05.04.1927
Neðri deild: 47. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 309 í C-deild Alþingistíðinda. (2464)

69. mál, hvalveiðar

Frsm. (Sigurjón Jónsson):

Þetta frv. er svo kunnugt hjer í hv. deild, að ekki er þörf á að fara um það mörgum orðum. Það eru nú tvö ár síðan frv. þessa efnis var afgreitt hjer út úr hv. deild, og það frv. var samhjóða þessu. Sjútvn. hefir ekki getað orðið alveg samferða í tillögum sínum um afgreiðslu málsins. Þrír menn vilja samþykkja frv. óbreytt, en tveir hafa áskilið sjer óbundin atkvæði. Þeir munu gera grein fyrir afstöðu sinni, en sjerstaða annars þeirra er ekki þess eðlis, að hann sje á móti þessu máli.

Hjer er um að ræða að gera landsmönnum mögulegt að stunda hvalveiðar, því að svo framarlega sem einhverjir landsmenn eru því vaxnir, álítur sjútvn. ekki rjett að meina þeim það með lögum. Það hefir nú rutt sjer til rúms sú skoðun, að hvalveiðar sjeu ekki til meins fyrir síldar- eða fiskigöngur, og mönnum hefir komið saman um, að sú gamla skoðun á því atriði sje hin mestu hindurvitni. Hitt er alkunna, að hvalurinn lifir á sömu fæðu og t. d. síldin, og leitar því sömu átu, og sjest þar af leiðandi oft í fylgd með henni. Það mætti því fremur segja, að hvalurinn væri keppinautur ýmissa fisktegunda um fæðu.

Jeg sje ekki ástæðu til þess að orðlengja þetta frekar, en vænti þess, að frv. verði samþykt.