04.04.1927
Efri deild: 44. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 2316 í B-deild Alþingistíðinda. (1788)

19. mál, varðskip ríkisins

Jónas Jónsson:

Að jeg hefi ekki fyr tekið til máls um frv. þetta, kemur til af því, að jeg lýsti skoðun minni á þessu máli, er systurfrv. þessa frv. var á ferðinni hjer í þessari hv. deild fyrir skömmu.

Með þessu frv. er verið að stofna um 40–50 föst embætti, verið að þjóðnýta embætti landsins með því að stofna til ríkisrekstrar á starfsmönnum með æfilöngum samningi. Í frv. þessu er ein gr. — 2. gr. —, sem jeg tel ástæðu til að koma fram með mótmæli gegn. Jeg álít, að rjett væri og gleggra að taka það skýrt fram, að skipstjórar og stýrimenn á þessum skipum væru yfirmenn löggæslunnar í landhelgi. Það er í raun og veru það eina, sem þurfti að segja um valdsvið þeirra. Það er vitanlegt, að varðskipið Þór hefir tekið marga togara, bæði erlenda og innlenda, án þess að hann hefði nokkurt lögregluvald.

Jeg er jafn ósammála hv. 5. landsk. (JBald) og hv. þm. Vestm. (JJós) um launakjör skipverjanna. Háttv. 5. landsk. var óánægður með það, að launin væru alt of lág, en hv. þm. Vestm. taldi þau a. m. k. nógu há. Jeg býst við, að sannleikurinn sje sá, að launin verði alt of há, þegar til lengdar lætur. Alt ástandið hjer á landi sýnist benda til þess, að alt kaupgjald muni hrapa niður. Þá hefir hv. þm. Vestm. gert skaða gagnvart framtíðinni með því að binda þetta í launalögum, því að þegar einu sinni er búið að ákveða launin, þykir altaf harðræði að lækka þau. Má í því sambandi minna á aðstoðarlækninn á Ísafirði. Altaf hefir verið sótt fastara að hækka hans laun en lækka, þótt störfin sjeu ekki mikil. — Annars hefi jeg áður sýnt, að mikið af þessum launum er hægt að spara með öðru og heppilegra skipulagi. Þótt ekki væri nema sú eina ástæða færð gegn því að festa launin, held jeg að það væri varhugavert og færi í ranga átt. (Atvrh. MG: Hjer er ekki verið að tala um launin). Nei, að vísu ekki, en þetta frv. gerir skipverja að föstum starfsmönnum hjá ríkinu og er aðeins einn liður af sömu keðju og hitt frv.

Annars vildi jeg segja fáein orð út af þeirri hlið málsins, sem veit að löggæslunni. Jeg hefi áður leitt rök að því, að þetta frv. er til skaða, vegna þess að öll ástæða er til að óttast, að með tímanum sýni skipverjar minni árvekni, þegar þeir eru allir orðnir fastir starfsmenn. Annars hefðu þeir, sem eru í lægri stöðum, von um að hækka nokkuð fljótt, með því að sýna dugnað og trúmensku í starfi sínu, en þeir, sem ljelegri væru, mættu þá vita, að ekki þyrfti nema nokkurn veginn almenna vitneskju um, að þeir ræktu starf sitt linlega, til þess að þeir væru látnir fara. En við fasta embættismenn er ekki hægt að losna, nema á þá sannist mikil vanræksla. — Með lögum þurfti ekki annað að gera en að gefa yfirmönnum skipanna þá aðstöðu, að þeir gætu komið fram með fullu valdi og myndugleik gagnvart sökudólgum. En til þess sýnist ekki þurfa að binda þá við landið með æfilöngum samningi. — Þótt jeg líti ekki svo mjög á hina líðandi stund í þessu máli nje hina ungu reynslu, heldur geri mjer far um að horfa á málið frá miklu almennara sjónarmiði, sem veit að þeim tíma, sem fram undan er, vil jeg þó benda á, að fram hafa komið mjög alvarlegar kvartanir undan gæslunni á undanförnum árum, svo alvarlegar, að þær ættu að vera til aðvörunar gegn því að rasa fyrir ráð fram í þessu máli. — Jeg vil heyra skýringar hæstv. atvrh. og hv. þm. Vestm. á því, hvernig staðið getur á, að til er framburður frá 4 þm., alt stuðningsmönnum hæstv. stjórnar — (JJós: Kemur þetta nú einu sinni enn!). Já, það kemur einu sinni enn, því að þetta er merkilegur vitnisburður, þótt hann sje frá Íhaldsmönnum; máske er hann það merkilegasta, sem sumir þeirra hafa látið eftir sig á þingi. — Vitnisburður þessara manna er sá, að íslensku togararnir sjeu verstir af öllum með að vera í landhelgi, en þó eru þeir sárasjaldan teknir. Mig langar til að heyra skoðun hv. þm. Vestm. á þessu máli. Ef það hefir verið rjett, sem sagt var á þingi 1924, að íslenskir togarar reyndu mest á þolrifin í Barðstrendingum og Borgfirðingum, og einnig hitt, sem sagt hefir verið á þessu þingi, að tugir af íslenskum togurum hafi verið uppi í landsteinum við Snæfellsnes, og ef þar við bætist, að það hafi verið rjett, sem sagt var fyrir fám þingum af þáv. hv. 1. þm. G.-K. (Ág. Flygenring), að útgerðarmenn settu beinlínis dýr áhöld í skip sín til þess að geta verið rólegri í landhelginni, — þá stendur það eins og stafur á bók, að fulltrúar fyrir allar þær sýslur, sem mest koma í snerting við lögbrjótana, hafa kvartað, að fulltrúa Vestm. einum undanteknum. Þeir hafa allir borið íslenskum togurum herfilega söguna, En hversu oft hafa þeir verið teknir af varðskipunum? Svo framarlega sem ekki hefir verið unt að finna íslensku skipin, þótt þau væru í landhelgi, verður að ganga svo frá, að það breytist. Skipstjórar varðskipanna verða að hafa stöðuga gát á þessum íslensku lögbrjótum. En haldi landhelgisbrotin samt áfram, er það ljóst, að eitthvað er í ólestri. — Þó ætti enn að vera nýjabrumið á rekstri þessara skipa; það eru alt ungir menn, sem stjórna þeim. Ef þeir eru nú þegar orðnir daufir og skeytingarlausir, hvað mun þá verða, þegar gamlir og værukærir menn eru komnir yfir strandgæsluna? — Jeg vil undirstrika, að það, sem hjer er verið að gera, er það versta, sem gert verður fyrir landhelgisgæsluna. Það er verið að undirbúa embættissvefninn þar sem annarsstaðar.

Jeg verð að segja, að fyr á árum, þegar Framsókn og Sjálfstæðismenn börðust gegn andstæðingum strandgæslunnar til að fá styrk handa Þór, þá hefði það þótt ósennileg spásögn, að Vestmannaeyjar mundu senda á Alþing fulltrúa, sem yrði bandamaður þeirra, er fremstir voru að níða Þór og viðleitni Vestmannaeyinga, og að sjálfur fulltrúi þeirra yrði potturinn og pannan í því að undirbúa embættissvefninn á varðskipunum. En þetta skipulag tryggir áreiðanlega nægilega mikla værð á skipunum, þegar fram líða stundir.

Jeg vil benda á, hvað það sýnist vera gagnslítið fyrir rjettan gang þessara mála, þótt einn og einn íhaldsmaður sje þannig settur, að hann komist ekki hjá því að sjá misfellurnar á landhelgisgæslunni. Því að eftir þeirri ræðu, sem hv. þm. Snæf. (HSteins) hjelt hjer í hv. deild, gat rökrjett afstaða hans ekki orðið önnur en sú, að hann greiddi atkv. á móti frv. Jeg býst við, að ekki þurfi að draga í efa, að hv. þm. hafi sjeð hina einu hugsanarjettu afleiðingu af sinni ræðu, — en hann vissi að frv. mundi falla, ef hann greiddi atkv. á móti því. Þess vegna hefir hæstv. stjórn áreiðanlega lagt kapp á að fá hann til fylgis við frv. Aðeins þetta atvik — að einn stuðningsmaður hæstv. stjórnar ber svo þungar ásakanir á landhelgisgæsluna, en greiðir þó atkv. með frv., — sýnir, hvílíkt ofurkapp er á frv. lagt af hæstvirtri stjórn. En það eru hinir gömlu andstæðingar Þórs, sem nú fylgja hæstv. stjórn. Það voru nánustu pólitískir vinir hæstv. forsrh. (JÞ), sem lögðu fyrsta vísinum til innlendrar landhelgisgæslu verst til. Þá var álitið, að þetta stæði í sambandi við, að eigendur íslenskra togara væru svo mikils ráðandi í flokknum. — Af því að báðir hæstv. ráðh. eru nú inni í hv. deild, vil jeg biðja þá skýringar á, hvernig á því stendur, að svo margir núverandi íhaldsmenn voru í fyrstu á móti innlendri landhelgisgæslu. E. t. v. hafa þeir verið hafðir fyrir rangri sök, en ef svo er ekki, mætti álíta, að þeir hefðu ennþá ekki skift um skoðun og mundu lítt harma, þótt deyfð væri í strandgæslunni. Það væri líka gaman að heyra, hvort skoðun Ágústs Flygenrings hefir verið rjett, að með loftskeytum væri togaraflotanum stjórnað í landhelginni. Væri fróðlegt að heyra, hvort nokkuð hefir verið gert til þess að hindra slíka misnotkun loftskeytanna. En ef sá vitnisburður er ekki rjettur, vil jeg vita, hví íslenskir togarar eru svo að segja aldrei teknir, þótt samhljóða vitnisburður 4 íhaldsþingmanna sje fyrir því, að þeir sjeu verstir allra.