02.03.1927
Neðri deild: 19. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1703 í B-deild Alþingistíðinda. (1303)

6. mál, fátækralög

Jakob Möller:

* Jeg verð að taka undir með hv. 4. þm. Reykv. (HjV) um það, að í raun og veru sje þetta frv. eins og það liggur fyrir ákaflega lítils virði. Breytingar og umbætur frá því, sem verið hefir, eru svo ákaflega lítilfjörlegar, að það má svo segja, að þær sjeu bókstaflega talað einskisvirði. Og jeg held, að þessi aðalbreyting, sem helst ætti að vera til að gangast fyrir, þessi rýmkun, sem á að veita þeim, sem styrk þiggja af hálfu hins opinbera, verði í framkvæmdinni verri en engin breyting. Jeg held hún geti alls ekki náð þeim tilgangi, sem henni er ætlaður. — Breytingin er í því fólgin, að þeir, sem veittur er óafturkræfur sveitarstyrkur til framfæris, missa ekki kosningarrjett. Stjórnarskráin tekur svo til orða, að þeir, sem standa í skuld fyrir þeginn sveitarstyrk, hafi ekki kosningarrjett. Það á að fara í kringum ákvæði stjórnarskrárinnar, með því móti að veita ýmist afturkræfan eða óafturkræfan sveitarstyrk. Þetta út af fyrir sig, að fara kringum ákvæði stjórnarskrárinnar, er í raun og veru alveg ósæmileg aðferð. Sannleikurinn í þessu máli er sá, að breytingum á þessu verður varla komið í framkvæmd nema með stjórnarskrárbreytingu. Hjer er verið að reyna að breyta stjórnarskránni með einföldum lögum. En það er ekki hægt — og á ekki að vera hægt. Þegar af þessari ástæðu er auðsætt, að það er ekkert gefandi fyrir þessa breytingu á fátækralögunum.

Svo er í öðru lagi spurningin: Hvað verður úr framkvæmdunum í þessu efni? Nú kemur það fyrir, að menn þurfa af sjerstökum ástæðum að fá skyndilega hjálp sjer til framfærslu. Halda ekki hv. þdm., að sveitarstjórnir verði dálítið tregar til þess í þeim tilfellum, þar sem gera má beinlínis ráð fyrir, að styrkurinn mundi endurgreiðast þegar úr rættist, að fara þá að veita óafturkræfan sveitarstyrk ? Þarna væru einmitt oft þau tilfelli, að sjálfsagðast væri, að menn mistu ekki rjett sinn, þótt þeir yrðu að leita á náðir hins opinbera í bili. Þá yrði enn á ný að fara kringum þessi lög, ef þessi breyting ætti að koma að rjettu gagni. Jeg geri sem sje ráð fyrir, að sveitarstjórnir myndu einna ófúsastar að veita óafturkræfan sveitarstyrk þeim mönnum, sem helst væri ástæða til að tryggja kosningarrjettinn.

Nei, þessi breyting frv. finst mjer ákaflega lítilsverð. Sannleikurinn er sá, að það er ekki hægt að sjá, að nokkur hafi við endurskoðun þessara laga sýnt nokkurn vilja til þess að gera neina breytingu á því ástandi, sem er. Það hefir komið greinilega fram í ræðu hæstv. atvrh. (MG) og háttv. frsm. nefndarinnar (JK), að það er virkilega meiningin að halda fast við það ástand, sem er. Að minsta kosti sagði hv. frsm. um fátækraflutninginn, að ómögulegt væri að komast hjá honum með því fyrirkomulagi á fátækralögunum, sem nú er. Þetta er dálítið skringilegt, þar sem það liggur fyrir að endurskoða lögin, að tala um það, að ekki sje hægt að breyta þeim vegna þess fyrirkomulags, sem sje á fátækralögunum. Hjer liggja lögin til allsherjar endurskoðunar og breytinga, eftir því sem menn sjá ástæður til. Spurningin er því ekki, hvað sje hægt að gera vegna þeirra fátækralaga, sem nú gilda, heldur hvað menn vilji gera þeim til bóta. Nú þykjast menn í orði sammála um, að sveitarflutningur sje ósæmilegur. En það vottar ekki fyrir neinum vilja til að breyta þessu.

Jeg get fullvissað hv. deild um það, að það þarf ekki að væna hv. 4. þm. Reykv. um, að hann sje byltingamaður í þessu máli. Það má sem sje með lítilfjörlegri breytingu á því frv., sem hjer liggur fyrir, komast algerlega hjá sveitarflutningi, bara ef viljinn er til þess. Það má t. d. með því að skifta framfærslu manna, sem dvelja í öðrum sveitum, milli dvalarsveitar og framfærslusveitar, og ef til vill ríkissjóðs að einhverju leyti. Láta t. d. koma í hlut framfærslusveitarinnar álíka mikið og framfærið kostar í heimasveitinni eftir mati. Það þarf ekki endilega að taka skrefið strax út í einu, að gera alt landið að einu framfærsluhjeraði, vegna þessarar breytingar. Þó að menn álíti, að það væri markið, sem rjett er að stefna að, þá getur verið álitamál, hvort eigi að reyna að komast að því marki í einum áfanga. En það væri auðvelt að byrja með því, að skifta framfæri þeirra manna, sem dvelja utan sinnar sveitar, milli sveitanna á þennan hátt. Og fyrir ríkissjóðinn þarf ekki að óttast, að þetta verði óbærilegur baggi. Jeg veit, að sveitarstyrkur, sem árlega er lagður hjer í Reykjavík til utansveitarmanna, er ekki svo gífurleg upphæð, að það þurfi að vaxa mönnum í augum. Hinsvegar yrði ekki slept því taumhaldi á sveitarstjórnum með þessari breytingu, sem menn óttast með því að gera landið að einni framfærslusveit. Þarna myndu bæði framfærslu- og dvalarsveit saman hafa eftirlit með því, að ekki væri bruðlað fje í þurfalinga umfram það, sem nauðsynlegt væri, eða meira en með því fyrirkomulagi, sem nú er.

Jeg hafði ekki ætlað mjer að tala í þessu máli. En jeg sá ekki annað fært, af því að jeg heyrði, að ýmsir voru sammála um það, að breytingar hv. 4. þm. Reykv. (HjV) gætu ekki með nokkru móti fallið inn í frv., og gæti þess vegna ekki nokkur maður með viti greitt þeim atkv. Jeg er ráðinn í að greiða þessum till. atkv., mjer finst þær á fullu viti bygðar, þótt af samþykt þeirra leiði, að það eigi að gera frekari breytingar á frv. Þær er ofboð hægt að gera, ef menn hafa vilja á því. En menn mega ekki skjóta sjer undan að greiða atkv. með brtt. af því, að þær geti ekki fallið inn í frv. Greiði menn atkv. á móti þeim, er það af því, að menn vilja ekki breytingu og vilja ekki fallast á þá sanngirni, sem felst í þessum till.

* Ræðuhandr. óyfirlesið.