vita, hvenær fram yrði borin till. til þál., sem jeg lofaði í gær. En jeg get nú ekki verið að gera hæstv. ráðh. of mikið til þægðar og held þess vegna, að jeg verði að halda honum á pínubekknum dálitla stund enn, láta hann vera í óvissunni.

Hæstv. atvrh. (MG) tók dæmi um það, hve lítil sanngirni gæti orðið um það eftir mínum tillögum, hvort styrkur skyldi talinn afturkræfur eða ekki. Þótti honum lítil sanngirni í því, að styrkurinn yrði ekki afturkræfur, ef maður hefði 3 börn á sínu framfæri heima hjá sjer, en þar á móti yrði hann afturkræfur, ef tvö barnanna væru utan heimilisins, enda þótt það væri heimilisföðurnum miklu dýrara. Mjer finst aðeins það að athuga við þetta dæmi, að jeg held, að flestir, sem koma börnum sínum fyrir hjá öðrum, geri það til þess að þurfa minna til þeirra að kosta. Hinsvegar er engin sönnun í þessu hjá hæstv. ráðh., jafnvel þótt dýrara væri að hafa börnin utan heimilis. Því að þó einum manni sje rjettur ger, er ekki öðrum sýndur neinn órjettur með því einu út af fyrir sig.

Þá er spurning hæstv. ráðh. (MG) um það, hvaða vinna mætti teljast „sæmilega“ borguð eftir till. mínum. Jeg geri ráð fyrir, að fljótt gæti komið úrskurður um það, en í Danmörku er t. d. sú vinna talin sæmilega borguð, sem greitt er fyrir eftir venjulegum kauptaxta á staðnum. En það kemur ekki til mála, að sveitarstjórnir megi nota þurfamenn til að kúga niður kaupgjald í bæjunum.

Að lokum vil jeg beina þeirri spurningu til hæstv. atvrh., hvenær málið um drenginn í Fljótum barst til stjórnarráðsins.

Þá vil jeg víkja örfáum orðum að hv. frsm. (JK). Hann leit svo á, að þurfamenn ættu helst kunningja í sinni sveit, og því mundu menn best þekkja til þeirra í framfærslusveitunum. En þar sem fjögurra ára sveitfestitíminn er ekki kominn til framkvæmda ennþá, held jeg flestir hljóti að eiga miklu fleiri kunningja í dvalarsveitum sínum. Auk þess má nefna dæmi um það, að konur eru fluttar á sveit manna sinna, enda þótt þær hafi þar aldrei komið og þekki þar ekki nokkurn mann.

Út af brtt. minni um að hækka dagstyrkinn til hjús, sem liggur sjúkt utan heimilis síns, úr 1 kr. í 5 kr., vil jeg geta þess, að jeg miðaði þá upphæð við dagpeningana eftir slysatryggingarlögunum. Enda er þessi upphæð áreiðanlega ekki of há. En ef háttv. deild fellir þessa brtt. af því, að henni þyki of langt gengið, get jeg felt mig við að fara milliveg. Jeg skil ekki, hvernig hv. þm. (JK) dettur í hug að segja, að jeg vilji altaf fara með öfgar. Mjer vitanlega græðir enginn á því.

Það er rjett hjá hv. frsm., að eftir till. mínum er ekki gerður munur á, hvort styrkþegi hefir verið reglumaður eða óreglumaður, ef það er annað, sem kemur honum til að beiðast styrks. Og jeg fæ ekki heldur sjeð, hvað regla eða óregla kemur þessu máli við, ef óreglan er ekki orsök til styrkbeiðninnar.

Það er aftur á móti ekki rjett hjá hv. frsm., að jeg hafi sagt, að erfitt væri að losna við sveitarflutninginn, heldur sagði jeg, að sveitarstjórnunum væri nokkur vorkunn, en þær horfðu meira í krónumar en vilja þurfafólksins.

Þau dæmi um sveitarflutning, sem jeg nefndi í fyrri ræðu minni, eru öll rjett; enginn þeirra, sem fluttir voru, var geðveikur, en jeg mun hafa minst á einn slíkan mann; hann var ekki fluttur burt úr bænum. — Bæjarstjórn Reykjavíkur verður engan veg ásökuð fyrir þennan fátækraflutning, því að lögum samkvæmt verður hún að láta beita valdi til að flytja burtu þurfamenn, ef stjórn framfærslusveitar krefst þess. En jeg veit, að bæjarstjórn Reykjavíkur er því oft andvíg, og yfirleitt hygg jeg að segja megi, að hún sýni meiri mannúð í fátækramálum en flestar aðrar sveitar- og bæjarstjórnir.

Jeg held, að það, sem mestu veldur um það, hve erfitt er að koma lagi á fátækramálin, sje ekki það, að menn sjái ekki hvað aflaga fer, heldur hitt, að viljann vantar. Jeg hygg, að ef hæstv. ráðh. og hv. þm. hefðu sjálfir þurft að biðja um styrk einhvern tíma á æfinni, og konu og börnum þeirra verið sundrað á ýms heimili, þá mundu þeir ekki tala eins um þessi mál og þeir gera, og ekki greiða eins atkv. og flestir þeirra munu nú hafa hugsað sjer.

Að endingu vil jeg mælast til þess við hæstv. forseta, að hann beri upp hvern staflið í brtt. mínum fyrir sig, svo að það geti þá sparað mjer það ómak að þurfa e. t. v. að bera einhverja þeirra fram aftur við 3. umr.