12.05.1927
Efri deild: 72. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1828 í B-deild Alþingistíðinda. (1364)

6. mál, fátækralög

Jón Baldvinsson:

Það veitir sannarlega ekki af að gera athugasemdir við ræðu síðasta ræðumanns, þó að stutt væri. Jeg er hissa á, að hv. þm. Seyðf. (JóhJóh), gamall þingmaður og reyndur dómari, skuli standa upp og segja þá dæmalausu endileysu, sem hann ljet sjer um munn fara. Að vera að tala um mismunandi skoðanir á þjóðskipulagi í sambandi við þessa tilhögun fátækramála, nær ekki nokkurri átt. Brtt. mín á ekkert skylt við neinn byltingarhug. Það eru draumórar hv. þm. (JóhJóh), ef hann heldur, að till. standi fyrir mjer í nokkru sambandi við breytt þjóðskipulag. — Það vill líka svo vel til, að jeg hefi ekki fyrstur manna hreyft þessari till. hjer á þingi, heldur hv. þm. Borgf. (PO), samherji og skoðanabróðir hv. þm. Seyðf. Það er hann, óróaseggurinn sá og byltingamaðurinn í hv. Nd., sem fyrstur hefir hreyft þeirri till. að gera alt landið að einu framfærsluhjeraði. Þaðan er allur sá byltingarhugur runninn, sem hv. þm. Seyðf. rembist nú við að berjast á móti. Það eru ekki allir, sem fást til að trúa því, að hv. þm. Borgf. hafi gengið til löngun til þess að kollvarpa núverandi þjóðskipulagi. En nú er hv. þm. Seyðf. svo illa að sjer og fylgist svo lítið með þingsögu, að þegar hann kemur til sinna hv. kjósenda og þeir spyrja, hvað hafi gerst á þingi, þá veit hann það ekki, man það ekki. Því er engin von til, að hv. þm. viti, hvað gerist í hv. Nd., þegar hann á sæti í Ed.