17.03.1927
Neðri deild: 32. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 2544 í B-deild Alþingistíðinda. (1876)

23. mál, járnbrautarlagning og virkjun Urriðafoss

Jakob MöIIer: Það hefir verið fundið að því við mig, að jeg hafi ekki haldið mjer við þingsköpin í þessu máli. Jeg ætla að vísa þeim hnútum heim aftur til föðurhúsanna. En ekki er það að halda sjer við þau, að blanda einstökum mönnum inn í umr. Háttv. frsm. og hæstv. atvrh. álösuðu mjer fyrir að halda mjer ekki við þingsköpin, en gerðu sjálfir afstöðu mína til annara mála á undanförnum þingum að umtalsefni. Það virðist nú lítið koma þessu máli við, hvernig aðrir menn hafa litið á önnur mál á undanförnum þingum. Báðir þessir hv. þm. vísuðu skakt til afstöðu minnar til Dynjandimálsins í fyrra, sögðu, að jeg hefði engri sjerstöðu lýst í því. Það er afsakanlegt, þótt hæstv. atvrh. vissi ekki um hið rjetta, en það er síður afsakanlegt fyrir hv. form. fjhn. (KIJ), því að í þeirri néfnd lýsti jeg yfir því, að jeg ljeti málið hlutlaust. Þannig er það bókað í gerðabók fjhn., að málið hafi þar verið samþykt með 5:1 atkv. Jeg hafði líka þá sjerstöðu, að jeg fylgdi þeim brtt., sem kröfðust tryggingar af fjelaginu. Jeg hefi ekki skift um skoðun síðan. Jeg er á móti þessu máli, af því að mjer þykir nóg komið af slíkum leyfum sem því í fyrra.

Annars er ólíku máli að gegna um þetta mál, sem hjer liggur fyrir, og það í fyrra. Vatnsafl Dynjandisár er minna en Þjórsár. Það, sem ráðgert var að virkja vestra, er ekki helmingur á við það, sem á að virkja af Þjórsá. Hún hefir mikla aukningarmöguleika, virkjunin þar.

Svo þótti mjer æskilegt, að það kæmi sem best í ljós, hvaða líkindi væru til þess, að þeir, sem sækja um þessi leyfi, geti komið þeim í framkvæmd. Og nú er gott að geta bent á þetta sjerleyfi. Með hliðsjón af öllu þessu gat jeg látið það mál afskiftalaust, enda lítið um að ræða.

Hv. 1. þm. Árn. (MT) sagði, að fossavirkjunin mundi framvegis ekki hafa eins góðan byr í þinginu og nú. En jeg er ekki viss um það. Ef byggja á á því, að Dynjandi sótti um leyfi og fjekk það í fyrra, og að nú er sótt um leyfi af Titan, þá er það lítil sönnun þess. En jeg vil benda á það sama og hv. 2. þm. N.-M. (ÁJ), að jeg hefi sjeð það í norskum blöðum, að fossavirkjunarfyrirtæki þar berjist í bökkum og að virkjuð vatnsföll standi þar óhreyfð, virkjun og rafmagn tilbúið, sem enginn viti, til hvers á að nota. Þess vegna held jeg, að virkjunin hafi þar ekki sem bestan byr nú sem stendur. Sami háttv. þm. vildi lítið gera úr því, að þetta fyrirtæki myndi draga frá öðrum atvinnuvegum landsins. Hann gat þess þó, að til þess að reisa orkuverið þyrfti um 2500 manns. Þetta er mikill mannfjöldi, og jeg er hissa á því, að hv. þm. skuli gera lítið úr því að eiga að taka 2500 manns frá öðrum atvinnuvegum. Þótt nú sje hægt fyrir Árnesinga að reka landbúskap við hliðina á Flóaáveitunni og vegalagningum, þá getur þrengst um fyrir þeim, þegar búið er að taka 2500 manns frá þeim til þess að byggja orkuverið, auk þess sem mikinn mannafla þarf til þess að leggja brautina.

Svo þarf mikinn mannafla til þess að viðhalda brautinni og reka hana. Svo kemur að því, að bygt verður út, fleiri orkuver reist. Hjer er aðeins um að ræða virkjun lítils hluta fossaflsins, sem útheimtir hið minsta af mannafla, sem þó verða 2500 manns. En alt hitt verður enn mannfrekara, svo að mjer skilst, að þurfi fleiri en 2500 manns, þegar alt kemur til alls. Þannig verða upplýsingar hv. 1. þm. Árn. síst til þess að bæta útlitið fyrir landbúnaðinum um vinnuafl eða gera það glæsilegra. Málið verður enn alvarlegra en áður.

Þá vjek hv. þm. að því, sem jeg hafði sagt um einstök atriði frv. Hann vildi segja, að ákvæði 9. gr. frv. væru fullnægjandi, og hæstv. atvrh. sagði, að ekkert væri athugavert við orðalagið þar. Jeg veit ekki, hvort jeg hefi skilið rjett orð hæstv. atvrh. um, að hann skuli samþ. flutningsgjöldin. nema að hjer sje nauðgun á rjettu máli. En eigi atvrh. að ráða þessu, þá verður að kveða skýrar á um þetta. Sje það orðað svo, að ráðherra eigi að ráða flutningsgjöldunum, þá er orðalagið orðið ótvírætt. (KIJ: Jeg hefi ekkert á móti því).

Þá kem jeg að öðru ákvæði þessarar greinar, sem jeg fann að, að engin trygging er fyrir því, að fjelagið haldi áfram að reka brautina. Hv. 1. þm. Árn. sagði, að þetta ákvæði væri vítt. Jeg held, að það sje svo vítt, að ekkert geti komist undir það. Ætti að skylda fjelagið til þess að reka brautina, þá á að gera það í sambandi við þær ívilnanir, sem það fær, t. d. lægra hestorkugjald. Það má ekki minna vera en að sú ívilnun sje bundin því skilyrði, að fjelagið reki brautina. En þetta stendur til bóta og má laga það til 3. umr.

Háttv. 1. þm. Árn. vildi halda því fram, að í 5. lið 1. gr. frv. sje fjelagið skuldbundið til þess að vinna áburði en svo er ekki. En vitanlega hefði verið hægt að taka þetta fram berum orðum.

Hv. 1. þm. Árn. kvartaði undan því, að viðhöfð hefðu verið stór orð um þjóðernisglötun og sagði, að slíkar hugleiðingar stefndu að því að gera okkur ómögulegt að virkja fossana. Það er álitamál, hvort það er tilvinnandi að virkja fossana; það fer eftir atvikum. Gerum við það smátt og smátt eftir okkar getu og hagsmunum, þá er það heillavænlegast, en láta ekki útlendinga gera það, sem aðeins vilja græða á því.

Það liggja engir íslenskir hagsmunir bak við þetta mál, heldur eingöngu útlendir. Og þótt mikilsvert sje, að fossarnir sjeu virkjaðir, þá má ekki gera það í þarfir annara en landsmanna sjálfra.

Hv. þm. (MT) vildi halda því fram, að þótt þetta kæmist í framkvæmd þá sje þar ekki um stóra hættu fyrir landbúnaðinn að ræða. Mjer er alveg óskiljanlegt, hvernig hv. þm. kemst að þessari niðurstöðu, samkvæmt þeim tölum um mannafla, sem hann sjálfur gefur upp, að þurfi til framkvæmdar og starfrækslu þessa fyrirtækis. Í samanburði við aðrar framkvæmdir innanlands, sem ekki draga nema lítið brot af fólki frá landbúnaðinum, þá er með rjettu hægt að tala um hættu fyrir landbúnaðinn. Hv. þm. sagði, að þó að Reykjavík tvöfaldaðist, þá mundi ekki stafa hætta af því fyrir landbúnaðinn. Mjer skilst nú, að hún hafi ekki tvöfaldast á síðustu árum, og veit jeg þó ekki betur en að fólksstraumurinn til Reykjavíkur hafi verið talinn landbúnaðinum til þrengingar.

Þá er eitt atriði, sem jeg verð að minnast á, því að jeg hefi líklega gengið alveg fram hjá því í ræðu minni í gær. Hugsum okkur, að fyrirtækið sje komið í framkvæmd og svo komi það fyr eða síðar á daginn, að það borgi sig ekki að reka það og hætt verði við það. Hvar stendur Reykjavík þá, ef hún er orðin helmingi stærri en hún er nú? Við vitum, hvernig útlendingar, sem ekki eru bundnir við hag og heill þjóðarinnar, fara að, ef atvinnurekstur þeirra ber sig ekki. Það var talið nauðsynlegt að fá útlending til þess að reka atvinnu í Hafnarfirði. Það var sagt, að þar væri skortur og neyð, og það var satt. Því var útlendingnum leyft að setjast þar að og stunda atvinnu. Hvernig fór? Það varð til þess, að Hafnarfjörður óx um nokkur hundruð manns, sem komu til bæjarins til þess að fá sjer atvinnu. Svo kom það á daginn, að atvinnuvegurinn hætti að bera sig, og þá fór maðurinn. Að vísu hefir hann nú komið aftur. En af þessu geta menn sjeð, að útlendingamir fara burtu, ef atvinnan ber sig ekki, en Íslendingarnir sitja eftir með tvær hendur tómar og soltinn maga. Það er blessunin. Þá vildi hv. þm. bera saman Kaupmannahöfn og Sjáland. En þar er ekki jafnt á komið. Kaupmannahöfn er stór borg og Sjáland frjósamt land og vel ræktað. En Kaupmannahöfn var ekki bygð á einum degi. Hún hefir ekki orðið til á fám árum, heldur árhundruðum; hún hefir vaxið smátt og smátt jafnhliða því, sem ræktun landsins hefir aukist. En hjer er um það að ræða að gera stórbæ úr Reykjavík á skömmum tíma og gera algerða byltingu í atvinnulífi þjóðarinnar. Mannaflinn til starfans hlýtur að verða tekinn frá öðrum atvinnuvegum landsins, og afleiðingin verður sú, að þeir komast í kalda kol. Háttv. þm. virtist líka átta sig á þessu, en hann hugsaði sem svo, að fólksstraumurinn kæmi ekki úr Árnessýslu. Það má vel vera. Setjum svo, að Árnesingar hlytu svo mikið gott af þessu fyrirtæki, að þeir hjeldust við landbúnaðinn þar, en jeg efa þó, að gróðinn kæmi svo fljótt, að fólkið hjeldist við landbúnaðinn þar. En látum svo vera. Þá eru það bara aðrar sveitir landsins, sem þetta kemur niður á. Fyrir mjer er Árnessýsla ekki alt. Fyrir mjer er jafnmikið í húfi, ef einhverjir hlutar Norður-, Austur- eða Vesturlands leggjast í eyði. Þá held jeg, að það sje ekki fleira, sem jeg þarf að svara hv. 1. þm. Árn.

Þá kem jeg að hæstv. atvrh. Jeg skildi hann svo, sem honum hafi gramist, er jeg var að tala um öngul og beitu í sambandi víð þetta mál. Jeg skil það nú vel, því að það mun hafa verið hann, sem benti á beituna, sem hentugust var til þess að bitið yrði á öngulinn. Þá kom hann með hnútukast til mín út af því, að jeg mundi sjálfsagt hafa borið öngulinn fram beitulausan, ef fjelagið hefði snúið sjer til mín. Jeg hefi nú svarað því með því, sem jeg sagði um afstöðu mína til Dynjandavirkjunarinnar í fyrra. Jeg var alls ekki flm. þess, þó á frv. stæði, að það væri borið fram af fihn. Jeg hafði þar sjerstöðu, og það er ekki einsdæmi, að frv. komi frá nefnd án þess að allir nefndarmenn sjeu því fylgjandi. Þá vildi hæstv. ráðh. ekki kannast við það, að orðalag 9. gr. frv. væri ófullnægjandi viðvíkjandi skyldu fjelagsins til þess að starfrækja járnbrautina. Hann játaði þó að vísu, að fyrir gæti komið, að fjelagið hætti að standa straum af henni og sagði, að það færi þá aldrei ver en svo, að járnbrautin yrði ónotuð. En á eftir sagði hann, að það myndi auðvitað ekki verða látið viðgangast, heldur tæki ríkið við henni og starfrækti hana. Það var einmitt þetta, sem jeg hjelt fram. Ríkið verður þá að taka við henni fyrir það verð, sem hún hefir kostað. (Atvrh. MG: Hvar stendur það?). Mig minnir, að það standi einhversstaðar nærri stjórnarskránni, að eignir verði ekki teknar af mönnum án þess að fult verð komi fyrir, og jeg man ekki betur en að það kæmi hljóð úr horni hjer á dögunum, þegar hv. 4. þm. Reykv. (HjV) kom með brtt., sem hróflaði eitthvað við þessu ákvæði. En að stjórnarskráin gildi ekki jafnt gagnvart útlendingum, sem hjer eiga eignir, kemur auðvitað ekki til mála. Til þess að járnbrautin geti fallið endurgjaldslaust eða fyrir lítið verð til ríkisins, ef fjelagið hættir að starfrækja hana, þá þarf að taka slíkt fram í samningunum. En hvar stendur það? Þá sagði hæstv. ráðh., að ef menn ætluðust til, að útlendingar kæmu hingað með fje til þess bara að eyða því, þá mundum við verða að bíða öldum saman eftir því. Já, jeg býst nú við því. En jeg vil heldur bíða öldum saman en láta útlendinga gleypa mig með húð og hári og láta þá fá rjett yfir mjer. Þá sagði hæstv. ráðh., að það kæmi ekki málinu við, þó meira vatnsafl væri í Þjórsá en það, sem í ráði er að virkja. Jeg fæ nú ekki skilið, að það komi ekki málinu við. Ef fyrirtæki þetta verður arðberandi, þá hugsa jeg, að eigendur þess muni álíta, að einmitt þetta komi málinu nokkuð mikið við. Þá munu þeir auðvitað beita áhrifum sínum til þess að fá leyfi til þess að virkja meira. En hæstv. ráðh. sagðist hafa þá trú á Alþingi Íslendinga, að það mundi neita um virkjun, ef það áliti hana til ills. Þá er þess að gæta, að þetta er lagt undir mat. Hæstv. ráðherra heldur því fram, að stóriðja sje okkur til góðs. Hann mundi því vera fús á að leyfa meira af svo góðu, því meira, því betra. En jeg verð að segja, þó það sje ef til vill hart að segja það upp í opið geðið á Alþingi, að jeg hefi enga tröllatrú á því, að Alþingi geti ekki skjátlast eða orðið skyssa á. Jeg geri nú ekki ráð fyrir, að þetta komi til, meðan þeir eiga sæti á þingi, sem nú sitja. En jeg get ekki varist þess að benda hæstv. ráðherra á það, að hjer var á síðasta þingi samþykt að veita sjerleyfi. Mjer skilst, að stjórnin muni nú hafa litið svo á, að það sjerleyfi muni ekki vera til góðs, því að hún hefir ekki enn veitt leyfið. Hún mundi hafa veitt einkaleyfið, ef hún hefði álitið það til góðs. En eftir þetta stendur stjórnin illa að vígi með að segja, að hún treysti Alþingi til þess að samþykkja ekki slík leyfi nema þau sjeu til góðs. Jeg er ekki með þessu að áfellast Alþingi, því að auðvitað hefir það álitið einkaleyfið vera til góðs, en stjórnin hefir litið öðruvísi á það mál. En þannig mun það fara með Titan, eða hvaða fjelag sem er, sem mundi sækja um leyfi til aukinnar virkjunar. Sínum augum litur hver á silfrið, hvort það er til góðs eða ills, og vont að sjá, hvor verður í meiri hluta. Þessi vörn hæstv. ráðherra er því harla lítilsvirði. En ef þetta fyrirtæki reynist arðvænlegt, þá er enginn vafi á því, að fjelagið sækir um leyfi til þess að mega halda áfram, uns það væri búið að handsama alt vatnsafl Þjórsár, en það er tæp miljón hestafla. Sú virkjun kynni að vera leyfð og framkvæmd á svo skömmum tíma, að aðrir atvinnuvegir landsins þyldu ekki blóðtöku þá, sem það hefði í för með sjer.

Hæstv. ráðh. sagði það síðast, að hann sæi ekki ástæðu fyrir mig að vera á móti þessu fremur en virkjun Dynjanda á síðasta þingi, að öðru leyti en því, að hjer væri líka að ræða um járnbraut. Jeg hefi nú ekkert sagt um það, hvorki nú eða í fyrra, hvort jeg sje með járnbraut eða á móti. Hæstv. ráðh. vísaði mjer til samflokksmanns míns, til þess að ræða einstök atriði þess máls við hann, og sagði, að jeg mundi helst sannfærast af honum. Jeg vil nú gera hæstv. ráðh. sömu skil og vísa honum til samflokksmanns hans, hv. 2. þm. N.-M. (ÁJ). Hann er hlyntur járnbrautarmálinu, en á móti þessu máli af því að járnbrautin er í sambandi við það. Þetta skil jeg mjög vel, og jeg er hissa á þeim mönnum, sem eru með járnbrautarmálinu og telja það þjóðþrifafyrirtæki, að þeir skuli vera ánægðir með þetta frv., því að það er bersýnilegt, að það gerir ekki annað en tefja fyrir járnbrautinni, ef það verður samþykt. Mjer virtist hæstv. stjórn vilja eindregið flýta járnbrautarmálinu á síðasta þingi, en hjer er ekki um það að ræða að flýta framkvæmdum þess máls, því að á framkvæmdum þessa fyrirtækis, sem hjer um ræðir, verður ekki byrjað fyr en í fyrsta lagi árið 1929. En annars get jeg ekki breytt þeirri skoðun minni, að líkurnar fyrir framkvæmdum af hálfu þessa fjelags sjeu ekki miklar. Hæstv. ráðh. og hv. frsm. nefndarinnar fóru þungum orðum í minn garð fyrir fullyrðingar mínar um þetta efni. Þeir þóttust nú menn til þess að vita þetta miklu betur en jeg og fullyrtu, að sterkir menn stæðu að fjelaginu og ekkert væri að óttast. Jeg þykist nú vita, að þessir hv. þm. hafi ástæðu til að ætla, að jeg sje ekki svo mjög kunnugur hnútum fjelagsins. En í sambandi við það, að háttv. frsm. gat þess, að sumir auðugustu menn Noregs stæðu að fjelaginu, þá skal jeg geta þess, að jeg þekki einn hluthafa, sem á 14 milj. í fjelaginu, og jeg fullyrði, að hann leggur ekki grænan eyri meira í það. Þannig gæti því verið varið um fleiri. Það má vel vera, að það sjeu auðmenn, sem standa að fjelaginu, en þá er eftir að vita, hve mikið af fjármagni fjelagsins er í höndum þeirra, því að eftir því fer skylda þeirra til að leggja fram og hvöt þeirra til að leggja fram meira fje. Það er ekki við því að búast, að menn vilji tefla 10–20 miljónum í tvísýnu til þess að bjarga fjórðung miljónar.

En það er af tilviljun, að jeg veit dálítið meira um þetta fjelag. Jeg veit, að það á jarðir á Skeiðaáveitusvæðinu fyrir austan, og það hefir legið við borð, að gert yrði fjárnám í þeim jörðum fyrir ógreiddum tillögum til áveitunnar. Jeg veit ekki, hvort fjelagið hefir greitt þau ennþá, en ef svo er, þá væri gott að fá upplýsingar um það. Þarna hefir fjelagið þá ekki getað int af hendi þær skyldur, sem kotbændur þar eystra gera, og ber slíkt ekki vitni um mikið ríkidæmi, eða að fjelagið sje svo öflugt eins og hæstv. ráðh. og hv. frsm. samgmn. vilja vera láta. Þá hefir verið sagt, að það stæðu ákaflega öflugir menn að baki þessara manna. Það er nú óvíst, að hve miklu liði þeir menn verða, sem að baki standa. Það er ekki víst, að þeir verði að eins miklu liði og Björn að baki Kára, og þótti sá styrkur þó aldrei mikill. Áður en jeg trúi á kraftaverk frá þessum mönnum, þá vil jeg sjá eitthvað af afrekum þeirra. Jeg vil fyrst sjá þá inna af hendi lögmæltar skyldur sínar hjer á landi.

Hv. frsm. spurði mig mjög fast og eindregið, hvað jeg vissi um fjelagið og hag þess. Nú vil jeg spyrja hann: Hvað veit hann um það, að fjelagið hafi nóg fje til þess að leggja fram? Jeg vænti, að hann svari þessu skýrt og skorinort, á hverju hann byggir þær fullyrðingar sínar um það, að fjelag, sem ekki getur int af hendi lögákveðnar smáfjárgreiðslur hjer á landi, geti lagt fram tugi miljóna til þess að koma þessu fyrirtæki á stofn. Jeg vil hafa leyfi til að efast um það, og annað hefi jeg ekki gert. Jeg hefi ef til vill kveðið svo sterkt að orði, að jeg sje sannfærður um, að ekkert verði úr framkvæmdum. Jeg legg ekkert upp úr því, þó sagt sje, að hluthafarnir eigi nóg fje til. Jeg hefi fleiri ástæður til þess að efast. Jeg efast um það, að þetta fyrirtæki geti nokkurn tíma borið sig. Jeg efast um, að þessir menn sjeu svo vitlausir, að þeir vilji leggja fje í þetta fyrirtæki.

Jeg þykist sjá, að þeir ætlist til, að menn gangi með bundið fyrir augun og álpist svo á eftir þeim athugunarlaust. En jeg stend þar á öndverðum meið, því að jeg skoða málið frá báðum hliðum. Og af þeirri niðurstöðu, sem jeg hefi komist með því að líta á málið frá báðum hliðum, get jeg með góðri samvisku lagt til, að hv. deild felli frv. nú þegar.

Jeg held svo, að það sje ekki fleira í ræðum hv. þm., sem jeg þarf að svara. Jeg hefi bent á þá hættu, sem vofir yfir þjóðfjelaginu, ef Alþingi veitir þetta leyfi, sjeð frá því sjónarmiði, að slíkt risafyrirtæki rísi frá grunni eins og forgöngumennirnir hafa lýst því: að atvinnuvegum landsmanna stafi hætta af því, það sogi til sín vinnukraft sveitanna, svo að bændur standi ráðþrota eftir. Hinsvegar hefi jeg líka bent á, að ef ekki verður neitt úr neinu, eins og alt virðist benda á, þá sje það ekki samboðið virðingu Alþingis að samþ. þetta frv. — ekki sæmilegt að láta menn í öðrum löndum slá peninga út á nafn Alþingis.

Og enn hefi jeg bent á og fært rök fyrir, að það sje ekki til þess að greiða fyrir nauðsynlegum framkvæmdum í landinu að fá slík leyfi mönnum, sem ekkert hafa með það að gera, og ekkert geta gert. Slíkar sjerleyfisveitingar mundu vekja ótrú á landinu og verða þess valdandi, að okkur gengi erfiðlega að fá lánsfje til annara framkvæmda, er ekki verður hjá komist að hrinda eitthvað á leið þegar á næstu árum.