02.05.1927
Neðri deild: 64. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 695 í C-deild Alþingistíðinda. (2704)

97. mál, gin- og klaufaveiki

Tryggvi Þórhallsson:

Jeg vil láta í ljós gleði mína yfir þeim undirtektum, sem hv. landbn. hefir nú veitt þessu máli. Þess var raunar að vænta af þeim mönnum flestum, sem þar eiga sæti, og var í fullu samræmi við fyrri tillögur nefndarinnar að vilja nú taka málið til athugunar á ný. Það sýnir og sjerstakan velvilja hv. nefndar, að hún fellur nú frá kröfu sinni um að málið verði tekið af dagskrá, en ætlar að athuga það á ný til 3. umr. — Fyrir þessar sakir get jeg látið hjá líða að ræða málið verulega, en vildi aðeins leyfa mjer að gera tvær athugasemdir við ræðu hæstv. atvrh. — Hann sagðist ekki vera hræddur um, að veikin bærist hingað, og bygði það mest á því, að hún væri ekki enn komin, þrátt fyrir margra ára viðskifti við Danmörku, þar sem veikin er landlæg. Jeg skal benda á sorglegt, sögulegt dæmi til að sýna, að valt er að treysta þessu. Flestir muna líklega eftir hinni skæðustu veiki, sem hingað hefir borist, drepsótt á mönnum, en ekki peningi. Hún geisaði um nágrannalöndin tugum ára áður en hún barst hingað. Þá hafa eflaust margir sagt hjer á landi, að svartidauði kæmi hjer áreiðanlega ekki. En hann barst hingað, þótt svo lengi drægist, og drap helming landsbúa. Það er því valt að sofa á þessum kodda, og þeir, sem það gera, mega búast við að vakna einhverntíma við illan draum. — Einnig sagði hæstv. ráðh. (MG), að hann væri ekki hræddur við hey norðanfjalls úr Noregi. En hver er kominn til að segja, hvaðan úr Noregi heyið er, sem flutt er út frá Björgvin? Jeg geri ráð fyrir, að því heyi, sem flutt er til Björgvinjar frá ýmsum sveitum Noregs, fylgi engin vottorð eða skilríki um, hvaðan það er.

Jeg álít, að hjer sje um svo merkilegt mál að ræða, að ekki megi fljóta sofandi að feigðarósi. Jeg hefi því fulla ástæðu til að fagna undirtektum hv. landbn. og vona, að hún geti gengið svo frá málinu, að frv. verði að lögum á þessu þingi.