15.02.1927
Neðri deild: 6. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 2106 í B-deild Alþingistíðinda. (1635)

24. mál, afnám kennarastóls í klassískum fræðum

Flm. (Tryggvi Þórhallsson):

Háttv. 1. þm. Reykv. varð allrómsterkur og kvað fast að orði á móti frv. mínu. Satt sagt bjóst jeg ekki við slíkum hávaða við 1. umr. Hann taldi það undarlegan búhnykk hjá mjer að vilja leggja þetta embætti niður nú, en vilja svo kosta mann erlendis eftir nokkur ár til þess að nema þessi mál. En var ekki dæmið, sem jeg nefndi, rjett? Var ekki kostaður maður erlendis til þess að nema gömlu málin, einmitt meðan í þessu embætti var setið?

Þá kvað þessi háttv. þm. fast að orði um, að frv. þetta miðaði að því að gera háskólann ómerkilegri en hann er nú. Þetta er í fylsta máta ósanngjörn staðhæfing, og jeg tel mjög ófjettnátt að slá því altaf fram, í hvert skifti sem verið er á móti stofnun nýs embættis við hann, þá sje það af því, að maður vilji skóinn niður af háskólanum. Jeg fyrir mitt leyti lít svo á, að við í þessu efni sem öðru verðum að sníða okkur stakk eftir vexti. Við verðum fyrst að athuga, hvað fjárhagurinn leyfir okkur að búa stórt, hvort heldur er með sendimenn í öðrum ríkjum eða gagnvart þessari stofnun. En að ofhlaða á okkur starfsmönnum, svo að við verðum að gefast upp, það nær vitanlega engri átt.