31.03.1927
Neðri deild: 43. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 799 í C-deild Alþingistíðinda. (2799)

103. mál, atkvæðagreiðsla utan kjörstaða kjósanda við alþingiskosningar

Jón Guðnason:

Hv. 4. þm. Reykv. beindi þeirri fyrirspurn til okkar, hvort við mundum fylgja frv., ef kjördagur væri ekki færður. Þar til er því að svara, að við mundum ekki hafa komið fram með frv. þetta nema í sambandi við færslu kjördags. Þó á frv. sjálfstæðan tilverurjett, hvenær á árinu sem kosningadagur er ákveðinn. En það er erfitt að koma fram þessari endurbót á kosningalöggjöfinni, ef kjördagur á að haldast hinn sami, sökum þess, hve stuttur tími er þá frá kjördegi til þess, er þing kemur saman. Getur það þá valdið þingmönnum miklum óþægindum, að fá ekki að vita fyr en svo að segja á síðustu stundu, hvort þeir eiga að búa sig undir þingferð eða ekki. Jeg get búist við því, að ef frv. verður samþ., en kjördagur ekki færður, að það muni geta dregist fram undir jól að telja atkv., en sumir þingmenn verða að leggja á stað í janúar, til þess að koma nógu snemma til þings, og er þeim því veittur alt of naumur tími til þess að búa sig undir ferðalagið og burtveruna.

Með þessu frv. og færslu kjördagsins hefir bæði verið reynt að bæta úr þessu og sjá svo um jafnframt, að allir geti neytt kosningarrjettar síns, þeir, er það vilja.