16.02.1927
Neðri deild: 7. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 2469 í B-deild Alþingistíðinda. (1852)

23. mál, járnbrautarlagning og virkjun Urriðafoss

Klemens Jónsson:

Jeg bjóst altaf við því, að hv. 1. þm. Reykv. mundi hefja mótstöðu gegn þessu máli, en jeg verð að segja, að eftir það, sem gerðist hjer á þinginu í fyrra, bjóst jeg ekki við, að sú mótstaða yrði eins hörð og ákveðin og raun varð á. Hv. þm. gat um, að sjerleyfisveitinguna í fyrra hefði mátt skoða sem byrjunartilraun, og að tíminn, sem síðan er liðinn, hefði sýnt lítilfjörlegan árangur. Það er nú ekki liðið heilt ár ennþá, svo að jeg held, að fullsnemt sje að dæma um árangurinn. Þá vildi hv. þm. halda því fram, að það væri rangt hjá mjer, að aðstæður væru breyttar og mótstaða gegn málinu horfin. En af afgreiðslu sjerleyfismálsins í fyrra er ekki hægt að leiða annað en að þingið álíti, að undir vissum skilyrðum beri að styðja slíka starfsemi. Það er ákaflega ósanngjarnt að veita í fyrra sjerleyfi fjelagi, sem enginn þekkir, en neita svo rjett á eftir þessu fjelagi um samskonar sjerleyfi, þegar vitanlegt er, að það er búið að undirbúa málið og vinna að því í fjölda mörg ár og leggja auk þess í það stórfje. Hv. þm. talaði um, að það rigndi sjerleyfisbeiðnum eins og skæðadrífu yfir þingið. Jeg er alveg hissa á hv. þm. Jeg býst ekki við, að hann viti um neina sjerleyfisbeiðni nema þessa einu, sem allir vissu, að mundi koma. Þetta er bara slagorð, sem ekkert mark er á takandi. Þá er það heldur ekki rjettmætt hjá hv. 1. þm. Reykv., þegar hann gefur í skyn, að hjer sje verið að flana út í einhverja vitleysu að lítt rannsökuðu máli. Hafi nokkurt mál verið vel og rækilega undirbúið, þá er það þetta, og jeg efast um, að nokkurt mál, sem komið hefir fyrir Alþingi í seinni tíð, hafi verið eins vel undirbúið og þetta mál.

Að beiðni fjelagsins Titans laut aðallega að virkjun en ekki járnbrautarleyfi, er af skiljanlegum ástæðum. Stjórn Titans vissi strax, að landsstjórnin myndi gera járnbrautarbygginguna að skilyrði, og af almennum hyggindum fór hún því ekki að bjóða fram hlunnindi, sem vitanlegt var, að yrði krafist af hinum aðiljanum. Jeg veit, að hv. 1. þm. Reykv. er svo hygginn maður, að hann skilur þetta.

Þá fór hann ekki rjett með, að hvergi væri tekið fram, hvað fjelagið ætlaði að starfa. Jeg tók strax fram, að það stæði skýrt og skorinort í 12. gr. beiðninnar. En af þeim ástæðum, sem jeg gat um þá, vildi jeg ekki lesa greinina upp, en að sjálfsögðu skal jeg lána honum eitt eintak af beiðninni strax á eftir, svo að hann sjái, hvað fjelagið ætlar að starfa.

Þá kvartaði hann yfir því, að engin áætlun væri til um þetta fyrirtæki, hvernig það myndi bera sig o. fl., og beindi til nefndarinnar að athuga þetta. Eins og jeg gat um í fyrstu ræðu minni, var aðaláætlunin gerð 1914, en vitanlega hafa verið gerðar áætlanir síðan, því í stjórn fjelagsins eru engin börn, alt ráðnir og rosknir menn, vanir „forretningsmenn“, sem hafa haft margskonar störf á hendi. Hvað áætlanir þessar snertir, þá koma þær að sjálfsögðu aðallega fjelaginu við, en ekki þinginu. Því heykist fjelagið á framkvæmdunum, er það enginn skaði fyrir landið. Annars býst jeg við, að nefndin þurfi ekki annað til að fá áætlanir en snúa sjer til hv. 1. þm. Reykv., sem þykist vita alt um þessi efni. Að minsta kosti mun jeg styðja það, lendi málið í þeirri nefnd, sem jeg á sæti í. Og vænti jeg fastlega, að hann verði þá fús að miðla okkur af viskubrunni sínum.

Það var eitt atriði í ræðu þessa hv. þm., sem telja má aðalatriði, því á því hefir bygst öll aðalmótstaða gegn málinu til þessa. Það voru útlendu áhrifin, sem flestir hræðast. Um þau verður hver að hafa sína skoðun. Jeg fyrir mitt leyti er ekkert smeykur um, að það hefði áhrif á tungu vora, jafnvel þó að nokkur hundruð verkamanna flyttust inn í landið. En hjer er gert ráð fyrir 600 verkamönnum í alt, og af þeim verða a. m. k. 2/3 innlendir. Verður því um ein 200 að ræða. Það má vel vera, að þeir geri þá í Flóanum og Holtunum eitthvað blendna í trúnni. En varla trúi jeg því, að áhrifanna gæti norður í Vestur-Húnavatnssýslu eða í öðrum fjarliggjandi sýslum. Nei, þetta er bara gömul grýla, sem verið er að vekja upp til þess að reyna að hræða fólkið með. Því að það er engin ný bóla hjer, að fólk sje hrætt við erlent fje og erlend áhrif. Og minnist jeg í því sambandi, hversu mjög gamli landshöfðinginn var lofaður 1902, þegar rætt var um stofnun Íslandsbanka, fyrir þessi orð: „Jeg hræðist svo mjög erlent fje“. Ef hans ráðum hefði verið hlýtt þá, hefði Íslandsbanki aldrei orðið til. En hvernig ætli þá væri umhorfs hjer nú? Því getur hver svarað fyrir sig. Hefi jeg svo ekki fleiru að svara háttv. 1. þm. Reykv.

Hv. þm. V.-Húnv. hefi jeg litlu að svara. Honum fanst eðlilegast, að landið legði ekkert fje fram til járnbrautarinnar. En jeg tel það tæplega sanngjarnt og ekki hyggilegt frá okkar hálfu. Því kosti fjelagið brautina að öllu leyti sjálft, hefir það vitanlega öll ráð yfir henni, og má þá búast við, að hún verði meira rekin með hag fjelagsins fyrir augum en landsmanna. Annars er slíkt fyrirtæki sem járnbraut betur komið í höndum landsins en einstakra manna.

Þá fór hann mörgum orðum um, hve mikið mætti gera fyrir 2 milj. Slíka útreikninga gera menn sjer oft til gamans, og er venjulegast lítið á þeim að græða. Vitanlega tekur nefnd sú, sem fær málið til meðferðar, til athugunar, hvort hægt verði að fá fjelagið til þess að leggja fram alt fjeð til járnbrautarinnar, þó jeg fyrir mitt leyti telji þýðingarlítið að fara fram á slíkt.