04.04.1927
Efri deild: 44. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 2348 í B-deild Alþingistíðinda. (1796)

19. mál, varðskip ríkisins

Jón Baldvinsson:

Hæstv. atvrh. (MG) hefir ekki komið með neina skýringu á því, hvers vegna þeim mönnum, sem þetta frv. ræðir um, eru meinuð þau rjettindi, sem stjettarbræður þeirra fá eftir siglingalögunum, og það hafa engar brtt. verið bornar fram af nefndinni, sem tryggi þessa menn að neinu leyti, og lögin eru sett svo einhliða, að það eru skipherrarnir, sem ráða öllu gagnvart þeim, en þeir hafa hæst laun og eiga svo að sjá um allar framkvæmdir laganna gagnvart þeim, sem lægra eru settir. Það er eins og þeim sje þá betur treyst til þess að ganga á rjett hinna. Þetta er það, sem felst í frv., en það, sem hæstv. forsrh. hafði að segja, var aðeins það, að þeir væru gerðir að lögreglumönnum til þess að geta framkvæmt starf sitt. En til þess þarf ekki annað en að taka tvo eða þrjá yfirmenn skipanna og gera þá að lögreglumönnum, svo að alt þetta umstang til þess að togararnir hlýði þeim betur er blátt áfram hlægilegt. En þetta er í rauninni ekki nema eðlilegt, því að málið er illa undirbúið og mjög óljóst, hvort sem það er viljandi eða óviljandi. Auk þess er öllu orðalagi frv. hagað þannig, að stjórn og valdsmönnum á skipinu er gefið miklu meira vald yfir mönnunum heldur en á að vera. Hv. frsm. var ekki spar á að lýsa því, að það ætti að vera strangur agi á skipunum, og jeg get ekki betur sjeð en að undirmennirnir eigi hreint og beint að vera þrælar, og eru þeir að því leyti ver settir en aðrir stjettarbræður þeirra, að þeir eru algerlega gefnir undir vald yfirmannanna og geta ekkert annað flúið, eins og aðrir opinberir sýslunarmenn, t. d. póstþjónar og símamenn, því að þeir geta þó flúið til rjettvísinnar. Það er skiljanlegt, að hæstv. stjórn og flokksmenn hennar vilji ekki ræða þetta frv. á þeim grundvelli, því að það er auðsjáanlega gert með vilja að taka af þeim rjettinn, t. d. til þess að gera samtök með sjer, sem allar þjóðir þó leyfa, nema einveldisherrarnir á Spáni og Ítalíu og íslensku íhaldsmennirnir. En með því að jeg hefi ekki nema stutta athugasemd, verð jeg að fara fljótt yfir.

Hv. 2. þm. Rang. (EJ) vil jeg segja það, þótt hann sje góður og gegn maður, að jeg mundi taka því miklu betur af flestum öðrum en honum, að vilja gerast siðameistari í þessari hv. deild, og hafi hv. þm. þótt ræður mínar um þetta mál óljósar, þá verð jeg að svara honum því sama um hans ræðu, því að jeg veit satt að segja ekki, hvernig á að fá meiningu hv. þm. út úr henni.

Hv. þm. sagði, að það þýddi ekkert að vera að mæla á móti frv., því að það yrði samþ., og að það yrði til bóta, ef það færi í rjetta átt. (EJ: Það var þó stutt og laggott). Já, jeg veit, að það verður samþykt, því að það er búið að búa svo um, að það fer í gegnum þessa deild; en jeg dreg í efa, að það fari í rjetta átt. Hv. þm. var að benda okkur hv. 1. landsk. á tvo virðulega menn í þessari deild og ráðleggja okkur að fara að þeirra dæmi með að vera fáorðir og gagnorðir, en jeg verð að segja það, að ef jeg á að taka upp þann sið að fara að dæmi hv. 2. þm. Rang., þá var hann að vísu fáorður, en ekki að sama skapi gagnorður, svo að það verður ekki ákaflega lærdómsríkt að fara að hans dæmi. En það er nú svo um hv. 2. þm. Rang. og suma aðra hjér, sem ekki vilja hlusta á neina athugun á málum hæstv. stjórnar, að það er ekki nema eðlilegt, að þeir reyni að klóra í bakkann og segja mál stjórnarinnar betri en þau eru; en það eru engin rök. Það kom ekkert nýtt fram í ræðu hv. 2. þm. Rang., sem snerti málið í sjálfu sjer, og ekkert annað en ávítur til þeirra manna, sem talað hafa á móti því, og jeg sem sagt tek mjer það ekki til eftirbreytni, þótt hv. þm. vilji siða mig, og jeg álít mig hafa fullan rjett til að finna að hverju máli, sem mjer finst að ver fari hjer í deildinni, svo lengi sem forseti ekki tekur af mjer orðið, hvað sem hv. 2. þm. Rang. segir um það.