19.03.1927
Efri deild: 32. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1789 í B-deild Alþingistíðinda. (1338)

6. mál, fátækralög

Einar Jónsson:

Jeg ætla mjer ekki í þetta sinn að gera samanburð á frv. hæstv. stjórnar við hin gildandi lög um þetta efni, en mig langar til að tala ögn um breytingar þær, er háttv. Nd. hefir gert á frv. í meðförunum. Mjer virðast þær horfa beint í þá átt, að þurfalingarnir eigi að flestu leyti að ráða um sveitarmálefni hjer eftir, en sveitarstjórnir verða ómyndugar í ráðstöfunum og ákvörðun, eða svo skil jeg 36. o. fl. greinar frv. — 36. gr. segir, að ekki megi skilja hjón samvistum, nema með leyfi þeirra, og ekki taka frá þeim börn þeirra samþykkislaust. Af þessu sjá allir, að sveitarstjórnum verður oft ómögulegt að ráðstafa þessu fólki á viðunandi hátt. Svo getur staðið á, að fjölskylda verði bjargþrota í kaupstað, þar sem hún hefir dvalið skamma stund, og verði að segja sig til sveitar. Þá getur það verið ómögulegt þeim hrepp, þar sem maðurinn er sveitlægur, að taka til sín fjölskylduna í einu lagi, — en börnunum má ekkert dreifa „leyfislaust“. Af þessu getur leitt það, að hreppsfjelagið treysti sjer ekki til að flytja heim fjölskylduna, en neyðist til að greiða með henni margfalt meðlag í dvalarsveit hennar. Jeg vona, að mönnum skiljist, að þarna er verið að taka valdið af sveitarstjórnum og fá það í hendur sveitarlimunum.

Í 43. gr. frv. eru ákvæði, sem að vísu voru í stjfrv. í svipaðri mynd, er áreiðanlega verða til þess, að bráðlega verður enginn sveitarstyrkur afturkræfur. Tilfellin eru svo svipuð og munur þeirra svo lítill, að ómögulegt verður að gera upp á milli manna um það, hver eigi að halda kosningarrjetti og hver ekki, eða hvenær styrkurinn skuli afturkræfur. Það er áreiðanlegt, að með tímanum sækir í það horf, að aldrei verður hægt að heimta sveitarstyrk endurgreiddan.

Jeg finn því hjá mjer skyldu til að standa á móti breytingum hv. Nd. á frv., hvað sem því sjálfu líður að öðru leyti. Jeg hefi ekki ennþá haft tíma til að kynna mjer rækilega mismun stjfrv. og gömlu fátækralaganna, svo að jeg geti sagt með vissu, hver af hinum nýju atriðum jeg vilji samþykkja. Þetta er svo stór lagabálkur, að ekki er hlaupið að því að kynna sjer hann til nokkurrar hlítar. Jeg sæi nú ekki heldur, að neinn skaði væri skeður, þótt beðið væri með að samþykkja ný fátækralög til næsta þings.