06.05.1927
Neðri deild: 68. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 2023 í B-deild Alþingistíðinda. (1553)

112. mál, Mosfellsheiðarland

Magnús Torfason:

* Jeg ætlaði mjer að láta nægja það, sem jeg sagði í gær, en hv. flm. og 2. þm. G.-K (ÓTh) hefir gert það að verkum, að jeg kemst ekki hjá að segja nokkur orð.

Háttv. flm. (ÓTh) vildi halda því fram, að hjer væri ekki nema um heiðarland að ræða. En nú er það upplýst, að þar er um 2000 hesta slægja, og má því frekar heita graslendi en heiði. Þegar þess er gætt, að í landinu eru fólgin mikil verðmæti, og hinsvegar hafður í huga væntanlegur vegur, sem mundi auka þessi verðmæti að miklum mun, þá er auðsætt, að hjer er um að ræða framtíðarland til ræktunar. Og sú upplýsing, sem háttv. flm. gaf í gær, að hreppsnefndin heimtaði landið til kaups, vegna þess að einn góðborgari þessa lands ætlaði að fá landið á leigu til girðingar, sýnir einmitt, að það er arðvænlegt og eftirsóknarvert og er að stíga í verði. Hjer á að fremja samskonar sölu og þegar bestu býli eru seld fyrir 4 þús. kr. og fást til kaups fyrir tífalt hærra verð 2–3 árum seinna. Af því að jeg er ekki þingmaður „Moskowíta“, verð jeg að líta svo á, að skylda mín sje að hugsa meira um hag landsins í heild en eins einstaks hrepps. Einmitt þetta, að hugsað er til girðingar um landið, er fyrsta sporið til ræktunar og sömuleiðis er það spor í þá átt að ætla landið til kúabeitar. Við þetta hvort tveggja verður landið bætt. Kúabeit bætir hvert land, en sauðfjárbeit skemmir. Verkin sýna merkin. Það vita allir, að vort fagra land, sem alt var skógi vaxið, er nú orðið að beru holti, auðvitað af ránbeitinni. Mjer finst líklegt, að einmitt þetta, ef landið verður girt, verði til þess að styðja jarðræktina, sem þegar er hafin í Mosfellssveit. Og jeg segi fyrir mig, að jeg vil ekki, að þingið fari að hlaupa í köpp við þann góða og gamla mann, sem tilnefndur er sem forgöngumaður þessa, Thor Jensen, sem jeg minnist ætíð með mikilli virðingu. Á hann annað betra skilið af þeim, sem nú sitja á þingi. Hann átti manna bestan þátt í því, að ræktunarsjóðurinn komst í það horf, sem nú er, og hefir fyrstur útgerðarmanna sýnt, að hann vill verja gróða sínum, sem fæst með rányrkju á sjó, til ræktunar á landi. Jeg verð að játa, að hv. flm. hefir sýnt sjerstaka ósjerplægni með framkomu sinni í þessu máli, að hann skuli rísa þannig gegn föður sínum, eins og gerðu synir Þorgeirs Ljósvetningagoða forðum.

Það hefir verið sýnt fram á, að þetta land getur haft mikið framtíðarverðgildi, og því er ekki nema eðlilegt, að sveitarstjórnina muni í bitann og vilji gleypa hann áður en hann kemst í verð. Jeg ætla ekki að lá henni það. Frá hennar sjónarmiði er ekkert við það að athuga, að hún leggi kapp á að ná tökum á þessum skika. Hreppsnefndir eru jafnan eigingjarnar og verða líka að vera það. — Þótt lagt hafi verið mikið upp úr því, að þörf væri á að afgera söluna á þessu landi nú á þessu þingi, þá dylst mjer sú þörf. Hvorki skilst mjer, að slík þörf geti átt sjer stað, nje heldur hefi jeg heyrt fram færða eina einustu ástæðu fyrir þessari þörf. Það eina, sem þörf væri á að gera, væri það, að skora á hæstv. atvrh. að sjá um, að kauprjettur Mosfellshrepps yrði ekki fyrir borð borinn til næsta þings og málið rannsakað betur en gert er þangað til. Lengra er ekki þörf að fara að sinni, og kæmi fram rökstudd dagskrá, sem færi í þessa átt, mundi jeg fyrir mitt leyti styðja hana. Það er ekki meining mín að vera á móti hreppsnefnd Mosfellssveitar, ef hún virkilega þarf landsins með, en ef hún þarf þess ekki, þá tel jeg það eins vel komið í eign ríkisins.

Sú ástæða hefir m. a. verið borin fram, að ábúandi ætli að leigja landið. Það getur hann ekki gert eftir ábúðarlögunum, því í þeim er framleiga bönnuð. Það yrði þá að vera eftir einhverjum sjerstökum samningum. Þeir, sem halda slíku fram, verða a. m. k. að sýna einhver skilríki fyrir því, að ábúandi hafi heimild til að leigja jörðina. Þar sem nú er í ráði að gera þessa jörð að prestssetri, nær ekki nokkurri átt, að leigja megi landið, og það væri rjett að skora á hæstv. ráðh. að setja það að skilyrði fyrir veitingu brauðsins, að ríkið hafi full umráð yfir þessari landspildu. Jeg skal geta þess út af misskilningi, sem hjer hefir komið fram, að við þm. Árnesinga erum ekki á móti þessu máli vegna hagsmuna Árnesinga. Þvert á móti. Árnessýslu væri heldur bagi að því, að landið væri girt. Það er svo nú, að Mosfellshreppur notar 4 afrjetti í Árnessýslu. Þangað gengur alt fje Mosfellinga óhindrað. Svo koma þeir þangað á slættinum og hrifsa fje til slátrunar og reka þá kannske stundum fje Árnesinga með. Það merkilega er, að þegar farið er um þessi lönd neðarlega, sjest varla kind, en þegar kemur upp í Árnessýslu, er kind á hverri þúfu.

Mjer heyrðist það á hv. flm. (ÓTh) að hann vilja halda því fram, að jeg gerði lítið úr prestsefni Mosfellinga. Jeg neita því. Jeg sagði bara, að maðurinn væri á biðilsbuxum, og þegar menn eru á þeim buxunum, kærðu þeir sig ekki um að vera að stríða þeim, sem þeir væru að biðla til. Jeg vænti þess, að hv. flm. hafi ekki farið svo að á sinni tíð. Hv. flm. gaf í skyn, að dómsmálaráðherra ætti að sjá um, að maður með slíkum hugsunarhætti sem jeg sæti ekki framar í dómarasæti. (ÓTh: Jeg talaði um framboð). Jæja, kannske hv. flm. hafi yfir einhverju að kvarta í þessu efni, að jeg hafi sem dómari gert eitthvað, sem kemur í bága við þingmannsstörfin ?

Hv. þm. Mýr. (PÞ) talaði fagurlega og vildi, að hagsmunirnir lentu fremur hjá sveitinni en prestinum. Jeg er því samþykkur. En hjer er ekki verið að tala um hagsmuni sveitar og prests, heldur sveitar og lands. Eins og menn vita, eru prestaköllin metin upp eftir vissa áratölu, og ef þau hækka í verði, nýtur ríkið þess, en ekki presturinn. Þetta er því alveg öfugt hjá hv. þm. Mýr.

Jeg legg það ekki í vana minn að hnippast við einstaka þingmenn, en jeg vil gefa hv. flm. (ÓTh) gott ráð: Hann ætti að nota sumarfrí sitt til þess að fara til ....