24.02.1927
Neðri deild: 14. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 84 í C-deild Alþingistíðinda. (2274)

36. mál, bann gegn næturvinnu

Flm. (Hjeðinn Valdimarsson):

Jeg ætla aðeins að benda hv. deild á, hvílíkt orðbragð hæstv. forseti (BSv) hefir leyft hv. 2. þm. G.-K. (ÓTh). Hann hefir notað hjer orð eins og „svívirðileg ummæli“ og „illgirnislegur vanmáttur“, án þess að átalið væri! Tel jeg því sjálfsagt, að hæði jeg og aðrir fáum óátalið að nota hliðstæð orð, er við þurfum á að halda og við óskum þess.

Sveitavinna er ósambærileg við fermingu og affermingu skipa í góðri höfn að næturlagi. Munu bændur ekki kannast við, að hey sje þurkað að næturlagi, nje reglulega unnið að slætti 20–30 tíma samfleytt.

Þeim ummælum hv. 3. þm. Reykv. (JÓl), að togaravökulögin sjeu stöðugt brotin, vil jeg mótmæla sem algerlega ósönnum, og þau fáu skifti, sem það er gert, ætti að hegna fyrir, en ekki hælast um það.

Ef það er eina vafamálið hjer, hvort verkamenn vilja framgang þessa máls, ætti ekkert að vera hægara en að rannsaka það, t. d. meðan málið væri fyrir allshn. En þetta er aðeins fyrirsláttur.

Um vilja Hafnfirðinga í þessu máli ætti mjer að vera sæmilega kunnugt, því að í gærkveldi var jeg þar á fundi, og var samþykt áskorun um að leggja niður næturvinnu. Þess er ekki heldur von, að framkvæmdastjóri „Kveldúlfs“ viti meira um vilja verkamanna en formaður „Dagsbrúnar“.

Ummæli mín um skipstjórana get jeg sannað.