27.04.1927
Neðri deild: 60. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 2853 í B-deild Alþingistíðinda. (1973)

23. mál, járnbrautarlagning og virkjun Urriðafoss

Frsm. (Klemens Jónsson):

Jeg sje, að hv. 1. þm. Reykv. (JakM) ætlar nú að hefja nákvæmlega sömu umræður og halda áfram sama leik um mál þetta og áður. Að vísu talaði hann nú miklu hóflegar en við mátti búast. Hann kom með sömu spurningu og áður, hverjar líkur væru fyrir framkvæmdum. Því hefir verið svarað áður. Sú vinna, sem búið er að leggja í þetta verk, gefur sterkustu líkur fyrir því, að því verði haldið áfram. Hv. þm. kvaðst telja það víst, að áburðarefni yrðu ekki unnin, en eftir frv. er það skilyrði fyrir sjerleyfinu. Jeg hefi nýlega fengið brjef frá einum af forgöngumönnum fjelagsins, og hann telur það sjálfsagt, að áburðarefni verði unnið. Það er alveg víst, að fjelagið hlýtur að vinna áburðarefni, og hefir enda boðist til þess í beiðni sinni um sjerleyfi. Þá talaði hann um það, að ekki hefði verið talað við hjerlenda sjerfræðinga um þetta efni. Þetta er rjett, en mjer er ekki kunnugt um, að neinir slíkir sjerfræðingar sjeu hjer til. En norskur alþektur sjerfræðingur í þessari grein hefir verið hjer uppi og haft mikil afskifti af þessu máli, og sannast að segja, þá treysti jeg honum betur en þeim íslensku verkfræðingum, sem hjer kynnu að vera. Þeir eru flestir nýbakaðir kandídatar og geta því tæplega haft mikla sjerþekkingu í þessum efnum eða verulega reynslu, samanborið við gamlan og reyndan verkfræðing. Þá sagði hv. þm., að hjer svifi alt í lausu lofti um fyrirætlanir fjelagsins. Það er nú ósköp trúlegt, að menn, sem búnir eru að leggja nær tveim milj. króna í fyrirtækið, byggi allar sínar áætlanir um það í lausu lofti! En það er þá verst fyrir þá sjálfa. Hv. þm. er óþarft að hafa áhyggjur út af þeim. Þá er það heldur ekki rjett hjá hv. þm., að það sje ólíklegt, að fjármálamenn úti um heim muni leggja fje í fyrirtæki sem þetta. Þeir hafa þegar lagt alt að tveim miljónum, — og því þá ekki að halda áfram, ef haganlegt leyfi fæst? Ef þeim þykir sjerleyfið aðgengilegt, þá munu þeir geta útvegað nægilegt fje. Þá gat hv. þm. þess að endingu, að ef ekkert yrði úr framkvæmdum, sem hann vonaði, þá mundu allar aðrar framkvæmdir í þessu máli stöðvast þann tíma, sem sjerleyfið gilti. Þessu hefir oft verið haldið fram áður, en jafnframt hefir verið bent á það, hve miklar líkur sjeu til þess, að við sjálfir mundum aðhafast nokkuð í járnbrautarmálinu á næstu árum. Allir, sem þekkja fjárhagsástæður ríkissjóðs, vita, að það getur ekki komið til mála að leggja fram 8–9 miljónir til járnbrautar á næstu árum. Þá taldi hann og, að þetta mál gæti haft tálmandi áhrif á virkjun Sogsins. Hjer er nú komin fram tillaga um að taka Sogið; jeg hefi ekki amast við henni og mun fylgja henni. Allar ástæður, sem hv. þm. kom fram með nú, hafa komið fram áður og er búið að svara áður. Jeg mun því ekki hirða um að orðlengja þetta meira, og býst við að geta lokið hlutverki mínu sem frsm. nefndarinnar með þessari litlu ræðu.