07.03.1927
Neðri deild: 23. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 2110 í B-deild Alþingistíðinda. (1640)

24. mál, afnám kennarastóls í klassískum fræðum

Atv.- og dómsmrh. (Magnús Guðmundsson):

Jeg stend ekki upp til þess að andmæla þessu frv. En jeg vildi geta þess, að þegar til þess kom í haust að ráðstafa þessari kenslu í klassiskum fræðum, þá var maður ráðinn til þess að gegna embættinu þetta ár fyrir 2000 kr., svo reikna verður með þessari upphæð líka, þegar verið er að ræða um, hvað mikið sparist.

Hvað það snertir, að heimspekideildin óski að fá sendikennara og hafi tekið tilboði um það frá Vesturheimi, þá er mjer ekki kunnugt um það. Stjórnin vissi að vísu um tilboðið, en hún sá sjer ekki fært að taka upp í fjárlög styrk til þess að kosta dvöl hans hjer, enda er henni ókunnugt um, að það sje afráðið, að maðurinn komi. En þó að þessi vísindamaður komi í sumar, þá segir sig sjálft, að ekki er hægt að greiða dvöl hans hjer með styrk, sem veitast á árið 1928, eftir því sem mjer skildist, að háttv. frsm. (JG) ætti við.

Jeg vildi í sambandi við þetta mál minna á, að það er annað embætti, sem losnaði síðastliðið sumar og enn er óráðstafað: fræðslumálastjóraembættið.

Í þáltill. hv. þm. Str. (TrÞ), sem fram kom hjer í þessari háttv. deild 1924, voru talin upp nokkur embætti og mælst til, að ef þau losnuðu, yrði ekki í þau skipað nema Alþingi fengi áður að segja þar um álit sitt. Í till. eins og hún var upphaflega orðuð var fræðslumálastjóraembættið eitt af þeim, sem þar var nefnt, en breyttist svo í meðferð hv. deildar, að það var felt úr þál. eins og hún var samþykt, en í þess stað sett „clausula generalis“ um öll embætti og sýslanir, sem losnuðu og stjórnin teldi unt að sameina öðru starfi eða leggja niður.

En þrátt fyrir það fanst nefndinni rjett að láta Alþingi segja álit sitt um það, hvort embætti þetta skuli lagt niður eða ekki, og hefir þar af leiðandi sett mann til þess að gegna því þangað til öðruvísi verður ákveðið.

Hinsvegar lítur stjórnin svo á, að ekki muni gerlegt að afnema embættið, og mun því engar till. um það flytja. En óski meiri hl. Alþingis að leggja embættið niður, þá mun stjórnin beygja sig.

Sem sagt, stjórnin vildi geyma Alþingi rjettinn til þess að segja álit sitt um embætti þetta, og verði engin till. samþ. um að afnema það, verður það auglýst laust að loknu þingi.