13.05.1927
Neðri deild: 74. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 3246 í B-deild Alþingistíðinda. (2074)

20. mál, Landsbanki Íslands

Forsrh. og fjrh. (Jón Þorláksson):

Út af brtt. á þskj. 591, frá hv. 4. þm. Reykv. (HjV), verð jeg að segja fáein orð.

Brtt. við 14. gr., um það, að af seðlabankanum verði heimtuð útlán gegn ábyrgð bæjar-, sýslu- og sveitarfjelaga, hefir komið til athugunar í hv. Ed., og var ekki álitið rjett, að seðlabankinn annaðist slík lán, heldur sparisjóðsdeildin. Er það heimilað í 28. gr. 3. lið, að sparisjóðsdeildin veiti slík lán gegn þeirri ábyrgð, sem greind er í till. Þetta eru venjulegast löng lán, sem seðlabankinn getur ekki veitt, nema með því að binda fje sitt til langs tíma, en það er ekki tilætlunin, að hann geri. Hinsvegar er ekki útilokað, að seðlabankinn geti veitt bæjar- eða sveitarfjelögum lán með því að kaupa af þeim skuldabrjef, enda er það heimilt samkvæmt 14. gr.

Seinni liður 1. brtt. er málsgrein, sem feld var burt úr frv. í Ed., af því að rjettara þótti að hafa tæmandi upptalningu á störfum seðlabankans, sem nú eru greind í 14. gr. Þótti þá ekki viðeigandi að hafa þar almenn og óákveðin ákvæði, sem ef til vill gætu skilist á ýmsan veg og leitt til þess, að bankinn teldi sjer heimila margvíslegri starfsemi en til var ætlast.

Um hinar brtt. ætla jeg ekki að tala út af fyrir sig. Jeg get sagt það sama og hv. frsm. fjhn. (MJ), að jeg er þeim öllum mótfallinn. Þær eru aðeins til þess að slá málinu á dreif. Jeg held, að ekki sje hætta á neinni hlutdrægni um skipun endurskoðenda, þótt stjórninni sje falið að skipa endurskoðendur eins og brtt. hv. fjhn. fer fram á, vegna þess, að endurskoðendur eiga að vera bókhaldsfróðir menn, sem eiga að framkvæma bókhalds- og reikningsendurskoðun í bankanum. Það er ábyrgðarmikið starf, þar sem þeim ber að líta eftir, að ekki sjeu misfellur á bókhaldi og afgreiðslu starfsmanna í bankanum.

Háttv. þm. (HjV) sagði, að stjórninni væri kappsmál að fá að skipa formann bankaráðsins. Það er fjarri sanni. En stjórninni er það kappsmál, að þetta frv., sem legið hefir fyrir þinginu ár eftir ár, fái afgreiðslu á þessu þingi.

Færi vel á því, að hv. þm. reyndu að taka rögg á sig og gangi ekki svo til kosninga, að hafa ekki bundið enda á þetta mál, sem svo langt er komið. Síst ætti nokkrum að detta í hug að gera sjer leik að því að tefja það.