17.03.1927
Efri deild: 30. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 213 í B-deild Alþingistíðinda. (287)

5. mál, iðja og iðnaður

Einar Árnason:

Jeg er ekki allskostar ánægður með síðari brtt. á þskj. 107. Mjer þykir að vísu frv. gera ráð fyrir of háum gjöldum til ríkissjóðs fyrir sveinsbrjef og leyfi, en þessi brtt. finst mjer ganga of langt í lækkunaráttina. Jeg vildi helst, að hjer væri hægt að fara milliveg. Jeg felst alveg á þá brtt. hæstv. ráðh. (JÞ), að gjaldið fyrir iðjuleyfi sje fært úr 500 krónum niður í 100. En í samanburði við það finst mjer gjaldið fyrir iðnbrjef og meistarabrjef of hátt, ef það er látið standa eins og nú er í frv. Til þess að gefa hv. deildarmönnum kost á að greiða atkvæði um aðrar tölur, vil jeg leyfa mjer að leggja hjer fram skriflega brtt. Málið er svo einfalt, að hv. þdm. geta áttað sig á því strax, hvort þeir vilja fylgja þessari miðlunartillögu. Hún hljóðar svo:

Brtt. við 23. gr.

a. Fyrir „50,00“ komi: 25,00.

b. Fyrir „100,00“ komi: 50,00.

Jeg hefi ekki tekið með lækkun á iðjuleyfi, þar sem þegar er fram komin till. um það frá hæstv. ráðh. (JÞ).