17.05.1927
Neðri deild: 77. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 2094 í B-deild Alþingistíðinda. (1624)

3. mál, gjald af innlendum tollvörutegundum

Frsm. (Jón Auðunn Jónsson):

Mjer var aðeins falið að skila því frá fjhn., að hún geti sætt sig við þær breytingar, sem hv. Ed. hefir gert á frv., og að nefndin leggur það til, að frv. verði samþ. óbreytt eins og það nú er. Það hefir í hv. Ed. verið bætt inn í frv. einni grein, er fer í þá átt að heimila ríkisstjórninni að ívilna innlendum fyrirtækjum, sem nú eru starfandi í landinu, næstu ár, eða til 1935. Mönnum þykir kannske varhugaverð þessi ívilnun, af því að hún geti útilokað, að ný fyrirtæki af sama tægi komist á stofn. En nefndin álítur ekki heppilegt, að þessum iðnfyrirtækjum fjölgi, því að markaðurinn er lítill og varan mundi ekki verða ódýrari, þó að fleiri væru um framleiðsluna hjer innanlands. Meiri líkur væru til, að verðið hækkaði. Það kostar nokkurt fje að koma þessum iðnrekstri á stofn, en afraksturinn lítill. Mjer er kunnugt um, að framleiðslufyrirtækin í þessari grein, sem fyrst voru stofnuð hjer, eru illa stödd og yrðu ef til vill að hætta, ef þau fengju ekki þá tilhliðrun, sem hjer er um að ræða.