12.02.1927
Efri deild: 4. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 2155 í B-deild Alþingistíðinda. (1706)

18. mál, laun skipherra og skipverja á varðeimskipum ríkisins

Forsrh. og fjrh. (Jón Þorláksson):

Þar sem útgerð varðskipa á kostnað ríkissjóðs er nú hafin og komin í fast horf, verður að taka ákvörðun um, með hvaða kjörum skipstjórnarmenn og skipverjar skulu ráðnir. Stjórninni hefir sýnst, að um tvent gæti verið að ræða, annaðhvort að ráða mennina með svipuðum hætti og tíðkast um ráðningu skipverja á þau fartæki hjer við land, sem helst má telja hliðstæð, þ. e. verslunarskipin, eða þá að taka upp þá reglu, sem ríkið fylgir á öðrum sviðum, þegar um fasta starfsmenn er að ræða, að ákveða laun þeirra með lögum. Stjórninni hefir sýnst síðara ráðið aðgengilegra, bæði vegna þess, að það losar hana við að taka þátt í deilum um kaupsamninga, og svo er það líka sannfæring mín, að með því fyrirkomulagi á kaupgreiðslu verði rekstur skipanna ódýrari fyrir ríkissjóð en ella. Má vísa til reynslunnar, þar sem eru launalögin frá 1919. Það blandast víst engum hugur um, að á því hefir sparast stórfje að þurfa ekki sífelt að taka upp samninga um laun milli stjórnarinnar og starfsmanna ríkisins á því tímabili, sem liðið er síðan þau lög voru sett.

Frá almennu sjónarmiði þarf jeg svo ekki fleira um þetta mál að segja. Væntanleg nefnd mun athuga einstök launaákvæði, og gefst þá tilefni að ræða þau við 2. umr.