30.03.1927
Neðri deild: 42. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1864 í B-deild Alþingistíðinda. (1399)

115. mál, bankavaxtabréf

Frsm. (Jón Auðunn Jónsson):

Fjhn. hefir athugað brtt. á þskj. 271, og eftir atvikum leggur hún til, að þær verði ekki samþyktar. Hinsvegar telur hún rjett að athuga, hvort ekki sje hægt á sínum tíma að veita lántakendum einhverja niðurfærslu eða ívilnun, þegar sjeð er, að ríkissjóður græði á lántökum, t. d. ef krónan hækkar. En hún vill ekki binda þetta með lögum, heldur sjá hvað setur.

Till. fer fram á 20% lækkun á ógreiddum höfuðstóli allra lána í 5.–7. flokki veðdeildarinnar og ræktunarsjóði. Það má búast við, að eftir 2–3 ár verði þessi lán orðin alt að 13 milj. kr. Ráðgert er áð taka lán erlendis, sem nemur 6 milj. gullkróna. Það eru þá um 7 milj. kr., sem færa þyrfti niður, og sú niðurfærsla nemur alt að 1 milj. og 400 þús. kr. Nú er það að athuga, að gert er ráð fyrir að lækka lánin um 20 % strax og krónan er komin upp í 95% gullgildis. Þá lækka lánin um 11/2 milj.

En nú getur svo farið, þótt krónan sje komin upp í 95 aura, að hún haldist þar aðeins um stund, og annaðhvort hrapi aftur eða verði fest í lægra gullgildi. Þá gætu lántakendur grætt, en ríkissjóður haft af þessu þungan bagga.

Þess ber og að gæta, að fleiri eru framkvæmdamenn í þessu landi en þeir, er lán taka í veðdeild. Það er líka upplýst við unrræður í öðru máli, að 90% af lánum í 5. fl. hafa gengið til húsabygginga í kaupstöðum.

Jeg held mjer sje óhætt að segja, að aðrir framkvæmdamenn en þeir hafi meiri þörf þess, að þeim sje bættur halli af væntanlegri gengishækkun. Jeg á þar við þá, sem tekið hafa hin stóru lán, til þess að halda við atvinnurekstri í landinu.

Það er ennfremur svo, að þeir, sem lán taka úr ræktunarsjóði til jarðræktar, eru ekki einustu framkvæmdamennirnir á því sviði. Margir þeirra taka lán annarsstaðar; aðrir alls ekki, þeir eru svo efnum búnir, að þeir komast af án þess.

Líka verður að gæta að því, að þeir, sem tóku lán úr 4. fl., verða enn harðar úti; þeirra lán stafa frá þeim tíma, er verðgildi krónunnar var 46–63 aurar. Væri fyllri ástæða til að ívilna þeim heldur en mönnum, sem tekið hafa lán á síðustu tímum eða munu taka á næstunni.

Jeg held enginn muni neita, að rjett sje, ef hægt er, að ljetta eitthvað undir með þeim, sem taka fasteignalán, og öðrum, ef gengið hækkar fram úr því sem nú er. En rjett er að sjá hverju fram vindur. Áreiðanlega fæst meira samræmi með því að bíða heldur en slá einhverju föstu nú.

Jeg gæti hugsað mjer, að þeir, sem annars þurfa ekki undir venjulegum kringumstæðum að taka lán, mundu nú, ef brtt. hv. þm. Str. (TrÞ) yrði samþ., hlaupa til og taka lán, því að þeir hafa ekkert að missa, en geta átt von á að græða.

Þetta, er jeg nú hefi sagt, eru athugasemdir frá sjálfum mjer, en ekki fyrir hönd nefndarinnar.