30.03.1927
Efri deild: 40. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 3403 í B-deild Alþingistíðinda. (2136)

2. mál, stjórnarskipunarlög

Frsm. minni hl. (Ingvar Pálmason):

Jeg lofaði hæstv. forsrh. því við 2. umr. að gera enn tilraun til samkomulags við 3. umr. Stjórnarskrárnefndin hefir á milli umræðna haldið fund um málið, og þar lagði jeg fram brtt. við 4. gr. frv., í þeirri von, að samkomulag næðist. Við 2. umr. var því haldið fram, að fyrir hæstv. ráðh. vekti aðallega að draga úr kostnaði bæði ríkisins og einstaklinga með því að láta landskjör og kjördæmakjör fara saman. Jeg get gengið inn á þetta, en inn á hinar aðrar breytingar get jeg ekki gengið, svo sem að kjörtímabil kjördæmakosinna þm. væri lengt í 6 ár, að styttur væri kjörtími hinna landskjörnu og að þingrof nái til þeirra. Fyrir þessa agnúa vil jeg synda með brtt. minni hl., og mjer virðist sem mjer hafi tekist það og náð aðaltilganginum, að landskjör og kjördæmakjör færu fram samtímis. En þegar þing er rofið, á, eftir brtt., kosning sú, sem þá fer fram, að gilda aðeins það, sem eftir er af kjörtímabilinu, svo að kosningum fjölgar ekki, en fyrir það verður ekki sýnt, að af þingrofi leiði kosningar. Því sje jeg ekki annað en að segja megi, að með brtt. minni hl. sje náð þeim tilgangi, sem átti að ná með 4. gr. frv., um sparnað. En meiri hl. nefndarinnar vildi ekki ganga að þessari brtt., og þótti mjer það einkennilegt, vegna þess að mjer skildist, að sumir nefndarmennirnir væru henni annars samþykkir og allur meiri hl. virtist ekki vilja sýna brtt. neina andúð. Mjer þótti það miður, að ekki náðist samkomulag, því að úr því að brtt. er komin fram, vildi jeg, að deildin skæri úr því, hvort hún vilji ganga að sparnaðartill. minni hl., en hafna þeim ókostum, sem felast í 4. gr. Mjer skildist á meiri hl., að svo gæti farið, að hann hallaðist að brtt., ef málið kæmi aftur til þessarar deildar, og það gæti þá orðið til samkomulags, en eins og málið stæði nú sæi hann ekki ástæðu til þess.

Jeg ætla þá ekki að fjölyrða meir um þessar brtt., því að þær eru svo ljósar, að jeg vona, að allir hv. þm. geti skilið þær. En verði brtt. við. 4. gr. feld, þá er ekki rjett sú útskýring á 4. gr., að hún sje aðallega sett til sparnaðar. Og það vil jeg fá í ljós; verði brtt. feld, verð jeg að draga af því þá ályktun, að það sjeu hin önnur ákvæði, er felast í 4. grein — lenging kjörtímabils hinna kjördæmakosnu þingmanna og að þingrof nái til hinna landskjörnu —, en ekki sparnaðurinn, sem er aðalatriðið.

Jeg get látið þetta nægja. Hv. meðflm. minn og samverkamaður í minni hl. mun gera grein fyrir hinum öðrum brtt. Jeg vil taka það fram, að jeg var í vafa um 5. og 6. brtt., því þær hafa komið hjer fram áður; en mjer virðist þær vera óumflýjanleg afleiðing af brtt. Því afrjeð jeg að láta þær fylgja. En verði 1. brtt. við 4. gr. feld, þá tek jeg þessar brtt. aftur.

Jeg læt þetta nægja, því að háttv. meðflm. minn, hv. 1. landsk. (JJ) mælir fyrir hinum brtt. Þó skal jeg taka það fram viðvíkjandi 2. brtt., að ef á annað borð álíst rjett að takmarka kjörgengi manna vegna stöðu þeirra í þjóðfjelaginu, þá á að gera það í stjórnarskránni sjálfri, en ekki í almennum lögum, svo sem eins og bankalögunum. Annars legg jeg ekki eins mikla áherslu á þessa brtt. eins og hv. 1. landsk.