05.05.1927
Neðri deild: 67. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 2010 í B-deild Alþingistíðinda. (1546)

112. mál, Mosfellsheiðarland

Ólafur Thors:

Jeg verð að mótmæla till. hv. 4. þm. Reykv. (HjV) um að vísa þessu máli til stjórnarinnar. Jeg get ekki sjeð, að neitt skorti upplýsingar í þessu máli. Hv. þdm. hafa haft nóg tækifæri til að kynna sjer það; það hefir legið fyrir kort af landinu, sem á að selja, o. s. frv. Þegar jeg hafði flutt rök mín fyrir þessu máli, hafði jeg þá ánægju, að háttv. 2. þm. N.-M. (ÁJ) kom til mín og ljet þess getið, að sjer hefðu þótt þetta veigamikil rök, og þó hann sje nú að reyna að vera fyndinn í sambandi við þetta mál, þá má hann gjarnan fyrir mjer spreyta þann fák.

Þá sagði hv. frsm. nefndarinnar, að mjög fast hefði verið lagt að hv. þm. um fylgi við málið. Jeg fyrir mitt leyti sje ekkert athugavert við það, þó að hjeraðsmenn leyfi sjer að tala við hv. þm. og beri fram sínar óskir og skýri mál sitt með rökum. Annars virðist það svo um framkomu sumra hv. þm., að rök skifti hjer engu máli; í stað þess að rökræða þetta mál hefir verið beitt kappi. Að lokum vil jeg leyfa mjer að mótmæla því, sem hv. þm. Str. (TrÞ) sagði, að verið væri að skerða jörðina Mosfell. Að kunnugra manna sögn er hægt að bæta jörðina svo mikið fyrir andvirði hins selda lands, að hún verður betri eftir en áður. Það fer líka vel saman að endurreisa prestakallið og bæta jörðina um leið og þörfum hreppsbúa um afrjett er fullnægt. Jeg vænti, að hv. þdm. sjái, að það er að hengja bakara fyrir smið, að hefna sín á núverandi hreppsnefnd í Mosfellshreppi fyrir eitthvað, sem einhver hreppsnefnd í þessum hreppi hefir einhverntíma gert. Eftir næstu kosningar mun jeg ekki hefna mín á þm. Str. fyrir afglöp, sem núverandi háttv. þm. Str. (TrÞ) hefir gert. Jeg geri ráð fyrir, að þá verði annar maður í því sæti. Menn mega ekki láta villa sjer sýn með því, að talað er um nýbýlarækt á heiðinni. Það er reynsla fengin fyrir því, að nýbýlarækt þarna fær ekki staðist sökum frosta. Jeg orðlengi þetta ekki frekar; jeg vænti þess, að hv. þdm. láti rökin njóta sín og sanngirnina ráða í þessu máli.