15.02.1927
Neðri deild: 6. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 2100 í B-deild Alþingistíðinda. (1631)

24. mál, afnám kennarastóls í klassískum fræðum

Magnús Jónsson:

Það kemur mjer kynlega fyrir sjónir, að hv. flm. skuli vilja vísa þessu máli til allshn., en ekki til mentmn., þar sem það að sjálfsögðu á heima. Jeg skal ekkert um segja, hvort það hefir verið í allshn. áður, en mjer finst alveg augljóst, að það tilheyri mentmn. Það gæti komið til mála, að það færi í allshn., ef frv. fjallaði um að leggja þetta og svo og svo mörg fleiri embætti niður, án tillits til, hverskonar embætti það væru. En þegar um er að ræða eitt af kennaraembættunum. við háskólann, hlýtur það að heyra undir mentmn.

Af því að jeg á sæti í mentmn., hafði jeg ekki hugsað mjer að segja neitt um þetta mál hjer, en þar sem jeg á það á hættu, að málið komi alls ekki í þá nefnd, vil jeg skjóta því til allshn., hvort ætlunin er sú, að leggja alveg niður grískukensluna. Það er mjer aðalatriðið, þar sem jeg tel hana alveg ómissandi í guðfræðideild háskólans. Síðan Bjarni Jónsson frá Vogi ljest, hefir þessu embætti verið gegnt af manni, sem fenginn hefir verið til kenslunnar fyrir ákveðna þóknun. Jeg get ekki trúað því, að hv. flm. ætli að fella niður grískukensluna með öllu — en að segja, að kenslan megi ekkert kosta, er það sama og að fella hana niður. Jeg kem ekki auga á þann möguleika, að hægt verði að fá mann fyrir ekkert. Vil jeg svo leggja til, að málinu verði vísað til mentmn.