30.03.1927
Neðri deild: 42. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 833 í C-deild Alþingistíðinda. (2817)

8. mál, samskólar Reykjavíkur

Atv.- og dómsmrh. (Magnús Guðmundsson):

Vegna þess, hve hv. frsm. meiri hl. hefir svarað hv. frsm. minni hl. (JG) vel og rækilega, get jeg verið stuttorður um þá hlið málsins. Hv. þm. (JG) hjelt mjög langa ræðu, en innihald þeirrar ræðu var ekki að sama skapi. Hv. þm. vill ekki taka neinn sjerstakan skóla út úr, heldur búa til kerfi, sem gildi jafnt fyrir alt landið. Viðvíkjandi heimavistum við mentaskólann sagði hv. þm., að ekki mætti gera ráð fyrir framkvæmdum í framtíðinni. Hv. frsm. meiri hl. hefir svarað báðum þessum mótbárum, og hv. deild hefir svarað þeirri síðarnefndu þannig, að ástæða sje til þess að gera slíkar ráðstafanir, þar sem hún hefir samþykt frv. um heimavistir. Jeg tel þess vegna, að þessi hv. deild hafi skorið úr því atriði, en um hitt atriðið vil jeg vísa til ræðu hv. frsm. meiri hl. Og jeg vil undirstrika það, að hingað til hefir það ekki þótt nein goðgá, að taka einstök hjeruð út úr, svo að það nær engri átt að ætla, að hjer sje um sjerstöðu fyrir Reykjavík að ræða. Þvert á móti er það upplýst, að Reykjavík kemur til með að leggja meira til stofnkostnaðar þessa skóla en önnur hjeruð hafa gert, af því að ríkissjóður á eftir gildandi lögum að kosta að öllu leyti vjelstjóraskólann, en hann verður mjög dýr í byggingu þar sem svo stendur á, að hann þarf mikil og dýr kensluáhöld og húsrúm undir þau. Svipað þessu má segja um rekstrarkostnaðinn. Hann verður tiltölulega hærri fyrir Reykjavíkurbæ en hjá öðrum hjeruðum. Alt þetta hefir hv. frsm. meiri hl. sýnt fram á.

Það má altaf deila um, hvaða skólar sjeu ríkisskólar og hverjir ekki. Jeg fyrir mitt leyti hefi altaf álitið, að þeir skólar einir væru ríkisskólar, sem að öllu leyti eru kostaðir af ríkinu. Um það má lengi deila, en það er engin ástæða til þess í þessu sambandi. Hjer er aðeins um það að ræða, hverjir eiga að skipa kennara. Jeg mun ekki gera það að kappsmáli. Ef þau hjeruð, sem unglingaskóla hafa, halda því fram, að þau vilji ráða kennurum, skal jeg ekki setja mig upp á móti því. En þetta atriði er ekki hægt að láta vera undir Reykjavíkurbæ komið, af því að í samsteypunni er einn ríkisskóli, og stjórnin verður að skipa kennara þar.

Jeg vil minna á, að fyrir mentaskólanum er svo komið, að ekki er hægt að koma öllum nemendunum fyrir í skólahúsinu, og er óhjákvæmilegt að leigja meira og meira húsnæði úti í bæ. Meira að segja getur komið til mála að neita unglingum um fræðslu, það er að segja, að skólinn taki aðeins ákveðna tölu. En fyrst og fremst er efamál, eftir hvaða reglum ætti að gera það, og í öðru lagi sje jeg ekki, hvernig ríkið getur staðið sig við að neita unglinguni um fræðslu. En ef ekkert er að gert, hlýtur afleiðingin að verða sú fyr eða síðar.

Um brtt. hv. meiri hl. hefi eg ekki mikið að segja. Jeg skal geta þess, út af tillögunni um sameiginlegt nafn á slíkum skólum, að jeg get fallist á hana. Um síðustu brtt. við 13. gr. er það að segja, að í frv. hefir slæðst inn einhver sú meinlegasta prentvilla, sem jeg hefi orðið fyrir. Þar stendur „úr ríkissjóði“ í staðinn fyrir „úr skólasjóði“. Það vill svo vel til, að þetta er auðsæ prentvilla, því að ef það væri rjett, sem í frv. stendur, ætti aldrei að borga neitt úr þessum skólasjóði.

Jeg get tekið undir það með hv. frsm. meiri hl., að jeg á erfitt með að skilja, hvernig það getur átt sjer stað, að nefnd, sem er ekki meira ósammála en háttv. mentmn. er um þetta mál, geti klofnað. Mjer finst hún eiga svo vel samleið eftir nál. að dæma, að ekki sýnist vera ástæða til þess að hún klofnaði. Báðir hlutar vilja hlynna hið besta að þessum málum, og jeg get ekki sjeð, að það eigi að valda falli frv., þó að það eigi ekki að gilda fyrir alt landið, því að sem stendur er þörfin mest í Reykjavík. Jeg verð að segja, að mjer þykir þeir Framsóknarmenn, sem sæti eiga í mentmn. með hv. þm. V.-Ísf., sem er settur fræðslumálastjóri, taka lítið tillit til þeirrar sjerþekkingar, sem hann óneitanlega hefir fram yfir þá. Jeg veit ekki, hvort jeg á að taka það sem bendingu um, að mjer hafi mistekist setning fræðslumálastjóra.

Um brtt. hv. frsm. meiri hl. á þskj. 254 þarf jeg að segja nokkur orð, í sambandi við það, sem stendur í nál. minni hl. um samvinnuskólann. Þar stendur svo: „En mjög furðar minni hl. sig á því, að ekki skuli hafa verið leitað um þetta mál álits þeirra, sem að samvinnuskólanum standa, nje á neinn hátt tekið tillit til samvinnuskólans við samningu þessa frv.“ o. s. frv. Jeg veit ekki betur en að hv. frsm. meiri hl. hafi skýrt frá því í nefndinni, að jeg spurði hann, hvort til nokkurs væri að bjóða samvinnuskólanum að vera með, því að auðvitað bar jeg þetta undir hann, en hann svaraði þeirri spurnigu neitandi. Mjer finst því undarlegt, að minni hl. skuli telja rjett að setja þetta í nál. Jeg skil ekki, að það verði talið óforsvaranlegt af mjer, þó að jeg legði trúnað á orð hv. frsm. meiri hl., og jeg býst ekki við, að það verði auðvelt fyrir minni hl. að standa við orð sín í nál. Annars er það svo, að eftir frv. sjálfu og aths. við það er því ekki fyrirgert, að samvinnuskólinn geti verið með, ef hann vill. í 1. gr. frv. stendur: „Í samskóla Reykjavíkur skulu vera fyrst um sinn þessir framhaldsskólar“, o. s. frv. Þetta orðalag er einmitt haft til þess að gefa til kynna, að aðrir skólar geti komist að. Frá minni hálfu hefir aldrei verið neitt því til fyrirstöðu, að samvinnuskólinn yrði með. Það stendur honum ætíð opið.

Viðvíkjandi brtt. hv. frsm. meiri hl. á þskj. 254 skal jeg enn taka það fram, að jeg get vel fallist á fyrri hluta hennar. En jeg get ekki sjeð, að niðurlag hennar eigi heima í þessu frv. Frv. er um samskóla Reykjavíkur, en ekki aðra skóla, svo að eftir rjettum reglum á sá hluti tillögunnar ekki heima þar.

Þá kem jeg að orðum hv. frsm. (ÁÁ) um þessa brtt. sína. Hann lýsti sem sje yfir því, að hann gerði samþykt hennar að skilyrði fyrir fylgi sínu við frv. Jeg verð að segja, að mig furðar mjög á því, að hann, sem er fræðslumálastjóri, skuli vilja fórna öllu málinu fyrir þetta eina atriði. Jeg hefi þó skilið hv. þm. svo, að hann teldi þetta mál með stærstu fræðslumálum, sem legið hafa fyrir þinginu á síðari árum. Jeg skal segja hv. þm. það, að jeg met frv. miklu meira en svo, að mjer detti í hug að falla frá fylgi mínu við það, þó að þessi brtt. verði samþykt. Jeg segi þetta af því, að jeg vil ekki, að hv. þm. sæti neinum ámælum út af því, sem hann sagði við mig um samvinnuskólann, því að vera má, að þeir, sem að þeim skóla standa, sjeu óánægðir við hann út af svari hans við mig.

Jeg vil segja hv. minni hl. n., að mjer finst ekki ástæða til að vera að skattyrðast út af þessu máli, ef samvinnuskólinn vill ekki ganga inn í samskólakerfið. Jeg held, að yfirleitt sje til lítils að vera að lengja umr. um þetta. Væri mjög æskilegt, ef atkvgr. gæti farið fram áður en fundi er slitið.